132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[16:42]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er erfitt að ræða þetta mál meðan menn eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson ræðir um þjóðnýtingu sem stefnu þeirra sem aðhyllast allsherjarstefnuna frá fyrstu áratugum aldarinnar. (Gripið fram í.) Það er sérkennilegt vegna þess að þjóðnýting í huga og munni þess þingmanns sem þar talaði og félaga hans þýðir það sama og kommúnismi og það orð hefur reyndar heyrst hér í ræðum um okkur stjórnarandstæðinga sem erum að reyna að stilla svo til að þjóðin hafi enn þá forsjá, hafi eins og ákveðið var 1923, með vatninu en það ekki allt fært í einkaeign, eins og stendur í 4. gr. þess frumvarps sem verið er að ræða í þessu efni. (Gripið fram í.) Það skýrasta í því er kannski það: Af hverju, ef ekki er um formbreytingu að ræða, getur þá ekki 2. gr. í núgildandi lögum orðið að 4. gr. í núverandi frumvarpi? Ef svo væri, ef menn geta svarað því, ef menn eru reiðubúnir til þess þá væri kannski kominn tími hér til sátta.

Ég verð svo að segja í tilefni af því sem síðustu hv. ræðumenn hafa sagt að það er auðvitað alls ekki svo að fréttirnar úr iðnaðarnefnd í morgun hafi með einhverjum hætti vikið vatnatilskipun Evrópusambandsins til hliðar í málinu. Það hefur alls ekki gerst. Það hefur að vísu verið upplýst að í samningunum sem fóru fram 20. febrúar, ef mig misminnir ekki, og hefur ekki verið sagt frá í fréttum eða fréttatilkynningum og reynt nánast að gæta þess að komi ekki inn í þingið, séu ákveðnir hlutir undanteknir. Það er rétt en það er hins vegar þannig að það breytir því ekki að eðlilegt er að fjalla um þetta tvennt í einu.

Við höfum ekki ástæðu til þess að treysta iðnaðarráðherra hæstv. eða ríkisstjórninni hæstv. í þessum málum. Við viljum fá að sjá pappírana hér á borðum. Ég hef áður sagt það hér, tvisvar, þrisvar eða fjórum sinnum, að í greinargerð frumvarpsins nú og frumvarpsins í fyrra hefur verið sagt að frumvarp liggi fyrir tilbúið í drögum í umhverfisráðuneytinu. Komi það frumvarp hér inn.

Ég verð svo að segja, forseti, að ég held að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi, eftir því sem mér skilst á endursögn, komið hér með einhvers konar millilendingu í málinu, að gert verði gert hlé og gengið til hinna hefðbundnu venjulegu þingstarfa meðan formenn flokka leggist yfir þessi mál, ekki síst auðvitað Kárahnjúkavinkilinn sem ég þarf að ræða um síðar í þessum umræðum um fundarstjórn forseta, og reyna að finna út úr því hvernig þetta mál á að leysast hér í þinginu. Það er farið að hafa allt önnur áhrif á störf þingsins en menn ætluðu í byrjun og það er ekki sök þeirra sem reynt hafa að leggjast gegn þessari vitleysu, lagt sjálfa sig í veginn gegn þessari vitleysu, heldur þeirra sem fara hér af stað með vanbúið mál og styðja það án þess að skilja það og án þess að hafa á því mikið vit.