132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[19:43]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er rétt að fundi þingflokksformanna með forseta þingsins er nýlokið. Af þeim fundi varð í sjálfu sér engin önnur niðurstaða en sú að halda áfram með fyrirliggjandi mælendaskrá um frumvarp til vatnalaga sem ég held að um 18 manns séu á. Ég sakna þess auðvitað eins og aðrir hér að ekki skuli vera vikuplan til að vinna eftir en eins og útlitið er í dag munum við ræða um frumvarp til vatnalaga þessa viku, næstu og þarnæstu, a.m.k. miðað við þá mælendaskrá sem er til staðar og þá sem enn eiga eftir að setja sig á hana eða hafa boðað að ýmislegt sé órætt í þeim efnum.

Sem sagt, ekkert samkomulag var gert, hvorki af hálfu forseta né þingflokksformanna, um framhaldið. Hér höldum við áfram að ræða þetta mikilvæga mál og göngum á mælendaskrána sem reyndar hefur lengst og mun líklega gera það, sýnist mér, eftir því sem lengra dregur á umræðuna.