132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Skortur á hágæsluþjónustu á barnaspítalanum.

[15:21]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Það er ánægjulegt að hér er að myndast þverpólitísk samstaða um að kippa þessu í liðinn. En ég vil hins vegar lýsa talsverðri óánægju með svör hæstv. heilbrigðisráðherra sem gerði lítið annað en vitna í sex vikna gamalt svar fyrrverandi heilbrigðisráðherra hvað þetta varðar.

Ég held að við stöndum frammi fyrir einstöku tækifæri til að mynda þverpólitíska samstöðu til að afgreiða þetta mál hratt og vel, eins og hv. þm. Gunnar Örlygsson benti á og kallaði eftir. Þetta snýst auðvitað um forgang hjá stjórnvöldum. Það er þessi salur sem hefur fjárveitingavaldið og ábyrgðin liggur hjá stjórnvöldum. Við getum kippt þessu í liðinn ef við viljum. Við stóðum til dæmis frammi fyrir því vali um síðustu jól. Þess vegna langar mig að kalla eftir skýrari vilja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hún muni beita sér fyrir þessari þjónustu. Mun hún tryggja fjármagn hratt og vel? Því tíminn skiptir auðvitað máli í þessu. Mun hún bíða eftir afgreiðslu næstu fjárlaga eða mun hún beita sér fyrir að þetta komist inn á fjáraukalög? Hvaða leið sér hún fyrir sér í þessu máli? Ef hún ætlar að beita sér fyrir þessari þjónustu hvenær má vænta þess?

Við eigum einfaldlega að gera þá kröfu að hér séu bestu mögulegu aðstæður fyrir landsmenn, ekki síst börn og eldri borgara. Sömuleiðis að gera kröfu um að sú þjónusta standi öllum til boða án tillits til efnahags en þær raddir heyrast í umræðunni að þeir efnameiri eigi að geta keypt sig fram fyrir aðra í heilbrigðiskerfinu. Samfylkingin hafnar slíkri leið svo það fari ekki milli mála og fleiri flokkar hafa gert það. Það veit ég. En Samfylkingin vill bæði öruggt og aðgengilegt heilbrigðskerfi en hérna stöndum við frammi fyrir því að það verður að auka öryggi á barnaspítalanum og það er hægt að gera með litlum tilkostnaði.

Frú forseti. Eitt tilfelli er einu tilfelli of mikið. Það eina sem vantar er hinn pólitíska vilja því kostnaðurinn er ekki það mikill og eins og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir benti á eru þessir hagsmunir ekki metnir til fjár.