132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[15:42]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér fór fram mikil umræða í síðustu viku um fundarstjórn forseta. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar óskuðu eftir tilteknum upplýsingum og gerð var krafa um að hv. iðnaðarnefnd kæmi saman til þess að svara þeim spurningum sem bornar voru upp úr ræðustól Alþingis. Ég sá enga fyrirstöðu í því að greiða fyrir umræðu um málið með því að kalla á þá gesti sem komu fyrir nefndina í morgun. Þar komu fram ákveðnar útleggingar á máli Karls Axelssonar í Háskóla Íslands sl. föstudag í fyrirlestri sem hann hélt þar um frumvarpið sem við ræðum hér. Ákveðins misskilnings gætti og ákveðinnar túlkunar á orðum hans sem hann leiðrétti í morgun. Það fór ekkert á milli mála hjá Karli Axelssyni að það breytir engu um stórvirkjanir eða virkjunarframkvæmdirnar á Austurlandi hvort í gildi eru núgildandi vatnalög eða það frumvarp sem við ræðum hér. Þetta kom skýrt fram á fundi nefndarinnar í morgun. Ef menn vilja reyna að afbaka það eitthvað meira þá er mönnum einfaldlega ekki viðbjargandi í þessari umræðu.

Að öðru leyti komu fram fyrirspurnir um hver væri staða vatnatilskipunar Evrópusambandsins og tenging vatnatilskipunarinnar og þess frumvarps sem við ræðum hér en hv. þm. Össur Skarphéðinsson óskaði eftir því að farið yrði nánar ofan í það mál. Farið var ofan í það mál á fundi nefndarinnar í morgun með embættismanni úr umhverfisráðuneytinu og fulltrúa frá Umhverfisstofnun. Það komu fram mjög afdráttarlausar skoðanir hjá fulltrúa umhverfisráðuneytisins um að vatnatilskipun Evrópusambandsins skarist ekki í neinu við það frumvarp sem við ræðum hér og það sé ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram að ræða frumvarpið og afgreiða það með lögum frá Alþingi í vor.

Þetta var beiðni stjórnarandstöðunnar í síðustu viku og mér fannst nauðsynlegt að greiða fyrir þeirri umræðu og fá svör við þessum spurningum. Við stjórnarliðar höfum sannfæringu fyrir því að hér sé um góða lagasetningarvenju að ræða. Við styðjumst við álit allra helstu sérfræðinga á sviði eignarréttar á 20. og 21. öldinni. Hér er ekki um neina stefnubreytingu að ræða, hæstv. forseti, og við stöndum fast á því, hv. stjórnarliðar, að þetta frumvarp eigi að verða að lögum, enda höfum við álit allra helstu sérfræðinga á sviði eignarréttar á 20. og 21. öldinni eins og áður sagði. Ég vona að fundur iðnaðarnefndar í morgun greiði fyrir þeirri umræðu sem fram undan er um það frumvarp sem við ræðum hér.