132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[16:56]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil ítreka spurningar sem hafa komið fram til hæstv. forseta um hversu lengi er ætlað að halda fram þingfundi í dag.

Hæstv. forseti var spurður að þessu og hefur ekki svarað því og það er náttúrlega lágmarkskrafa að það sé kynnt hversu lengi ætlunin sé að halda þingfundi áfram.

Einnig hefur okkur verið tjáð af formönnum þingflokka sem sátu fund með forseta að ekki fáist tekin önnur mál á dagskrá í vikunni né rætt um hvenær eigi að taka önnur mál á dagskrá vegna þess að þinghaldið sé í uppnámi vegna stjórnar forseta á þinginu.

Ég spyr hæstv. forseta: Hvenær á þessu að linna, hvenær fáum við upplýsingar um hvenær fundi á að ljúka í dag og hvenær verður tekið upp eðlilegt þinghald?

Ég vil líka ítreka það sem þegar hefur verið bent á, að þegar vatnamálin voru til umræðu á árunum 1921–1923 þá var nefnd kosin af þinginu, þingmannanefnd, sem undirbjó lögin og lagði þau fram. Það var ekki gert með þeim gerræðislega hætti að verktakar taki að sér að semja lagafrumvarp fyrir ríkisstjórnina, iðnaðarráðherra, sem síðan er keyrt áfram í þinginu eins og nú. Slíkt eru engin vinnubrögð.

Einnig hefur verið bent á það hér að þetta lúti ekki einungis að einkavæðingu á vatninu heldur einnig að hugsanlegum eignarnámsbótum, t.d. varðandi Kárahnjúkavirkjun. Það hafi komið fram í máli Karls Axelssonar sem er annar höfundur þessa frumvarps. Hangir kannski fleira á spýtunni? Er kannski ekki hægt að úthluta virkjunarleyfum í Skjálfandafljóti vegna þess að þar á líka að færa til vatn þegar þar verður virkjað? Eða í Þjórsá? Eða í Skaftá? Er eitthvað slíkt sem hangir á spýtunni, að hæstv. iðnaðarráðherra geti ekki úthlutað rannsóknum á virkjunarleyfi vegna þess að hún þurfi að geta úthlutað eignarhaldinu á vatnslindinni um leið? Mér er spurn. Úr því hér er talað um hinn mikla vanda við Kárahnjúka, hvað þá um fyrirætlanir iðnaðarráðherra? Er verið að smeygja lagafrumvarpi inn í þingið sem sumir segja að sé bara formbreyting, til að komast aftan að þessum málum og heimila iðnaðarráðherra að gera auðveldara að úthluta rannsóknar- og virkjunarleyfum í vatnsföllum landsins sem eru mjög umdeild og við erum á móti? Það skyldi þó ekki vera.

Frú forseti. Mér finnst mikilvægt að öll þessi mál komist hér á hreint áður en lengra er haldið. Þannig að hér sé ekki enn á ný verið að þræla lagafrumvarpi í gegnum þingið vegna einhvers misskilnings iðnaðarráðherra. (Forseti hringir.)