132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:06]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hef orðið áhyggjur af fundarstjórn forseta. Ég hef áhyggjur af því að forseti virðir á engan hátt eindregnar beiðnir þingmanna um að gefa upp hvernig ætlunin sé að haga dagskrá hér. Við heyrum hæstv. forsætisráðherra úti í bæ hafa hin og þessi orð um þau störf sem fara fram inni á þingi, um málflutning manna þar og hvað sé verið að takast á um þar, sem hann gerir lítið úr, þetta sé bara formbreyting.

Ég spyr hæstv. forseta: Af hverju kallar forseti ekki hæstv. forsætisráðherra hingað inn í þing og lætur hann eiga orðaskipti við þingmenn þar en ekki úti í bæ? Ef þetta er svona lítið mál eins og ráðherrann vill vera láta í fjölmiðlum þá ætti hann að koma inn á þingið og gera forseta þingsins grein fyrir því að þetta sé svo lítið mál að það sé ástæðulaust að vera að halda þessum málum áfram.

Ég bendi forseta þingsins á að hann er forseti allra þingmanna. (MS: Á að banna honum að tala úti í bæ? Er forsætisráðherra …?) (Gripið fram í.) Jú, hv. formaður þingflokks Framsóknarflokksins, hæstv. forsætisráðherra má tala úti í bæ. En það er mjög óeðlilegt að hann sé þar að gefa einkunnir málum sem eru til umræðu inni á þingi og vera að tala um þau mál án þess að koma hingað og taka sjálfur þátt í umræðunum, (Gripið fram í.) þannig að ég bendi forseta á að hann er forseti alls þingsins en ekki bara erindreki ríkisstjórnarinnar.

Úr því hæstv. forseti getur ekki upplýst hvað þingfundur verður lengi í kvöld né hvaða mál verða tekin fyrir á morgun, gæti hæstv. forseti þá upplýst hvort treysta megi að páskafrí hefjist miðvikudaginn 12. apríl? En samkvæmt dagskránni á páskafrí að hefjast þann dag. (Gripið fram í.) Það sér hver heilvita maður hvers konar óefni stjórn þingsins er komin í með þessu háttalagi og ég bið hæstv. forseta að hugleiða nú stöðu forsetaembættis þingsins í því framferði sem hér fer fram að það er ekki einu sinni hægt að gefa upp hvenær fundi á að ljúka né heldur hvenær fundur á að byrja á morgun og hvað þar á að vera á dagskrá.