132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:03]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þessi langa umræða um fundarstjórn forseta endurspeglar enn og aftur óánægju stjórnarandstöðunnar á Alþingi með ráðslag ríkisstjórnar og stjórnarmeirihluta, að reyna að keyra þetta óvinsæla lagafrumvarp í gegnum þingið og gera það að lögum fyrir vorið.

Hér hafa verið haldnar langar ítarlegar ræður, sumar mjög efnismiklar og fróðlegar en síðan endurspeglast eða kristallast umræðan og viðhorfin í þessum örræðum sem haldnar eru um fundarstjórn forseta. Það er svolítið merkilegur málflutningur sem þar kemur fram. Í athugasemdum við fundarstjórn forseta eða af öðru tilefni hafa fulltrúar ríkisstjórnarinnar komið fram, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra sem segir að hér sé á ferðinni smámál, nokkuð sem hann ítrekaði í fjölmiðlum í kvöld, en þar sagði hann eitthvað á þá leið að verið væri að laga gamla löggjöf að dómapraxís, hæstaréttardómum sem fallið hefðu á liðnum áratugum. En þegar gengið var eftir því við hæstv. ráðherra hvaða dóma hann ætti sérstaklega við þá varð fátt um svör enda í samræmi við yfirlýsingar sem hæstv. ráðherra gaf í þessum stól, að hann botnaði hvorki upp né niður í þeim málatilbúnaði sem tengdist þessu frumvarpi. Annars vegar koma fram slík sjónarmið að hér sé á ferðinni smámál og menn botni ekkert í þessari andstöðu stjórnarandstöðunnar og hins vegar koma hér fram alltaf annað veifið í máli manna ágreiningsefni sem snúa að grunnatriðum, að eignarrétti á vatni og þá blasir það við okkur að hér erum við að fjalla um löggjöf sem skiptir Íslendinga mjög miklu máli til allrar framtíðar. Og ég vildi óska þess að við bærum gæfu til þess á Alþingi þegar fest eru í lög frumvörp af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir, að fara varlegar í sakirnar og ég ítreka hliðstæðu frá 1998 þegar lögin um auðlindir í jörðu voru lögfest, illu heilli.

Ég ítreka, hæstv. forseti, förum varlega og við hvetjum stjórnarmeirihlutann til að endurskoða afstöðu sína í málinu.