132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[19:44]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla ekki að þráspyrja hæstv. forseta um það hvenær þessum fundi ljúki vegna þess að ég hef vissa samúð með hæstv. forsetum þingsins, að þurfa að standa í að stýra fundum hér. Þeir virðast vera settir í þá stöðu að reyna að reka á eftir málum sem eru algjörlega vonlaus, koma frá hæstv. ráðherrum jafnvel, svo sem eins og Valgerði Sverrisdóttur, hæstv. iðnaðarráðherra, sem hefur misskilið frumvörp, kemur síðan hér með frumvarp sem er algjörlega handónýtt, gengur þvert gegn hagsmunum bænda. Þeir senda frá sér æ ofan í æ bréf og umsagnir um þetta frumvarp þar sem þeir kvarta sáran yfir því að ekkert tillit sé tekið til sjónarmiða þeirra.

Það er von að hv. þingmaður, formaður landbúnaðarnefndar, standi upp og ég vonast til þess að þessi orð verði til þess að hún bregðist við og fari gaumgæfilega yfir umsagnir bænda í þessu máli. Þetta er með ólíkindum.

Einnig er furðulegt að þegar málefnaleg umræða er á Alþingi brigsli hæstv. ráðherra þingmönnum um falsanir. Það þarf að dreifa hér gögnum sem sýna að ekkert er hæft í svona ásökunum sem hæstv. ráðherrar bera á þingmenn. (Gripið fram í: Fundarstjórn forseta.) Mér finnst þetta alveg með ólíkindum. Fundarstjórn, kallar hér formaður þingflokks Framsóknarflokksins og það er greinilegt að hv. þingmanni er orðið um og ó þegar verið er að fjalla um verk hæstv. ráðherra Framsóknarflokksins en þess ber að geta að ég var að fjalla um það að hæstv. forsetar eru í erfiðri stöðu og maður hefur auðvitað samúð með þeim, að þurfa að stýra fundum og keyra í gegn mál þannig að ég ætla að segja við þingheim: Við skulum ekki ganga of hart að þessum forsetum undir þessum lið, við verðum að sýna þeim samúð, þeir gegna vissulega erfiðum störfum, að stýra hér fundum með gífurlega vond mál, rosalega vond mál. Þetta er ömurleg staða sem virðulegir forsetar þingsins eru í, að þurfa að vera í þessum verkum.

Herra forseti. Ég vonast til þess að hæstv. ríkisstjórn hvísli því að þér og veiti þér það umboð að upplýsa okkur þingmenn um það hvenær þessum fundi ljúki á að giska. Það er varla hægt að bjóða fólki upp á svona vinnubrögð, að vera það með í einhverri leynd hvenær eigi að ljúka vinnudegi. Mér finnst það alveg með ólíkindum og sérstaklega að þjóðþing skuli leyna því fyrir (Forseti hringir.) þingheimi hvenær eigi að ljúka fundum. Það er alveg stórundarlegt, herra forseti.