132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[19:53]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Þetta er áhugaverð spurning hjá hv. 5. þingmanni Norðaust. Ég hygg að ekki verði hægt að svara henni öðruvísi en svo að þingmaðurinn hafi rétt til þess að tala hér og það tvisvar því að hún … (EMS: Skipta inn á bara?) en það getur auðvitað leitt til þess að hér verði hugsanlega einhverjar fleiri útskiptingar til að varaþingmenn fái að tjá sig um þetta mál eins og þá lystir. Við bíðum spennt eftir að sjá hvernig forseti úrskurðar um þetta.

Að öllu gamni slepptu vil ég taka undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni að forsetar eru ekki öfundsverðir í þessu máli. Kannski höfum við gengið fullhart að þeim, hv. þingmenn hér, ýmsir í salnum, vegna þess að þeir eru líka að reyna að rækja störf sín í samræmi við hina fjölskylduvænu stefnu hins kjörna forseta þingsins. Við vitum að þeir þurfa daglega, forsetarnir og einkum þó aðalforsetinn, að mæta hér skipunum og ógnunum, vil ég segja, frá forustumönnum ríkisstjórnarinnar, hæstv. iðnaðarráðherra og þó einkum hæstv. forsætisráðherra sem hefur gert það að einhvers konar metnaðarmáli að keyra þetta mál hér í gegn þó að í eina skiptið sem hann kom í stólinn um þetta mál, á laugardaginn, hafi komið í ljós að hann hafði ekki alveg fylgst með uppfærslunni í málinu. Hann talaði um að í frumvarpinu fælist fyrst og fremst formbreyting. Það er ekki rétt orðað hjá forsætisráðherra vegna þess að hann er á útgáfu 1.0 í þessu efni en hefur ekki fengið útgáfu 2.0 sem gekk svo hér á eftir. Í fyrra var nefnilega útgáfa 1.0, svo var útgáfa 2.0 í vetur og þá stóð sum sé annars vegar formbreyting — þá var búið að taka út „fyrst og fremst“ frá fyrra frumvarpi — en í síðari greinargerðinni stóð „fyrst og fremst“. Forsætisráðherra er með þetta „fyrst og fremst“ sem við veltum mikið fyrir okkur hvort hefðu verið mistök eða hvernig stæði á en nú hefur komið í ljós að það hefur verið með ráðum gert því að menn hafa álitið það að hér væri fyrst og fremst um svokallaða formbreytingu að ræða. Þó væri þetta þannig að efnisbreytingin næði a.m.k. til þeirra eignarnámsheimilda, að manni skilst helst, sem valda enn vandræðum við Kárahnjúka og koma til með að valda vandræðum við Þjórsá og fleiri virkjanir. Þetta er auðvitað eitt af því sem þarf að komast á hreint áður en þessari umræðu verður haldið áfram, annars vegar vatnatilskipun (Forseti hringir.) sem við erum að fá hér inn og hins vegar þarf að koma þessu máli á hreint sem ekki hefur gerst.