132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[17:11]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nú er búið að tala hér alllengi um fundarstjórn forseta. Rétt er að vekja athygli þeirra sem kunna að hlýða á þessa umræðu, eða fylgjast með henni á einhvern hátt, að þetta er mjög óvenjulegt. Venjulega ganga þingstörf á Alþingi mjög greiðlega fyrir sig. Menn skiptast á upplýsingum og skoðunum. Í sumum tilvikum eru menn ósammála um einstaka mál og það eru þau mál sem yfirleitt komast í fréttir og umræðu, þar sem pólitískur ágreiningur er uppi. Stundum er meira að segja mikill ágreiningur uppi og þá lengjast umræðurnar. En það er hins vegar mjög óvenjulegt að umræðan nánast stöðvist. Það sýnir okkur hver andstaða er við þetta frumvarp hér í þinginu. Ég vek athygli á að þetta umdeilda frumvarp um vatnalög ríkisstjórnarinnar hefur þegar sett allt þinghald úr skorðum.

Hlýtur stjórnarmeirihlutinn ekki að draga réttar ályktanir af því og spyrja sjálfan sig að því hvort það geti verið að á þessu frumvarpi og á þessari lagasmíð séu einhverjar brotalamir sem þurfi að hyggja nánar að? Ýjað hefur verið að því í umræðunni fyrr í dag, um fundarstjórn forseta, hvort svo kunni að vera að aðilar þurfi að bakka. Þá horfum við fyrst og fremst til þess aðilans sem valdið hefur. Vegna þess að það er örlagaríkt að setja löggjöf sem getur haft afdrifaríkar afleiðingar þegar um er að ræða grundvallaratriði í samfélaginu. Þetta er staðreynd.

Ef það fer svo að við herðum á einkaeignarréttarákvæðum í lögum um vatn, sem við í stjórnarandstöðunni teljum að þetta frumvarp geri, þá eru menn að skapa sér skaðabótaskyldu ef menn ætla á annað borð að snúa þessum lögum síðar til baka. Þannig að þetta getur reynst afdrifaríkt.

Ég ítreka því fyrri óskir okkar og kröfur úr stjórnarandstöðunni um að ákveðið verði að víkja þessu máli hreinlega til hliðar svo að við getum tekið til við önnur störf þingsins.

En að lokum þetta, hæstv. forseti. Ég legg til að við gerum hlé á fundinum um kl. sjö, efnt verði til fundar (Forseti hringir.) með formönnum þingflokka samhliða matarhléi. En ég ítreka að við gerum hlé á þessum fundi kl. sjö.