132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[17:15]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér fyrst og fremst til að taka undir þá ósk sem komið hefur fram hjá formanni þingflokks Vinstri grænna, hv. þm. Ögmundi Jónassyni, um að fundinum verði frestað klukkan sjö og formenn þingflokka og flokka hittist og ræði um framhald þessa máls. Sú umræða sem hér hefur verið frá því þinghald hófst sýnir að um málið er gífurlegur ágreiningur. Hins vegar bíða mjög mörg mál eftir að verða tekin á dagskrá sem eru samkomulagsmál, mál sem Alþingi getur afgreitt héðan með tiltölulega lítilli umræðu. Ég sé ekki ástæðu til að öll mál önnur sem Alþingi hefur til umfjöllunar eða beiðnir um utandagskrárumræður, fyrirspurnir og annað séu látin líða fyrir þann ágreining sem er um þetta mál og hefur verið öllum ljós frá því að það var afgreitt úr nefnd. Þó að það væri unnið þar og afgreitt eins og menn hafa sagt í friði vegna þess að það var fullrætt í nefndinni, þá varð ekki komist lengra með málið og var öllum ljóst að um það yrði mjög mikil umræða í þingsölum.

Virðulegi forseti. Ég styð því eindregið þá ósk eða þá kröfu sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur sett fram um að gert verði fundarhlé klukkan sjö og formenn þingflokka og flokka hittist, eins og hér hefur komið fram áður reyndar, til að ræða um framhald málsins og þá um leið þinghaldið.