132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Skortur á hágæsluþjónustu á barnaspítalanum.

[15:17]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir þau orð sem komu frá hv. þm. Ástu Möller að ekki er auðvelt að ræða þessi mál eftir að hafa horft á þáttinn Kompás í gærkvöldi. Hins vegar var þar eingöngu verið að fjalla um þær staðreyndir, þann vanda sem ungir foreldrar með veik börn sín, mjög veik eiga við að glíma. Og það er á okkar ábyrgð, vegna þess að fjárveitingavaldið er hjá Alþingi, að mynda þverpólitíska samstöðu og veita fjármagn til Landspítala – háskólasjúkrahúss þannig að hægt sé að reka hágæsluherbergi sem þegar er til staðar. Eins og kemur fram í svari fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Gunnars Örlygssonar er tækjabúnaðurinn að mestu til staðar og við hönnun spítalans var gert ráð fyrir því að það væri um hágæslu að ræða á barnaspítalanum. Hvers vegna? Vegna þess að það væri ekki þörf á því? Af því að það er gjörgæsla fyrir á spítalanum? Nei. Við hönnun var tekið tillit til þessara þarfa og það er rétt sem hæstv. ráðherra segir. Við höfum góða heilbrigðisþjónustu á Íslandi. En framúrskarandi verður hún ekki fyrr en búið er að leysa það vandamál sem við er að etja á barnaspítalanum. Að hágæsluherbergið og þau tæki sem þar eru til staðar sé hægt að nýta í þágu þeirra barna sem á þurfa að halda.

Vissulega er það svo að þörfin er ekki viðvarandi, það er tilfallandi þörf. En við þurfum að sjá til þess að henni sé mætt í hvert eitt sinn. Af hverju? Vegna þess að líf hvers einstaklings sem bjargað er í hágæsluherbergi verður aldrei metið til fjár. Það vitum við. Við vitum líka að fjárveitingarnar til LSH eru á okkar ábyrgð og starfsemin þar með.