132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[12:58]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég verð að segja að þessi umræða hér um fundarstjórn verður alltaf einkennilegri og einkennilegri. Hún er til marks um það að stjórnarandstaðan er hér komin í (Gripið fram í: Ógöngur.) mjög yfirgripsmikið málþóf og ætlar ekki að gefa sig. Samt er sagt í hinu orðinu að það sé ófært að hér séu haldnir fundir og menn eru orðnir svo meyrir og tilfinningaríkir í ræðustól Alþingis, þ.e. hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, að þeir eru farnir að bera fyrir sig ýmis barnaafmæli og taflmót gegn því að halda fundi hér á hinu háa Alþingi. Þetta eru afsakanir sem ég tel vera ansi slappar, lélegar afsakanir manna sem mig grunar að nenni ekki að vinna vinnuna sína. Það verður að segjast eins og er að það hefur komið mér dálítið á óvart að hv. þingmenn eins og Jón Bjarnason, (Gripið fram í.) sem hefur talið sig vera talsmann hinna vinnandi stétta (Gripið fram í.) og hins almenna launamanns, skuli kvarta yfir því að við þingmenn séum að vinna hér á föstudegi og öðru hverju á laugardögum.

Þetta finnst mér málflutningur sem er ekki boðlegur, frú forseti, og ég legg til að við höldum hér bara áfram og þess vegna inn í nóttina ef með þarf. Við erum að ræða hér mikilvæg atriði sem varða eignarrétt (JBjarn: Það er ósatt.) og grundvallaratriði (JBjarn: Þetta er bara ósatt.) í eignarrétti. (Gripið fram í.) (JBjarn: … að hafa rétt mál.) Frú forseti. (JBjarn: Ég hef ekki haft … að það skuli ekki vinna hér á föstudegi.) (Forseti hringir.)

(Forseti (DrH): Ég bið hv. þingmenn að gæta stillingar. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur orðið.)

Þakka þér fyrir. (HlH: Þú ferð með fleipur úr ræðustól.) Ja, ég sagði, hv. þingmaður, að það hvarflaði að mér að það væru einhverjar aðrar ástæður en þær sem nefndar hafa verið fyrir því að menn treysta sér ekki til að vera hér í vinnunni á laugardögum og á föstudegi.

Hvað ætli stjórnarandstaðan mundi segja ef stjórnarmeirihlutinn notaði meirihlutavald sitt til að banna minni hlutanum að tala? Hvernig ætli þeir töluðu þá? (Gripið fram í.)

Nei, frú forseti … (Gripið fram í: Er þetta hótun?) Þetta er engin hótun, hv. þingmaður. Ég ætlaði bara að koma þeim sjónarmiðum á framfæri að ég legg til að við höldum hér áfram og þess vegna inn í nóttina til þess að klára þetta mál, og hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar (Forseti hringir.) verða bara að þola það að hlusta á vitleysuna hver í öðrum. (GAK: Ég vil fá að bera af mér sakir, hæstv. forseti.)