132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[19:39]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Enn tölum við um fundarstjórn forseta og veltum fyrir okkur, eins og ræðumenn á undan mér, hve lengi fram eftir kvöldi þessi fundur muni standa. Ég áttaði mig á því að það er erfitt hjá hæstv. forseta að gefa um það einhverjar vísbendingar þar sem svo virðist sem stjórn þingsins treysti sér ekki til að setja upp starfsáætlun sem við þingmenn vitum að gildi, getum skipulagt okkur eftir og hagað störfum okkar í samræmi við.

Ég varð svolítið undrandi í morgun þegar ég heyrði það eftir fund þingflokksformanna að ekki lægi fyrir starfsáætlun þingsins fyrir þessa viku. Ég velti fyrir mér hvort það væri í alvöru ætlun hæstv. forseta að vera hér með starfsáætlun frá degi til dags en setja ekki upp, eins og gert hefur verið hingað til, starfsáætlun þingsins fyrir hverja viku þannig að okkur þingmönnum gefist kostur á því að skipuleggja með hvaða hætti við rækjum störf okkar í kjördæmum og getum með einhverju móti skipulagt vinnu okkar og sett niður fundi með kjósendum í kjördæmi eða þeim fjölda hagsmunaaðila sem sækjast oft og iðulega eftir fundum með þingmönnum hverju sinni. (Gripið fram í.)

Starfsáætlun þingsins fyrir hverja viku eins og hún hefur verið gefin út hefur einmitt hjálpað okkur þingmönnum í þessu og auðveldað okkur, eins og ég segi, bæði að rækja skyldur okkar í kjördæmi og kannski ekki síður að ákveða með hvaða hætti við getum skipulagt tíma okkar í þingsalnum, tíma okkar á skrifstofunni sem við höfum úti í Austurstræti og síðan, eins og fram hefur komið hér og menn vonuðu að eitthvað væri að marka, að hæstv. aðalforseti þingsins væri með fjölskyldumál og fjölskyldustefnu það hátt á dagskrá sinni að, eins og sagt var hér þegar hæstv. forseti tók við störfum og var kjörin hér sem forseti Alþingis, unnið yrði að því mjög ötullega á þinginu að breyta akkúrat því sem við erum að horfa fram á núna, herra forseti, maraþonkvöld- og -næturfundum og oft og tíðum án þess að þingmenn gætu á nokkurn hátt séð það fyrir að þeir yrðu að vera hér í húsi og taka þátt í umræðum um mál fram eftir kvöldum, fram eftir nóttum og um helgar. Ekki það að ég víki mér neitt undan því og ég vil sérstaklega taka fram að ég vona að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson átti sig á því að ekki er leti um að kenna að ég stend hér og nefni þetta, heldur hinu að við viljum geta skipulagt störf okkar en það getum við ekki meðan stjórn þingsins er með þessum hætti.