132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[17:05]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir hefur tileinkað sér mjög sérstæðan ræðustíl sem felst í því annars vegar að gefa ræðum annarra þingmanna einkunn, hvort þær hafi verið langar, hvort þær hafi verið gagnlegar, hvort þær hafi verið vel fluttar eða ekki, og hins vegar að túlka ræður samherja sinna á þinginu, m.a. Einars Odds hv. Kristjánssonar og Guðlaugs Þórs hv. Þórðarsonar. Það túlkar hún þannig að þeir hafi ekki talað um að draga frumvarpið til baka, enda er það kannski ekki þeirra mál og það hefur enginn haldið því fram að þeir hafi gert það. Ég hef ekki heyrt það hér í salnum síðan ég kom að þeir hafi haldið því fram en að þeir hafi þó viljað kæla það. Ég kallaði svo fram í, forseti, eins og heyra mátti, hvað hv. þm. Drífa Hjartardóttir vildi í þessu en hún kom ekki með sína eigin skoðun. Hennar erindi hér í ræðustólinn var sem sé ekki að flytja eigin skoðanir heldur annars vegar að dæma þingræður annarra og hins vegar að túlka orð samherja sinna án þess þó að taka afstöðu til þeirra.

Við höfum því hér í þessari umræðu um fundarstjórn forseta fengið þrjár skoðanir frá sjálfstæðismönnum. Þeir hafa sem sé verið út, þ.e. Einar Oddur Kristjánsson og Guðlaugur Þór Þórðarson, hv. þingmenn, sem vilja kæla málið, fresta fundum um það og taka það til nánari skoðunar í samráði við ríkisstjórnina. (Gripið fram í.) Síðan er Sigurður Kári Kristjánsson, hann er suður, hinir voru út. Hann er suður. Hann vill halda málinu áfram og láta tala um það þar til yfir lýkur. Svo er ein á milli og kemur svífandi ofan úr loftinu alveg á miðpunktinum. Það er hv. þm. Drífa Hjartardóttir sem hefur enga skoðun á því heldur lætur sér nægja að túlka skoðanir annarra og (Gripið fram í.) dæma ræður eins og á hverri annarri hrútasýningu. (Gripið fram í.)

En þó þetta sé nú stundum kallað leikhús þjóðarinnar hér á Alþingi við Austurvöll þá er þetta ekki enn orðin hrútasýning þjóðarinnar, sem má sjá af þátttöku ýmissa hér í umræðunni sem ekki eru nú hrútar, væru þá frekar laglegar gimbrar ef eitthvað væri.

Þannig að ég komi að erindi mínu í ræðustólinn þá vil ég taka undir með þeim Einari Oddi Kristjánssyni og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, hv. þingmönnum. Ég held að það sé ástæða til að kæla þetta mál. Ég held að það sé ekki vegna þess að það sé sá hiti á því að það komi í veg fyrir umræðu hér heldur vegna þess að fram hafa komið nýir hlutir, ný atriði sem þarf að skýra. Stærst af þeim er auðvitað þessi tenging við Kárahnjúkavirkjun og við virkjunarferlið sem kann að vera ástæðan fyrir því að þetta mál er flutt hér og keyrt svona hratt í gegn.

Við erum ekkert að segja það hér, stjórnarandstæðingar, að við séum á móti því að slík ákvæði séu endurskoðuð. En við viljum að þegar þau eru endurskoðuð liggi það á borðinu að það séu þau sem verið er að endurskoða, þess (Forseti hringir.) vegna sé verið að flytja málið.