132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[15:30]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Á fundi Alþingis síðastliðinn laugardag óskaði sá sem hér stendur eftir því við hæstv. forseta, sem þá sat á stóli forseta, að fá að bera af sér sakir skv. 55. gr. þingskapa, sem segir að þingmanni sé heimilt að gera stutta athugasemd til þess að bera af sér sakir. Sá sem hér stendur vill ekki una því að þurfa að sitja uppi með þau ummæli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar að ég nenni ekki að vinna vinnuna mína. Ég mótmæli því og mun mótmæla því áfram eins og mér finnst ástæða til ef þau ummæli verða um mig höfð.

Mér finnst hins vegar leitt og vil taka það fram og tilkynna, hæstv. forseti, að það var óvarlegt af mér, jafnþungum manni og ég er, að snerta við vinstri öxl hv. þingmanns og mun ég frekar horfa í aðrar áttir í framtíðinni og nota orðalag til að svara hv. þingmanni. Ég mun hins vegar minnast orða hans og þau verða síðar rifjuð upp við hentugt tækifæri, hv. þingmaður. Ég uni ekki ummælum þínum að ég vinni ekki vinnuna mína.