132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[16:33]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta mál, sem snýst um munaðarleysi regndropanna sem menn hafa svo miklar áhyggjur af í stjórnarliðinu að þurfi að eignast foreldra eða eigendur, á upphaf sitt með þeim hætti, eins og okkur var sagt frá á fundi í iðnaðarnefnd í morgun, að Eyvindur G. Gunnarsson settist niður með Þorgeiri Örlygssyni, en Eyvindur G. Gunnarsson er höfundur þessa frumvarps, og þar kom tali þeirra að það væri líklega rétt að breyta þessari skilgreiningu. Þetta var okkur sagt í morgun. En þegar leið á fundinn kom fleira fram og ég tel ástæðu til að vekja aftur athygli á því að ekki fengust svör við því hvaða réttarstaða gæti hugsanlega breyst í sambandi við eignarnám. Það er full ástæða til þess að menn fari yfir það. Það er alfarið rangt að komið hafi fram skýr svör við því hvort réttarstaðan í sambandi við eignarnámið muni breytast. Ef maður ber saman lagafrumvarpið sem við erum með í höndunum og gömlu lögin þá er ástæða til þess að gera ráð fyrir að það sé hugsanlegt. Ég fór yfir það áðan og það verður örugglega farið betur yfir það í umræðunni.

Síðan hefur það komið fram hjá tveimur þingmönnum stjórnarliðanna, tveimur sjálfstæðismönnum, að þeir telji ástæðu til að menn fari sér hægar í þessu máli, velti því fyrir sér hvort þar séu einhverjir sáttamöguleikar. Bent hefur verið á að formenn flokkanna ættu að ræða málið. Ég tel ástæðu til þess að menn geri það. Það er alveg hugsanlegt að á Alþingi hafi menn álíka reisn og menn höfðu hér 1923 og að hægt sé að ná saman um það að skilgreina hvað menn eiga og hvað menn mega og að út úr því verði sú niðurstaða að menn klári lagasetningu. Ég útiloka það ekki. Ef menn taka sér tíma til þess er alveg sjálfsagt að skoða það. Ég skora á hæstv. forseta að beita sér fyrir því að þannig verði farið að, enda margbúið að lýsa yfir að engin vá sé fyrir dyrum og hér sé aðeins um formbreytingu að ræða frá hendi stjórnarliða í málinu. Við höfum hins vegar miklar áhyggjur af því að hér sé fleira á ferðinni. Hvers vegna væri það svo mikil fórn, hæstv. forseti, að koma til móts við okkur sem höfum áhyggjur ef hinir sem eru áhyggjulausir eru sannfærðir um að ekkert breytist? Hvað er þá að? Hvers vegna eru menn þá ekki tilbúnir til að ganga til móts við okkur?

Við höfum ekki fengið nein svör við því en við höfum hins vegar fengið upp fleiri spurningarmerki eftir fundinn í morgun, m.a. um eignarnám og breytingu á réttarstöðu aðila vegna eignarnámsins.