132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[16:27]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í umræðunni í dag hafa orðið pólitísk tíðindi, það sem gerðist nú við upphaf þingfundar, og um það vil ég ræða sérstaklega við hæstv. forseta. Samstaða stjórnarflokkanna um málið er greinilega að bresta. Það var ekki hægt að skilja orð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar öðruvísi en að Sjálfstæðisflokkur væri að falla frá stuðningi við málið. (Gripið fram í: Nei, …) Sjálfstæðisflokkurinn rétti upp hvíta flaggið og óskaði eftir að ná sáttum við stjórnarandstöðuna um málið og þau orð er aldrei hægt að túlka öðruvísi en þannig að það fallið væri frá inntaki málsins og því sem deilt er um með einhverjum hætti.

Hér er hart deilt um grundvallaratriði. Hér er hart deilt um einhverja róttækustu einkavæðingarhugmynd sem fram hefur komið, sem jafnvel virtustu frjálshyggjumenn hefði ekki dreymt um að kæmi fram í formi frumvarps hér á Alþingi og sérstaklega ekki borið fram af hv. þingmönnum framsóknarmanna. Það undarlega við þetta mál í dag er að Sjálfstæðisflokkurinn er að verða deigur í málinu og virðist vera að falla frá stuðningi við það. Samstaða virðist vera að bresta á meðal stjórnarflokkanna. En uppi situr Framsóknarflokkurinn með málið í fanginu, borið uppi af hæstv. iðnaðarráðherra og hv. þm. og formanni iðnaðarnefndar, Birki Jóni Jónssyni, sem annars hefur staðið sig merkilega vel í þessu dauðadæmda máli. Þetta mál er dæmt til að farast hér í þinginu af því hér er um grundvallarbreytingu að ræða, einkavæðingu á vatninu til framtíðar, sem er aldrei hægt að ná annarri samstöðu um við stjórnarandstöðuna en þá að fallið verði frá því ákvæði frumvarpsins sem harðast er deilt um.

Það blasir við og gefur augaleið og þess vegna er ekki hægt að túlka ræður hv. þingmanna öðruvísi en þannig. Þegar hv. formaður þingflokks sjálfstæðismanna, Guðlaugur Þór Þórðarson — starfandi formaður síðustu viku alla vega — tók undir það með afdráttarlausum og yfirveguðum hætti hérna áðan, þá hlýtur að mega túlka það sem skilaboð frá stóra flokknum í stjórnarsamstarfinu um að Sjálfstæðisflokkurinn ætli ekki að spilla meiru í þessu máli enda hefur málið stórskaðað ímynd ríkisstjórnarinnar nú þegar.

Mjög umdeilt mál og ekkert undarlegt að samstaðan um það sé að bresta. Út frá því hljóta menn að ræða um framtíð málsins hér í þingsalnum. Út frá því, virðulegi forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur óskað eftir því í gegnum tvo af talsmönnum sínum í málinu að reynt verði að ná sátt við stjórnarandstöðuna í málinu. Þetta hljóta að vera ákveðin straumhvörf í málinu, ákveðin vatnaskil og hvernig umræðunni vindur fram í málinu hlýtur að þurfa að skoðast sérstaklega út frá nokkuð afdráttarlausum yfirlýsingum þessara tveggja forustumanna í Sjálfstæðisflokknum um að samstaða stjórnarflokkanna sé að bresta í málinu.