132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[12:55]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég hef lýst því áður hér í dag að ég get alveg beðið. Ég get beðið eins lengi og ég þarf úr því sem komið er til að halda ræður mínar til þess að reyna að upplífga heldur myrkvaðar sálir ákveðinna hv. þingmanna stjórnarliðsins sem virðast ekki sjá ljós þótt ljós sé borið fyrir þá í kerjum.

Frú forseti. Það eru fordæmi fyrir því þegar nýjar upplýsingar koma fram sem skipta máli fyrir framvindu umræðunnar að henni sé frestað í miðri 2. umr. til að gefa viðkomandi nefnd færi á að ræða hinar nýju upplýsingar. Þetta gerðist fyrir nokkrum vikum þegar við ræddum hér um jarðrænar auðlindir, e.t.v. frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Ég er ekki í hv. iðnaðarnefnd og man heitið ekki svo gjörla. Þá óskaði ég eftir því, í ljósi þess að nýjar upplýsingar komu fram, að umræðu yrði frestað á þeim grundvelli að ný gögn lægju fyrir sem þyrfti að skoða. Hæstv. forseti varð við þeirri bón og frestaði umræðu. Fundur var haldinn í nefndinni og málið leystist.

Hugsanlega er einhver von til þess í þessu máli. Í öllu falli liggur alveg ljóst fyrir að hér hafa þingmenn stjórnarliðsins hver um annan þveran haldið því fram að í þessu frumvarpi fælist engin efnisbreyting. Það hefur hv. formaður iðnaðarnefndar ítrekað í hverri einustu ræðu sem hann hefur haldið, og hann hefur haldið u.þ.b. 15 ræður í andsvörum í þessari umræðu. Nú kemur í ljós að hv. formaður iðnaðarnefndar hefur ekki verið upplýstur um hið rétta innihald frumvarpsins. Það kemur í ljós að sá maður sem hv. formaður iðnaðarnefndar hefur margsinnis hafið til skýjanna sem einn virtasta lögspeking þjóðarinnar — ber að virða það álit hans — segir á opinberum fundi í gær að þetta frumvarp hafi í för með sér áhrif á réttarstöðu aðila gagnvart stórvirkjunum. Er tekist á um eitthvað annað harkalegar en stórvirkjanir í þessu samfélagi? Nei. Þegar þetta liggur fyrir frá höfundi frumvarpsins er eðlileg krafa að þingmenn óski eftir því að fá að ræða við hann um þessar nýju upplýsingar, þennan nýja skilning. Það hlýtur að skipta máli ef hér er verið að samþykkja lög sem hafa áhrif á þessi umdeildu átakamál að þingmenn eigi heimtingu á að fá það til umræðu.

Að lokum, frú forseti, ítreka ég spurningu mína með tilliti til fjölskyldustefnu forsetadæmisins: Hvað á að halda þessum fundi lengi áfram í dag?