132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[19:59]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er afskaplega miður að ekki skuli hafa fengist einhver niðurstaða á fundi þingflokksformanna og forseta þingsins, sérstaklega í ljósi þess sem margítrekað hefur verið hér að það var sérstök ósk a.m.k. tveggja hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins að þessu máli yrði gefinn tími þannig að forustumenn þingflokka gætu sest niður og farið yfir málið nákvæmlega og það er alveg ljóst að ef slíkur fundur er haldinn undir þeirri pressu að aðeins sé 30 mínútna hlé á þingfundi og fólk sé skikkað til að ljúka málinu á þessum 30 mínútum er út af fyrir sig ekki von til þess að menn finni varanlega lausn á málinu.

Herra forseti. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt þegar við veltum því ástandi fyrir okkur sem nú er að við skoðum aðeins hvert hlutverk forseta þingsins er. Það hlýtur að vera annað en það, eins og nokkrir hv. þingmenn hafa hér gefið í skyn, að sitja undir járnhæl hæstv. ráðherra. Ég trúi ekki að svo sé og tek þess vegna ekki undir með annars ágætum hv. þm., Sigurjóni Þórðarsyni og Merði Árnasyni, að forsetar séu ekki öfundsverðir af hlutverki sínu. Ég vil meina, herra forseti, að forsetar séu einmitt öfundsverðir af hlutverki sínu vegna þess að hæstv. forsetar hafa það í hendi sér að skipuleggja dagskrána. Þeir eiga að horfa til þingheims alls en ekki bara einhverra ráðherrabekkja. Hæstv. ráðherrar hafa að sjálfsögðu ekkert meira um það að segja hvernig hæstv. forsetar skipuleggja þingið en aðrir hv. þingmenn. Það ber að horfa til alls þingheims.

Það er alveg skelfilegt ef það er staðreyndin að hæstv. forsetar líti svo á að það sé hlutverk þeirra að ganga erinda einstakra hæstv. ráðherra. Slíkt má bara ekki vera því að auðvitað eru hæstv. forsetar sjálfstæðir gagnvart framkvæmdarvaldinu og eiga að vera það. Ég trúi ekki öðru en að svo sé. Þess vegna er það sérstakt áhyggjuefni að hæstv. forseti skuli ekki skipuleggja þinghaldið með þeim hætti sem venja er hér til, þ.e. að á mánudegi liggi fyrir a.m.k. gróf vikuáætlun um það hvernig þinghaldinu muni vinda fram en að því sé ekki stillt svo upp að eitt mál sé á dagskrá og þannig muni það væntanlega vera þar til umræðum um málið lýkur.

Þess vegna er eðlilegt að spurt sé, eins og oft hefur verið spurt: Á hverju liggur svo mikið? Hver þingmaðurinn á fætur öðrum úr liði stjórnarliða hefur sagt að hér sé aðeins um formbreytingu að ræða, það skipti raunverulega ekki máli hvort það verði samþykkt eða ekki samþykkt, það muni engu breyta. Hvað ræður þá þessari för, hæstv. forseti? Það væri forvitnilegt að fá að heyra a.m.k. (Forseti hringir.) eina skýringu á því.