132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[12:51]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég ætla að ítreka þessa spurningu: Hvað ætla menn að halda þessu þinghaldi lengi fram í dag? Á að vera fram á kvöldið? Ég spyr vegna þess að ég ætlaði að vera farinn norður í Skagafjörð heim til mín en þessi skyndilega fundarboðun kom mér nokkuð á óvart. Mér finnst bara sjálfsögð kurteisi við þingmenn að menn segi hvernig þinghaldi muni fram halda og hvað forseti hafi hugsað sér. Einnig fýsir mig að vita hvort boða eigi fund í iðnaðarnefnd þingsins. Mér finnst það vera eitt af því sem ætti að gera. Ég skil í raun ekkert í hæstv. forseta, Sólveigu Pétursdóttur. Hún er búin að boða það að ætla að halda fund með þingflokksformönnum og hvers vegna í ósköpunum kemur hún þá ekki einfaldlega þeim fundi á? Í staðinn er þinghaldinu haldið hér áfram í algjörri óvissu. Mér finnst það mjög sérkennilegt.

Það er komið fram hjá einum frumvarpshöfundi að það muni breyta réttarstöðu vatnsaflsvirkjana. Þar af leiðandi hefur iðnaðarnefndin verið ranglega upplýst um frumvarpið. Það var sagt hér við nefndarmenn að þetta breytti í engu efni og réttarstöðu mála hvað varðar eignarrétt, heldur væri eingöngu formbreyting. Það þarf einfaldlega að koma þessu á hreint, sérstaklega í ljósi þess að nú um stundir situr hæstv. forsætisráðherra sem hefur verið staðinn að ýmsum umdeildum stjórnarathöfnum. Til dæmis var fyrir nokkrum árum, um tveimur áratugum, farið í fiskverndarkerfi sem síðan breyttist í að verða að einhvers konar peningakerfi og svo einkennilega vildi til að sjálfur hæstv. forsætisráðherra auðgaðist á þessu kerfi sem hann bjó til. Þetta gerir m.a. að verkum að fólk hefur vara á sér hvað varðar það frumvarp sem við erum að ræða hér. Þess vegna finnst mér ofureðlileg og kurteisleg krafa til forseta að hún greiði úr þessu máli sem allra fyrst, sérstaklega þegar komið er upp vafamál um frumvarpið, þ.e. hvort það sé í raun efnisleg breyting eða eingöngu formbreyting eins og sagt hefur verið.

Fleira umdeilanlegt má nefna um hæstv. forsætisráðherra sem stýrir þessari stjórn, s.s. einkavæðingu. Hún leiddi til þeirrar niðurstöðu, svo einkennilegt sem það nú er, að mörgum af helstu eigum ríkisins var stýrt, og ekki fyrir tilviljun vil ég segja, (Forseti hringir.) í hendurnar á framsóknarmönnum.