132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:13]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að sem nýliða kemur mér það töluvert á óvart að hér á hinu háa Alþingi skuli ríkja svona mikil óvissa um fundartíma. Okkur eru ætluð ýmis önnur verkefni en einungis að vera hér í þingsal og átti sá er hér stendur að vera á pólitískum fundi í kvöld í Mosfellsbæ en ég varð því miður að afboða mig vegna þess að hér er rætt um að það eigi að vera kvöldfundur.

Menn hafa verið að spyrja, herra forseti, hvernig verði með næstu viku og ég verð að viðurkenna að ég velti því líka fyrir mér. Ég velti strax fyrir mér næsta fimmtudegi, þá á ég að vera á fundum með framsöguerindi og velti því fyrir mér hvort ég þurfi að vera hér, þ.e. verður kvöldfundur eða ekki?

Ég var mjög ánægður með þá nýbreytni sem nýr þingforseti tók upp í haust að fara að gefa út dagskrá fyrir nokkra daga í senn og jafnvel heila viku. Þetta er betra en í þau skipti sem ég hef komið hér inn sem varamaður. Því verð ég að viðurkenna að það kemur mér töluvert á óvart að menn skuli síðan snúa þessu aftur núna og ekki halda sig við þetta vikuplan en það hefur komið skýrt fram að það er forsetinn sem ræður. Það er búið að spyrja hversu lengi fundur verði í kvöld en það er ljóst að forsetinn hefur völd til að boða fund í kvöld, en halda mætti að kvöldfundi ætti að ljúka um miðnætti.