132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:23]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að ítreka þá skoðun mína að þessu frumvarpi eigi einfaldlega að vísa frá. Ég geri að tillögu minni, virðulegi forseti, að formenn flokkanna sem nú eru á þingi, þ.e. Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins, haldi saman fund. Það er mín fróma ósk að sá fundur leiði til þeirrar niðurstöðu að þetta mál verði tekið út af dagskrá.

Ég legg til að skipuð verði nefnd fulltrúa allra þingflokka undir forustu óháðs lögspekings, gjarnan Karls Axelssonar sem ég þekki að góðu einu. Hann var formaður fjölmiðlanefndarinnar sem ég sat í á sínum tíma sem skilaði af sér í mars í fyrra. Hann skilaði þar afskaplega góðu starfi. Hann er mikill heiðursmaður og ég treysti honum fyllilega til þess að standa að starfi stjórnmálaflokkanna til að ná sáttum í þessu máli á sama hátt og hann leiddi starf fjölmiðlanefndarinnar á sínum tíma.

Síðan mundi ég vilja sjá koma inn í þingið endurskoðað frumvarp til vatnalaga, þótt ég telji reyndar að það nafn, frumvarp til vatnalaga, sé á margan hátt rangnefni fyrir frumvarpið. En það yrði lagt fyrir í haust og afgreitt. Ég get fallist á þau sjónarmið að endurskoða þurfi gömlu lögin frá 1923, að færa gömlu lögin fram til nútímans. Ég er í sjálfu sér sammála því sem fram kemur í nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar, sem liggur fyrir þinginu ásamt frumvarpinu til vatnalaga sem við höfum verið að ræða í marga daga. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta, í nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar:

„Á þeim tíma sem liðinn er frá setningu laganna hafa orðið miklar samfélagsbreytingar, tækniframfarir hafa orðið og vægi umhverfisverndar hefur aukist til muna. Frumvarpinu er ekki ætlað að taka til allra þátta sem lúta að vatni og vatnsnotum með sama hætti og núgildandi vatnalög enda er nú tekið á ýmsum þáttum vatnamála í öðrum lögum, m.a. á sviði umhverfis-, náttúru- og almannaréttar. Þá eru ýmis ákvæði í gildandi lögum einfölduð, m.a. í ljósi breyttra aðstæðna.“

Þessi orð get ég í sjálfu sér tekið undir. Ég hef lýst afstöðu minni til þessa máls í ræðu minni sem ég flutti á Alþingi þegar málið kom til 1. umr. Ég flutti um það ræðu, 14. nóvember árið 2005 og lýsti því yfir að ég mundi ekki geta samþykkt þetta frumvarp eins og það lægi fyrir vegna ákvæða í því um eignarrétt. Ég er hins vegar alveg reiðubúinn að skoða ákvæðið varðandi nýtingarréttinn og hvernig hugsanlega megi skilgreina hann betur. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að landeigendur á hverjum tíma hafi nýtingarrétt að vatni á lendum sínum. Ég tel að það megi skilgreina það með slíkri lagasetningu. Ég sé ekkert að því í að menn geti haft umráðarétt, nýtingarrétt yfir vatnslindum, og t.d. notað til að framleiða vatn sem söluvöru. Það er hið besta mál ef menn sjá leiðir til að hagnast á slíkum rekstri.

Mér líst hins vegar ekki á að þetta sé fært inn í eignarréttarákvæði. Ég tel mikinn mun á því sem stendur í lögunum varðandi nýtingarréttinn og því sem fram kemur í nýja frumvarpinu, þar sem við erum að tala mjög ákveðið um eignarrétt eins og segir í 1. gr. frumvarpsins. Markmið þessara laga er skýrt eignarhald á vatni. Í upphafi II. kafla í 4. gr. segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“

Þetta eru atriði sem ég get ekki fallist á og hyggst fara svolítið yfir það, reyna að styðja með rökum hvers vegna ég get ekki fallist á þetta. Ég hef svo sem komið inn á það áður, í ræðum undanfarna daga, þar sem ég hef sagt að vatn sé mannréttindi og við séum að tala um grundvallarmál. Það er einu sinni þannig að vatn er grunnþörf og algert grundvallarmál.

Hvað er vatn? Jú, vatn er efni einfalt að uppbyggingu og hefur ávallt skipt mjög miklu máli enda liggur það í hlutarins eðli. Það væri ekkert líf án vatns. Þetta er vökvi lífsins. Án vatns væri ekkert líf á jörðinni. Í gamla daga, áður en menn beittu efnafræðirannsóknum, þá var vatn skilgreint, ég held að Forn-Grikkir hafi gert það, sem eitt af fjórum grunnefnum jarðar. Þessi fjögur grunnefni jarðar voru vatn, eldur, loft og jörð, gott ef Aristóteles sjálfur varpaði ekki sjálfur fram þessari kenningu. Allt frá örófi alda og fram til loka 18. aldar litu menn á vatnið sem eitt af þessum fjórum höfuðefnum. En síðan fóru menn að rannsaka efni með aðferðum efnafræði. Þá fundu menn það út að vatn væri í raun 88,8% súrefni og 11,19% vetni. Það er samsetningin á vatni.

Hvers vegna skyldi vatn vera svona mikilvægt fyrir allt líf? Já, það má spyrja að því. Jú, vatn er svona mikilvægt fyrir allt líf vegna þess að það er svo stór hluti í rauninni af öllum lífverum. Það er meira að segja mjög stór hluti af bergi og jarðvegi. Það er alls staðar, það er í loftinu, það er í jörðinni, það er í öllum lífverum sem lifa á þessari plánetu. Þrír fjórðu hlutar yfirborðs jarðarinnar eru huldir vatni, ef við lítum til þess að sjór sé vatn, sem hann náttúrlega er, blandaður ýmiss konar efnum sem gerir það að verkum að hann er saltur og kallast því sjór, ekki hreint vatn, en vatn engu að síður. Þetta er ástæðan fyrir því að jörðin er oft kölluð blái hnötturinn, það er út af öllu þessu vatni sem á henni er. (EMS: Er ekki rétt að formaður iðnaðarnefndar hlýði á mál þitt?) Hv. formaður iðnaðarnefndar hefði gott af því að hlýða á mál mitt og fá einmitt smáfróðleiksfyrirlestur um það hvað vatn sé og um hvað málið snýst. Ég hygg að við höfum gleymt því svolítið í umræðunni og kominn sé tími til að flutt sé a.m.k. ein ræða um hvað vatn sé í raun og veru.

En áfram skal haldið. Vatnið finnst í ám, vötnum og jöklum. Það finnst líka niðri í jörðinni sem svokallað grunnvatn. Eins og ég sagði áðan eru lifandi plöntur og öll dýr að stærstum hluta vatn, 60–70% af okkur þingmönnum eru vatn. Mannslíkaminn er 60–70% vatn. Ég held að engum þurfi að leynast hversu mikilvægur þessi vökvi er fyrir okkur öll.

Vatnið er í eilífri hringrás á jörðinni. Það finnst sem vökvi í ám, stöðuvötnum og í hafinu en það finnst líka í loftinu því að vatnið gufar upp og myndar þá ský, þéttist, verður að rigningu og þannig er hringrás vatnsins endalaus. Það fellur á jörðu og skolast til sjávar ásamt ýmsum efnum, efnasamböndum og gufar síðan aftur upp og þannig er hringrásin endalaus. Á þessari hringrás er vatnið að sjálfsögðu, eins og ég sagði áðan, algjör lykill að öllu lífi jarðar.

Á Íslandi erum við Íslendingar mjög rík þjóð hvað vatn varðar. Hér er mikið af fersku vatni. Við Íslendingar höfum stundað vatnarannsóknir um nokkuð langt árabil, bæði vegna þess að vatnið skiptir okkur að sjálfsögðu mjög miklu máli sem drykkjarvatn en það er líka mjög mikilvægt í orkuframleiðslu. Það eru mörg ár síðan við fórum skipulega yfir öll okkar vötn, bæði stöðuvötn og fallvötn, og skilgreindum þau eftir ákveðnum reglum. Við tölum oft um að íslensk vötn séu greind í bergvötn og jökulvötn. Jökulvötnin innihalda yfirleitt lítið af lífi, enda eru þau mjög gruggug og köld. Það kemur í veg fyrir ljóstillífun, þ.e. lífmyndun, að grænþörungar í vatninu eru ekki til staðar vegna birtuleysis og framleiða því lítið af lífrænum efnum ef svo má segja og súrefni.

Bergvötnin eru hins vegar allt önnur. Það eru ekki jökulvötn heldur eru þau þessi hreinu bláu vötn okkar. Þau skipta miklu máli líffræðilega séð, mjög miklu máli. Við erum með kalt vatn á því sem við köllum móbergssvæði, við erum með kalt vatn af blágrýtissvæðum og síðan erum við með heita vatnið okkar. Það er einmitt berggrunnurinn, landið okkar, og sá tími sem vatnið er að fara í gegnum berggrunninn, og hitastigið líka, sem ákvarðar hvernig efnasamsetningin á vatni er á hverjum tíma hér á landi. Þarna skiptir náttúrlega miklu máli í gegnum hvaða ferli vatnið rennur í gegnum vatnakerfin á leið til sjávar, hversu langan tíma vatnið er á leiðinni til sjávar og hversu mikil lífræn framleiðsla er á hverjum tíma. Þessi lífræna framleiðsla er einkum háð því að sólin nái að skína en það eru líka næringarefni í vatninu og stærð yfirborðsflatar vatnsins sem skiptir miklu máli, og viðstöðutími sem hefur mikil áhrif á það hvernig samsetningin er.

Eins og ég nefndi áðan, virðulegi forseti, höfum við flokkað vatnakerfin okkar í ákveðna flokka. Fræðimenn hafa skilað ákaflega góðu verki í þeim efnum. Við erum með vötn á þessum svokölluðu móbergssvæðum sem eru lindarvötn á yngri hlutum landsins, ef svo má segja. Við tölum um lindarvötn sem vötn sem eru upprunnin í lindum, og það vatn er þá tiltölulega auðugt af steinefnum og næringarefnum. Lindarvötnin eru ríkjandi á þremur landsvæðum og eru oft flokkuð eftir því. Við erum með þau á Suðvesturlandi, Suðurlandi og Norðausturlandi. Síðan höfum við stöðuvötn sem eru mjög mörg og margvísleg. Mörg þeirra eru einstakar auðlindir, við getum nefnt Þingvallavatn sem ég tel hiklaust eitt merkasta vatn á landinu. Ég mun ræða nánar um það síðar í ræðu minni sérstaklega. Við erum líka með mörg önnur vötn, grunnvötn, og þar get ég bent á Mývatn sem einnig er ákaflega merkilegt og Víkingavatn, Apavatn og Laugarvatn á Suðurlandi. Þetta eru allt saman grunnvötn og annars eðlis en Þingvallavatn.

Árnar okkar eru margar hverjar mjög merkilegar. Við getum þar nefnt lindár eins og Sogið sem fellur úr Þingvallavatni, Elliðaárnar, Laxá í Aðaldal og fleiri ár sem falla úr þessum stóru vötnum og eru mjög miklar auðlindir í sjálfum sér. Margar af þessum ám hafa verið virkjaðar en ég hygg líka að mörg sóknarfæri bíði okkar í mörgum þessum ám, þ.e. með tilliti til vatnsnýtingar. Þar erum við kannski komin inn á þetta sem við höfum verið að ræða hér sem er svo viðkvæmt mál vegna þess að vatnið skiptir svo miklu máli fyrir allt líf, þ.e. þetta hlutverk vatnsins fyrir okkur öll, til neyslu er ég þá aðallega að hugsa um.

Önnur vötn sem við getum talað um eru svokölluð dragvötn á móbergssvæðum. Þau eru nokkru öðruvísi en þau lindarvötn sem ég nefndi áðan. Öll þessi vötn okkar eru, eins og ég sagði áðan, mjög mikilvæg og merkar auðlindir. Það er afskaplega mikilvægt að þessi vötn séu vernduð, að við stundum markvissa umhverfisvernd í þeim til að verja þau gegn mengun. Þar má segja að vatnalögin frá 1923, gömlu lögin sem við ætlum núna að fara að fella úr gildi — ef þetta frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu verður að lögum munu þau lög taka við — séu að mörgu leyti afskaplega merkileg lög. Þau voru sett af mikilli framsýni og má segja að þau séu kannski ein fyrstu lög sem sett voru hér á landi sem fjalla um umhverfisvernd. Menn voru svo framsýnir að þeir sáu fyrir sér að mjög nauðsynlegt væri að verja þessi vötn og þessar ár. Ég hygg að einmitt sú framsýni þeirra ágætu manna sem voru hér fyrir 83 árum að ræða gömlu vatnalögin hafi gagnast þjóðinni ákaflega vel, enda vekur rökstuðningur stjórnarliða í umræðunni upp margar og alvarlegar spurningar, þ.e. að ekki sé um neina eðlisbreytingu að ræða heldur aðeins formbreytingu.

Ég hlýt að spyrja, og við í stjórnarandstöðunni höfum spurt en ekki fengið nein svör við því, hvað gerir það að verkum að svona mikið liggi á að breyta þessum gömlu lögum, 83 ára gömlu lögum, sem hafa þó dugað svona vel. Hvað gerir það að verkum að hér þurfi að hleypa þinginu í uppnám, leggja fram vont frumvarp, meingallað og hleypa hér öllu í uppnám? Hvað veldur því að svona ofboðslega mikið liggur á þegar við höfum haft þessi lög sem hafa lýst svona mikilli framsýni og við höfum haft svona lengi? Þau hafa dugað okkur vel og hvers vegna í ósköpunum geta þau ekki dugað hálft ár í viðbót þannig að hægt væri að fara eftir tilmælum mínum í þessu máli a.m.k. og skipa nefnd fulltrúa allra þingflokka og fara yfir málið og koma með nýtt frumvarp að hausti?

Þetta finnst mér, virðulegi forseti, algjörlega óskiljanlegt. Ég botna hreinlega alls ekki í þessu. Ef við komum aðeins nánar inn á þetta finnst mér svolítið skorta á skilninginn á því hjá stjórnarliðum hvernig standi á því að þetta er svona viðkvæmt mál. Af hverju skyldi þetta vera svona viðkvæmt mál? Jú, þetta er svona viðkvæmt vegna þess að við erum að tala um vatn. Við erum að tala um algert grundvallaratriði. Það verður ekki tíundað nógu vel hversu mikilvægt mál við erum að tala um, hversu mikilvægt grundvallarmál við erum að tala um. Vatn hefur ávallt skipt okkur Íslendinga mjög miklu máli, ekki bara sem vatn til neyslu eða vatn til áveitu í tengslum við landbúnað, heldur höfum við líka í gegnum aldirnar háð marga hildina við þetta efni í landi okkar, landi vatns, elds og ísa, eins og við segjum oft. Þetta hefur í raun markað og meitlað þjóðarsálina, þessi barátta okkar við hið mikla náttúruafl sem vatnið er. Þess vegna er það þannig, virðulegi forseti, að allir Íslendingar hafa mjög sterk tengsl við vatn. Það hefur í gegnum aldirnar verið þvílíkur lífgjafi fyrir þjóðina en líka hættulegur óvinur sem við höfum óttast oft og tíðum. Þetta ætti enginn að vanmeta. Það hafa allir skoðun á vatni. Það má eiginlega segja að þetta sé á margan hátt mikilvægara mál að vissu leyti en til að mynda deilurnar um fiskinn í sjónum. Það snýst um mat og auðlindanýtingu en þetta snýst um lífið sjálft. (Gripið fram í.)

Mig langar til að nota tækifærið einmitt til að lesa smákafla sem mér finnst lýsa því ákaflega vel hvernig stendur á því að vatnið er svo meitlað inn í þjóðarsálina. Þetta er frásögn af ferðalagi sem var rituð á ferðalagi þekkts íslensks rithöfundar um kjördæmi mitt, Suðurkjördæmi, Skaftafellssýslur fyrir mörgum árum. Ég er að tala um rithöfundinn Þórberg Þórðarson. Það vill svo til, virðulegi forseti, að þinghald er hér allt í uppnámi og við vitum ekki hvenær við þurfum að mæta til þings og hvenær ekki, hvenær við getum sinnt skyldum okkar sem þingmenn í kjördæmum okkar eða farið á fundi og ráðstefnur eins og við gerum oft þegar ekki er þinghald við Austurvöll. Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér en ég vil koma því að, þar sem við erum að tala um skáldið Þórberg, að ég sem einn af þingmönnum Suðurkjördæmis hef verið boðinn til fundar, einmitt til að ræða um Þórberg og hið svokallaða Þórbergssetur í fundarsal Þjóðminjasafns Íslands næstkomandi föstudag milli kl. tvö og fjögur og mér þætti vænt um að ekki yrði þingfundur á þeim tíma svo við þingmenn Suðurkjördæmis, a.m.k. ég, kæmumst á þennan fund því að þarna verður okkur greint frá því hvað til standi að gera með Þórbergssetur sem er afskaplega merkilegt menningarsetur sem verið er að opna á Hala í Suðursveit, það verður opnað nú í lok júní. Á föstudaginn eigum við þingmenn Suðurkjördæmis að fá upplýsingar um hvað stendur til að gera á þessu merka setri.

Þórbergur Þórðarson var á miklu ferðalagi á heimaslóðum sínum árið 1933 og þá lenti hann í merkilegum hrakningum þar sem hann þurfti að glíma við þetta náttúruafl, vatnið. Hann skrifaði síðar afskaplega skemmtilega og kjarnyrta stutta ritgerð sem heitir Vatnadagurinn mikli og kom út í bók sem heitir Frásagnir og var gefin út í Reykjavík árið 1977. Þarna lýsir Þórbergur ferðalagi sem hann átti með Margréti konu sinni og fylgdarmönnum yfir vötnin miklu í Skaftafellssýslum. Mig langar að lesa þessa frásögn því að mér finnst hún lýsa svo vel hvernig við Íslendingar höfum þurft að glíma við slík náttúruöfl í gegnum aldirnar. Frásögnin heitir Vatnadagurinn mikli og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Sumarið 1933 var hér sunnanlands eitthvert mesta vætusumar, sem elztu menn muna. Í Austur-Skaftafellssýslu rigndi meira eða minna í tuttugu daga í ágústmánuði, og fyrstu tíu dagana í september féll þar í átta daga regn úr lofti, oftast helliregn.

Þetta regngráa og sólarlitla sumar vorum við Margrét kona mín á ferð um Austur-Skaftafellssýslu frá 12. júlí til 10. september. Við fórum sjóðleiðina austur, en ætluðum landveginn til baka, því að ferðir okkar hafði aldrei borið um þær slóðir áður.

Miðvikudaginn 30. ágúst, 28 mínútum eftir hádegi, hófum við ferðina vesturá bóginn frá Hala í Suðursveit. Þann dag héldum við útyfir Breiðamerkursand og náðum að Fagurhólsmýri í Öræfum klukkan níu um kvöldið. Þar héldum við kyrru fyrir í fjóra daga hjá Ara hreppstjóra Hálfdánarsyni, merkum manni og margfróðum. Og það var rautt septembertungl yfir sjónum á kvöldin. Frá Fagurhólsmýri var ferðinni heitið að Svínafelli í Öræfum. Það mun vera um þriggja tíma lestagangur. En þaðan var gert ráð fyrir að við fengjum hesta og fylgdarmann vesturyfir Skeiðarársand.

Við lögðum af stað frá Fagurhólsmýri mánudaginn 4. september klukkan hálfeitt. Ari hreppstjóri léði okkur hesta innað Svínafelli og Helgi sonur hans varð til að fylgja okkur. Þennan dag var þykkt loft, kafið skuggalegum haustþunga, og var sýnilegt, að hann var að draga sig í langæja stórrigningu. Mestallan daginn gekk á skúrum, ýmist í logni eða með vestan andvara. Það hafði rignt um nóttina og daginn áður frá klukkan fjögur, og allir lækir og minniháttar ár í Öræfum höfðu vaxið að sýnilegum mun, en stærri vatnsföll leyna lengur vexti, sem kunnugt er.

Það bar ekkert við öðru hærra á leið okkar innað Svínafelli fyrren við komum að svonefndri eystri Virkisá, sem rennur fyrir austan Svínafell, milli þess og Sandfells. Það rigndi alltaf öðruhverju. Útlitið varð æ þungbúnara eftir því sem á daginn leið. Fjöllin stóðu vatnsgrá uppí þokusvakkann. Og það kom ekki yfir mig neinn hærri fögnuður, þegar mér varð hugsað til ferðalagsins, sem við áttum fyrir höndum yfir Skeiðará og Skeiðarársandinn.

Virkisá eystri hafði vaxið einsog önnur smærri vatnsföll. Hún féll í nokkrum halla, í niðurgröfnum, staksteinóttum skorningi, þar sem við komum að henni, kolmórauð, hólótt og straumþung. Fyrir augum Öræfings, sem glímt hefur við stórár frá blautu barnsbeini, hefur þessi spræna þó sennilega ekki verið öllu tilkomumeiri en glaðvær bæjarlækur.

Mér kom það þessvegna ekki á óvart, þó að Helgi legði útí ána formálalaust, þar sem okkur bar að henni. Hesturinn, sem hann reið, fetaði sig gætilega niður snarbrattan urðarbakkann, og rétt í sömu svifum var hann kominn út í beljandi árstrauminn.

Mér leizt undireins ískyggilega á þetta ferðalag, sýndist botninn óhugnanlega stórgrýttur, straumurinn snarpur og bakkarnir niðurað og uppúr ánni helzt til óvenjulegir hestavegir. Ég kalla því til Margrétar, sem reið á undan mér, og bið hana að hinkra við, meðan Helgi sé að komast yfir. En sakir flaumgnýsins í ánni mun hún ekki hafa heyrt til mín, og áður en ég fengi frekar að gert, sé ég afturendann á hesti hennar standa næstum beint uppí loftið, um leið og hann rennur með möl og grjóti niður bakkann. Nú var allt um seinan.

Ég gerði nú stanz á hesti mínum uppiá bakkanum og horfði til ferða þeirra. Hestur Helga þreifaði sig áfram yfir botngrýtið, blindmiðaði fótunum milli hnullunganna, mjakaði sér lengra og lengra gegnum hvissandi strauminn og brauzt svo í rykkjum upp urðarstálið vestanmegin.

Þegar hestur Helga er í þann veginn að losa sig upp úr ánni, er Margrét komin um það bil útí hana miðja. Hestur hennar fálmaði sig varlega, hægt og hægt lengra í áttina yfirum, með straumþungann hvílandi á sér uppundir miðja síðu. En rétt í því, er hann hefur klöngrazt rúmlega hálfa breidd árinnar, þá rekur hann annan framfótinn í einn botnhnullunginn og stingst samstundis á hausinn niðurí straumkastið. Margrét fýkur einsog tuskudúkka niðureftir faxi hestsins, en tekst með eldingarviðbragði að stöðva sig frammiá miðjum makka með því að slöngva handleggjunum undir háls hestinum, hann rykkir sér á fætur og rífur sig uppúr ánni og upp vesturbakkann með Margréti liggjandi rennblauta frammiá makkanum með báðar hendur spenntar dauðahaldi yfirum hálsinn.

Þessi sena stóð aðeins þrjú til fjögur andartök. En það er þó sá leikur, er ég vildi sízt sjá leikinn í annað sinn af öllu, sem fyrir augu mín hefur borið. Ef Margréti hefði ekki tekizt að stöðva sig á makka hestsins — og þar munaði mjóu — eru litlar líkur til, að hún hefði farið fleiri ferðir yfir fallvötn þessa heims.“

Virðulegi forseti. Á þennan hátt lýsir skáldið Þórbergur viðureign sinni og Margrétar eiginkonu sinnar ásamt leiðsögumönnum yfir vötnin miklu í Skaftafellssýslum. Þetta er frábær texti í þessari litlu ritgerð, afskaplega skemmtileg ferðasaga. Ég ætla ekki að lesa hana alla. (KÓ: Af hverju ekki?) Ja, ég heyri að hv. þm. Kjartani Ólafssyni líkar lesturinn, enda er hann hestamaður. Ég get vel lesið áfram honum til gleði og ánægju. Hann skemmtir sér eflaust við þessar lýsingar því að þær eru mjög skemmtilegar á því þegar fólk ferðast um landið okkar, einmitt á hestbaki. Ég skal lesa aðeins meira, honum til ánægju, með leyfi forseta:

„Þetta fall dró á eftir sér uggvænlegar sálarverkanir og þær því uggvænlegri, að sextán dögum áður hafði Margréti hent það óhapp austurí Hellisholtsvatni á Mýrum, að hestur hennar lenti í bleytu og brauzt um nokkuð, svo að reiðtygin runnu með hana afturaf reiðskjótanum og hún sat holdvot á hnakknum niðurí vatnsaganum, þegar að henni var komið. Þá vildi henni það til lífs, að hún var komin langleiðina að landi og vatnið lygnt og ekki dýpra en milli hnés og hófskeggs. En nú áttum við eftir að ríða yfir nafnfrægasta vatnsfall landsins, eitt hið mesta, straumharðasta og illræmdasta stórfljót á Íslandi, Skeiðará á Skeiðarársandi.

Ég sneri nú hesti mínum svo sem tveggja til þriggja mínútna leið niðurmeð ánni. Þar var hún straumléttari, breiddi meira úr sér og var betri í botninn.

Við Margrét fengum gistingu í Austurbænum í Svínafelli, en Helgi sneri heimleiðis með hestana. Daginn eftir ætluðum við að halda vesturyfir Skeiðarársand. Við höfðum fengið okkur til fylgdar yfir sandinn þaulvanan vatna- og ferðamann, Runólf Jónsson bónda í Vesturbænum í Svínafelli. En þennan dag, sem var þriðjudagurinn 5. september, gekk á með hellirigningu næstum óslitið allan daginn, loftið var korgþykkt og ábúðarmikið og ýmist gola eða kaldi á suðaustan. Þá mátti búast við stinningsvindi útiá Skeiðarársandi. Í Svínafelli er oftast lygnt og blítt í veðri, þóað vindar gnýi eystra og vestra. Við hreyfðum okkur ekki frá Svínafelli þennan dag.

Daginn eftir var loft ennþá þungbúið og vætugróið, og leit út fyrir, að hann dytti á hverri stundu á með stórrigningu. Af því varð þó ekki. Hann hékk uppi þurr til klukkan fjögur, síðan gekk á hægum skúrum til klukkan átta, en eftir það var aftur þurrt í veðri. Veðurútlitið framanaf degi dró úr áhuga okkar að leggja á Skeiðarársand þann daginn. Og uppúr því snerist ferðalagið þannveg fyrir okkur, að við afréðum að bíða í Svínafelli, þartil póstur kæmi að austan og verða honum samferða vesturyfir sandinn. Seint myndi mannsliðinu verða ofaukið yfir Skeiðará.

Við notuðum þetta uppþot til þess að skoða okkur svolítið um í Svínafelli. Á svona fornu höfuðbóli tekur það langan tíma að stilla eyrað á hinn fjölraddaða eftireym kynslóðanna, ekki sízt þegar alltaf rignir og maður á eftir að fara yfir Skeiðará. Við urðum þessvegna að gera okkur að góðu að takmarka athygli okkar við hinar fátæklegu skuggamyndir hversdagsleikans.

Bæirnir, fjórir að tölu, standa undir dásamlega fagurri fjallshlíð, sem öll er grasi og skógi þakin uppá efstu brúnir. Niður hlíðina ganga nokkur hlýleg gil og giljadrög, gróin stórvöxnum skógi og fögrum jurtum, og niður gilin renna silfurtærir lækir. En svo að segja fast uppvið vesturútjaðra þessarar myndar fellur Svínafellsjökull niðurá láglendið um slakka í fjallinu, leirgrár og sundursprunginn varla lengra en fimm mínútna gang frá bæjarhúsunum. Á þeirri jörð, sem jökulhrönnin liggur nú yfir, segja fornar sagnir, að staðið hafi bærinn Freysnes, er lagðist í eyði í jökulhlaupinu mikla á fjórtándu öld. Þá tók af um 40 bæi í Litlahéraði, einu af blómlegustu sveitum landsins. Eftir þá tortímingu hlaut það nafnið Öræfi.

Þegar horft er heimanfrá Svínafelli í suðurátt, sér yfir haga og engi svo langt sem auga eygir. En í vestri og suðvestri blasir við Skeiðarársandur, og bak við hann, lengst í vestri, rís Lómagnúpur uppúr þessari miklu auðn dauðans, lóðrétt einsog bergkastali frjálsrar þjóðar.

Ef það skyldi eiga fyrir þér að liggja að halda heimað Svínafelli úr austurátt á björtum sumardegi, í fyrsta sinn á ævi þinni, mætir augum þínum mynd, sem er ólík öllu öðru, sem þú hefur nokkurntíma augum litið hér á landi. Áður en þú rámkar við þér, ertu farinn að spyrja sjálfan þig: Hvað er þetta? Hvert er ég kominn? Er ég á leið inní fjallaþorp suðurí Sviss? Eða er þetta hugarburður, sem einhverntíma hefur borið fyrir sjónir mínar í draumi? Eða er ég að hverfa inná land lifenda, sem ég hef lesið um í helgum bókum? Og þessi mynd vekur með þér sáran trega alla ævi síðan, hvenær sem þú leitar eftir náttúrufegurð í veröldinni.

Skeiðará sýndist ekki kvíðvænlegur farartálmi tvo fyrstu dagana okkar í Svínafelli. Ekkert nema örmjóar, dauðalegar lækjarlænur, sem lyppuðust í ánalegum hlykkjum vesturí sandauðninni, einsog þær nenntu varla að dragnast áfram hina löngu leið til sjávar. Hvernig gat manni komið til hugar, að þarna vesturfrá, þar sem allt virtist dautt og hreyfingarlaust, leyndist eitt af ægilegustu vatnsföllum landsins? En á þriðja degi tók hann að herða rigninguna, og eftir því sem lengur rigndi, hillti lænurnar vesturí auðninni hærra og hærra og breiddu meira og meira úr sér.

Hingað til höfðu viðræður okkar við fólkið hnigið að stjórnmálum, lífsfílósófí og sögu sveitarinnar. En nú fór Skeiðará að flóa yfir víðara og víðara rúm í huganum og þenja sig yfir stærra og stærra svæði af umtalsefninu. Skyldi hún verða blaut í botninn? Staksteinótt? Straumhörð? Djúp? Breið? Hyljótt? Falla vel?

Það varð um engar smugur framhjá því komizt, hvernig sem við leituðumst við, að Skeiðará var allt önnur nú á dögum en í fornöld, þegar ekki fór meira fyrir henni en svo, að rétta mátti vefjarskeið yfir hana, einsog sagan segir, að hún hafi hlotið nafn sitt af. Skeiðará vorra daga er geysilegt vatnsfall, straumhörð, vatnsmikil, stórvirk og kenjótt. Hún gat breytt um farveg á skömmum tíma. Brot, sem var reitt þessa stundina, gat verið umhverft í ófæru eftir fáa stundarfjórðunga. Hún var að vísu ekki stórgrýtt. En hún átti það til að vera hyljótt og blaut í botninn. Hestar gátu brotizt um í henni og reiðtygin runnið afturaf þeim, ef maður hélt sér ekki vel í faxið. Og ekki var fólki liðið það ennþá úr minni, að hestur með manni á, hafði horfið í skyndilegri svipan á bólakaf niðurí einn vatnspyttinn, þegar hann var að þreifa sig áfram í kolmórauðu jökulvatninu yfir ána. Hún óx auðvitað í rigningum, og í miklum rigningum gat hún orðið svo stórfengleg, að heimanfrá Svínafelli sýndist ein vatnsbreiða allar götur vestureftir Skeiðarársandi. Hún bætti líka í sig í hitum, einsog önnur jökulvötn, og dagana, sem við dvöldumst í Svínafelli, var alltaf hlýtt í veðri auk óveðursins, sem hlaut að gera öll vötn mikil. Margir höfðu komizt í hann krappan við Skeiðará. Stundum höfðu menn verið margar klukkustundir að svamla yfir hana. Dæmi fundust einnig þess, að varla hafði munað hársbreidd, að hún sópaði ferðamönnum útí hafsauga, ef þeir voru staddir á sandinum, þegar hin feiknlegu Skeiðarárhlaup brutust fram undan Skeiðarárjökli.

Svona ræddum við um Skeiðará dag eftir dag frá öllum hliðum og sjónarmiðum. Þó að við hvörfluðum að öðrum umtalsefnum stund og stund, soguðumst við áðuren minnst varði aftur inní straumgný þessarar ferlegu móðu. Vatnaþekking Austur-Skaftfellinga er heil fræðigrein, sem seint verður lærð til hlítar. Og hver ný ræða um Skeiðará flutti okkur einhverja nýja þekkingu.

En þrátt fyrir allan ægileik Skeiðarár báru þessar sprettiræður okkur alltaf að einni huggun. Í Skeiðará hafði aldrei maður drukknað. Jú-ú! Einhver gömul sögn var ennþá á reiki í Svínafelli um mann, sem hafði drukknað í ánni. En þar með var allt talið. Hinsvegar kunnu menn nokkur dæmi um drukknanir í Jökulsá á Breiðamerkursandi.

Hvernig stóð á því, að Jökulsá skyldi hafa orðið fengsælli á mannslífin en Skeiðará?

Jökulsá rann alltaf í einni breiðu og hafði grafið sér fastan og djúpan farveg niður í sandinn. Auk þess var hún meira vatnsfall og ennþá straumharðara en Skeiðará. Skeiðará flæddi yfir breiðara svæði, rann venjulega í mörgum álum og féll að öllum jafnaði á sæmilegum brotum.

Næsta dag, fimmtudaginn 7. september, var regnúði framað klukkan sjö um kvöldið, en þá gekk hann í bullandi óveður og rigndi í sífellu alla nóttina. Daginn eftir hellti úr lofti þrotlaust og alla næstu nótt. Regnið dundi á húsþökunum og streymdi í lækjum niður þakrennurnar. Lækjarhjalið í giljunum var að breytast í þungan árnið. Grösin og skógurinn í brekkunni hníptu litverp. Grasmaðkarnir flúðu unnvörpum uppúr jörðinni og engdust innum gluggann á svefnherberginu okkar — hann var niðurundir jörð uppað brekkunni — og leituðu sér athvarfs niðurí rúmunum og nutu þar óafvitandi gestrisni, þartil maður fann þá skríða við sig beran. Og við töluðum mestallan daginn um Skeiðará, sem nú þandi sig yfir meiri og meiri víðáttu vesturá sandinum.

Dimmgrátt loft, regndynur, niðandi vatnagnýr, tún, hlöð og garðar á floti í vatnssvakka, — þetta var stemmning laugardagsmorgunsins. Við vissum að pósturinn myndi koma austanað á laugardagskvöldið og halda vesturyfir Skeiðarársand á sunnudaginn, hvað sem á dyndi. Og við byrjuðum morguninn með fræðilegum samræðum um Skeiðará. Regninu hellti ennþá niðurúr hreyfingarlausum skýjamekkinum. Hvert sem litið var, grámaði fyrir pollum, ám og lækjum, og vatnagnýrinn var orðinn fastur í eyrunum á okkur, einsog við hefðum fæðzt með hann.

Skyldi nú Skeiðará ekki vera orðin ófær?

Ja, það fer nú að verða á takmörkum.

Ekki vil ég nú segja það. Ennþá meiri sýndist hún vera hérna um árið, þegar hann Sigfús Johnsen fór yfir hana. Þá flóði hún vestureftir öllum sandi, næstum eins langt og við sáum héðan að heiman.

Fékk hann hana ekki djúpa?

Ekki ákaflega. Hún getur verið grynnri í miklum rigningum en í þurrkatíð. Þegar hún er í miklum vexti, ryður hún undir sig möl og sandi og flákar sig útyfir breitt svæði, og þá er síður hætt við bleytum, því að straumþunginn þjappar niður vatnsbotninum. Hún er stundum dýpri í þurrkum. Þá hættir henni við að grafa sig niður í mjórri ála.

Svo er.

Svona gat huggunin leynt sér lengi austurí Öræfum.

Vatnið hélt áfram að streyma úr loftinu stanzlaust þartil framundir miðmunda. Himinn og hauður sýndust runnin saman í einn gráan vatnsmökk. En rétt fyrir miðmunda rauf hann loksins gat á skýjakafið í norðvestri, svoað sá dimmbláan heiðglugga yfir Skaftafellsfjöllunum. Dimmblá heiðríkja er fyrirboði þerris. Undir kvöldið var vatnagnýrinn farinn að fá aukahreim af fjallátt. Ennþá var þó loftið mjög skýjað. Glugganum í norðvestri gekk illa að stækka. Við töluðum um það, hvort það myndi setja niður í Skeiðará í nótt.

Svo kom sunnudagsmorgunninn. Loftið einsog í fornum annálum fyrir mikla mannskaða: Hvergi skýhnoðri á himni, — hægur norðauastan fjallablær, glitrandi sólskin og heitt í veðri. Það hafði sett svolítið niður í vötnunum. Og nú fyrst lagði það af tilviljun í eyru okkar, að fólkið í Svínafelli hefði verið farið að verða hrætt um, að jarðvegurinn í brekkunni yfir bæjunum myndi fljóta með alltsaman niðurá jafnsléttu í ósköpunum. Svona kurteisir menn eru Öræfingar.

Fimmtán mínútum eftir miðjan morgun riðum við úr hlaði í Svínafelli undir dimmbláum himni í glaðasólskini, öll á þaulvönum vatnahestum, pósturinn, Runólfur Jónsson, Margrét og ég. Fólkið stóð útiá stéttinni og horfði á eftir okkur, og ég raulaði þessa vísu fyrir munni mér:

Ó, hve tíminn er að sjá

undarlega skaptur.

Hvað mun dagur heita sá,

nær hingað kem ég aftur?

Og nú áttum við von á fimmta manni í hópinn. Það var Runólfur Bjarnason í Skaftafelli, einn mesti Skeiðarárfræðingur í Öræfum. Hann hafði verið beðinn símleiðis að fylgja okkur yfir Skeiðará, þegar augsýnilegt þótti heima í Svínafelli, að hún væri komin í algleyming, og hann hafði lofað að koma í veg fyrir okkur á sandinum niðriundan Skaftafelli.

Við létum hestana rölta út aurana fyrir vestan Svínafell og töluðum um rigninguna og vötnin, og svo byrjuðum við að þegja. Framundan breiddist út Skeiðarársandur og niðandi vatnaflákar, en bakvið sandinn skyggði Lómagnúp vesturí fjarsta heiði.

Á aurunum nokkurn spöl fyrir vestan Svínafell komum við að fyrsta vatnsfalli þessa ógleymanlega vatnadags. Það var Svínafellsá, sem fellur undan Svínafellsjökli, all-mikið vatnsfall, kolmórautt, straumhart, stórgrýtt og beljandi. Hún var sjómikil, en nú var farið að fara hana fjær jöklinum en áður tíðkaðist, og þar var straumurinn ekki eins stríður og botninn jafnari.

Svo létum við hestana tölta áfram vesturá bóginn all-langa leið, þartil við komum að öðru vatnsfalli sýnu meira og breiðara en Svínafellsá. Það var Skaftafellsá, sem kemur undan Skaftafellsjökli, skriðjökli, sem gengur fram milli Skaftafells og Svínafellsjökuls. Hún var líka mjög vatnsmikil, en féll á góðu broti og flákaði sig sæmilega og var þó á miðjar síður, straumþung og mórauð, en ekki slæm í botninn. Nokkurn kipp fyrir vestan hana kom Runólfur í Skaftafelli til móts við okkur. Hann var karlmannlegur og vatnareifur, á stórum og sterklegum hesti þarna í morgunsólinni. Mér fannst Skeiðará minnka, þegar ég horfði á hann.

Er ekki Skeiðará mikil?

Jú, það er anzi mikið í henni.

Ég leit til Margrétar. Ég vissi, að „anzi mikið“ á máli Öræfinga þýðir nokkurnveginn sama og „andskotans ósköp“ í málfari okkar hér í Reykjavík. Nú fór leiðin að styttast. Við þögðum öll, og þögn okkar féll öll til vesturs. Ég rauf þennan óhugnanlega hljóðleik með því að brýna ennþá einu sinni fyrir Margréti vatnaboðorðin. Þau voru fjögur: Haltu ekki fast í tauminn! Stattu ekki í ístöðunum! Haltu annarri hendi af öllu afli í faxið, ekki í hnakkinn! Horfðu ekki niðurí vatnið, heldur skaltu einblína útí sjóndeildarhringinn eða á Lómagnúp!

Vatnsgnýrinn varð þyngri og þyngri. Hvert hófatak bar okkur nær og nær. Og áður en minnst varði vorum við fimm veikburða manneskjur komnar framá austurströnd hinnar miklu móðu. Ég þreif úrið uppúr vasa mínum. Það vantaði tíu mínútur í átta. Halt' þér fast í faxið! Statt' ekki-í … Svo kafnaði allt, sem á eftir kom, í straumgnýnum. Þetta var mikið fljót, og það var einsog straumþunginn væri hér af sterkari kynstofni en í öðrum vötnum, sem við höfðum riðið þetta rigningasumar, en þau voru hartnær þrjátíu.

Hér urðu samt engar vomur. Runólfur í Skaftafelli hleypti hestinum undireins niðurí kolmórautt straumkastið. Hvernig veit maðurinn, að þetta sé fært? Svo fóru þeir Runólfur í Svínafelli og pósturinn með Margréti á milli sín. Ég lagði útí síðastur. Hestarnir óðu hægt og íhugandi og hölluðu sér lítið eitt á strauminn. Vatnið var þó ekki nema uppá miðjar síður. Margrét hélt sér í faxið. Þetta gekk allt einsog í beztu sögu.

Örstuttu vestar brunaði fram á leið okkar annað fljót, álíka strítt og vatnsmikið sem hið fyrra. Við mjökuðumst yfir það í sömu röð og áður. Vatnið var ívið grynnra.

Þá tók við dálítil sandspilda, og vestanmegin hennar, bakvið fláandi malarbakka, beljaði áfram þriðja fljótið, mikið vatnsfall og ófrýnilegt. Runólfur í Skaftafelli setti hestinn ennþá útí næstum beint af augum, svo Runólfur í Svínafelli og pósturinn með Margréti á milli sín og síðast ég. Hestarnir þverskáru straumbreiðuna, sem braut á þeim ofanhallt við miðjar síður, og eftir 40 til 50 hálfsvimandi augnablik höfðum við þessa ljótu móðu að baki okkar.

Hestarnir frísuðu, og ískalt jökulvatnið rann niðurúr þeim. En nú sýndist Skeiðará líka vera búin. Framundan blasti við vatnslaus eyðimörk með Lómagnúp að baki og Skeiðarárjökul leirgráan og sprunginn nokkra kílómetra í burtu til hægri handar.

Jæja, sjáum skinnið! sagði ég við sjálfan mig, þar sem ég lét hestinn ráða ferðinni í humátt á eftir samferðafólki mínu. Skeiðará er þá ekki eins stórkostlegt vatnsfall og maður hefur heyrt talað um. Mér virtist sex dögum síðar, að þessir þrír álar hefðu verið álíka vatnsmiklir og þrjú Markarfljót í rigningartíð. Við létum hestana skokka vestur sandinn, og allir þögðu. Hversvegna þegja allir? Það skyldi þó vera, að Skeiðará sé búin.

Eftir tæpa tveggja mínútna reið tók að skráma fyrir augum mér sýn, sem ég hef aldrei getað losnað við síðan. Uppfyrir gráa auröldu nokkurn spöl fyrir framan okkur glampaði í sólskininu á mórauða vatnshóla, stróka og boðaföll, sem ýmist hófust eða duttu niður eða þeyttust hvítfyssandi áfram á fleygiferð. Í þessari sýn, sem stakk svo í stúf við dauða eyðimörkina, var eitthvað ægilega tryllt og dularfullt. Þegar við komum lítið eitt nær, var þetta ekki ósvipað til að sjá endalausri þvögu af úlfaldalestum á þeysihlaupum niður sandinn.

Það skipti svo að segja engum togum. Við erum áður en minnst varir komin framá bakka á vatnsbreiðu, sem líkist meira hafi en nokkru vatnsfalli, sem ég hefði áður séð. Mér hefur aldrei brugðið eins í brún. Þessi hafsjór er áreiðanlega engum fær, hugsaði ég ósjálfrátt upp aftur og aftur. Við hljótum að verða að snúa við. Allt yfirborð þessarar tröllauknu, leirmórauðu hafrastar þaut framhjá okkur með flughraða, hófst hér og þar í háa bunka, féll svo niðurí djúpa dali, vafði sig í hendingskasti í risavaxna ströngla, sem byltust um í hvítfyssandi boðaföll, hringsnerist í sogandi iðusveipi og skrúfaðist upp í drýli og stróka, en gnýrinn af hamförum þessarar brimrastar var svo mikill, að við áttum fullt í fangi með að heyra hvert til annars. Og þegar ég leit augunum kringum mig af vatnsfluginu, sýndist allt umhverfið hringsnúast einsog voldugt karúsel.

Það var undireins sýnilegt, að þessi ókjör voru engum hesti fær, þar sem við komum að þeim. Þeir Runólfur í Skaftafelli og pósturinn tóku sig því úr hópnum og riðu nokkra leið niðurmeð flaumbreiðunni, ef hugsazt gæti, að einhversstaðar mótaði fyrir broti. Það gekk alveg framaf mér, að nokkrum óbrjáluðum manni skyldi geta dottið í hug að leita að broti á þessu hafsævi. Við hin fórum af baki og horfðum á eftir þeim. Hestarnir lygndu þunglyndislega aftur augunum einsog þeir fyndu á sér, að nú væri ekki skemmtilegt í vændum. Snertikipp fyrirneðan okkur lögðu þeir Runólfur og póstur útí straumhafið. En þeir voru varla lausir við land, þegar hestarnir undir þeim voru að stingast á sökkvandi kaf og snarsneru til sama lands aftur.

En þeir gáfust samt ekki upp við svo búið, létu hestana eigra lestaganginn ennþá all-langan veg niðurmeð ánni og sýndust aldrei hafa augun af straumfallinu. Loks námu þeir staðar nokkur augnablik og horfðu vesturyfir. Því næst beindu þeir hestunum að vatninu og settu þá útí. En þarna fór allt á sömu leið og áður, hestarnir á bólakaf og sneru í einu vetfangi aftur til sama lands. Auk þess fór að verða meiri hætta á sandbleytum eftir því sem lengra dró niðureftir. Þarna sneru þeir við og héldu aftur uppmeð ánni þangað sem við biðum með augun límd við hverja hreyfingu þeirra. Þetta leit ekki glæsilega út. Ekki fýsilegt að verða að snúa aftur í þessu einmuna veðri og máski kominn úrhellingsslökkvandi í fyrramálið. Þetta var rigningartíð. Og við stödd milli tveggja höfuðsanda og stórvötn á báða vegu.“

Ég ætla ekki að lesa lengra í hinni mergjuðu frásögn hjá meistara Þórbergi en mér finnst þessi frásögn, sem er að finna í bókinni Frásagnir, lýsa því afskaplega vel hvernig við Íslendingar höfum þurft að glíma við hið mikla náttúruafl sem er vatnið og vötnin.

Ég vil bara segja að eftir að meistaranum hafði tekist að komast klakklaust yfir þessa miklu sanda og þessi miklu fljót hafði hann þetta sem lokaorð í ritgerð sinni, og lýk ég þar með lestrinum, með leyfi forseta:

„Ég gekk fram og aftur um sandölduna og orti hjartnæmasta ástarkvæði, sem ort hefur verið á íslenzka tungu. Það hefur aldrei verið birt á prenti.

En það er verið að kompónera lag við það vesturí Ameríku.“

(Gripið fram í: Hvaða kvæði er það?) Það hefur ekki komið fram, ég veit ekki hvaða kvæði meistarinn er þarna að skrifa um. Sennilega hefur hann geymt það með sjálfum sér en hann lifði það af að skrifa þessa skemmtilegu ritgerð.

Af hverju er ég að lesa þetta? Jú, ég er að lesa þetta vegna þess að ég er að reyna að bregða ljósi á það hvernig á því standi að frumvarp þetta, sem heitir frumvarp til vatnalaga, veldur svona mikilli ólgu. Hvað er það sem snertir strenginn í íslensku þjóðarsálinni sem er að gera allt vitlaust? Hvernig stendur á því að þingið fer nánast á hliðina þegar frumvarp þetta er lagt fram? Hvernig stendur á því að fólk bregst harkalega við, það fólk sem ég hef heyrt í og hitt, sem hefur gert sér grein fyrir því hvað meiri hlutinn á Alþingi ætlar sér að gera, þ.e. að færa eignarrétt yfir vatninu á Íslandi, vötnunum, meira að segja fallvötnunum, þessari miklu ógn sem okkur þykir öllum svo vænt um, og gera þetta allt að einkaeign einhverra fárra útvalinna? Þetta veldur miklum tilfinningastormi hjá mörgum Íslendingum. Ég hygg að það sé einmitt vegna þess að vatnið (Gripið fram í.) er alveg eins og hafið, inngróið í þjóðarsálina. (Gripið fram í: Samvinnuhugsjónir …) Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að ég legg svo mikla áherslu á að þegar við endurskoðum vatnalögin frá 1923 vöndum við til verka. Enn og aftur ítreka ég að ég get alveg tekið undir að þau lög má endurskoða, en ég legg ofuráherslu á að við vöndum okkur þegar við endurskoðum þau lög og pössum okkur á því að gera engin mistök sem við eigum eftir að sjá eftir síðar meir.

Við höfum komið víða við í þeim stuttu ræðum sem við stjórnarandstæðingar höfum flutt gegn frumvarpinu. Við höfum bent á ýmsa galla. Það hefur verið með höppum og glöppum en einungis þeir ræðumenn sem hafa fengið tækifæri til að tala til þessa hafa getað farið nokkuð skipulega í gegnum þetta og bent á það sem þeim finnst vera gallar við frumvarpið.

Með nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar fylgir mikið safn af umsögnum sem hafa borist um frumvarpið. Þegar maður les frumvarpið og skoðar síðan umsagnirnar sér maður að frumvarpið er svo gallað að það verður að vísa því til baka. Það þarf að vinna málið miklu betur. Það er mjög mikilvægt og aðkallandi að það verði gert. Ég á reyndar ekki sæti í minni hluta iðnaðarnefndar en félagi minn, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, sem er fulltrúi Frjálslynda flokksins í iðnaðarnefnd á sæti þar. Ég hef því ekki setið þá fundi en hef hins vegar rennt yfir nefndarálitið og skoðað umsagnirnar. Mér finnst koma í ljós að minni hluti nefndarinnar er sammála mér um að það sé alveg borðleggjandi að endurskoða þurfi gömlu vatnalögin. Ég held að allir séu sammála um það.

Nefndin segir hér að margir sem hafi komið á fund hennar hafi einmitt sagt að það væri best að fara sér hægt í þessu máli og vanda frekar til verka. Það eru þau tilmæli sem mér finnst að stjórnarliðar ættu að taka til athugunar.

Ég ætla svo sem ekki að fara neitt ítarlega yfir þetta nefndarálit. Ég veit að stjórnarandstæðingar sem eru í iðnaðarnefnd hafa gert það og munu gera það, en mig langar aðeins til að koma svolítið inn á nokkurn hluta þeirra umsagna sem hafa borist um málið.

Hér er umsögn frá Umhverfisstofnun sem er dagsett 1. desember 2005. Þar nefnir þessi mikilvæga stofnun þá staðreynd að mjög skiptar skoðanir hafa verið um þetta frumvarp sem kemur hér fyrir þingið í annað skiptið, ef ég man rétt. Það var líka fyrir þinginu í fyrra en nú er það að koma í annað sinn. Umhverfisstofnun gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarpið, gerði það í fyrra og gerir það aftur núna. Bent er á að ekki hafi verið leitað til stofnunarinnar með neinum formlegum hætti þegar frumvarpið var í smíðum og stofnunin segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Umhverfisstofnun telur það verklag, sem því miður er ekkert einsdæmi, að nefndir skili frumvarpstexta til ráðherra án þess að hafa sjálfar leitað eftir viðbrögðum með formlegum hætti úti í samfélaginu, sé mjög vandmeðfarið. Slíkt á einkanlega við þegar verið er að leggja til breytingar á löggjöf sem kann að snerta eða skarast á við verkefni sem aðrir aðilar innan stjórnsýslunnar eru að sinna. Þegar þannig háttar, og eftir að frumvarpið hefur verið lagt fram, má reikna með að umræðan um efni þess fari eingöngu fram á Alþingi. Hætt er við að umræðan verði mun harðari en hún þyrfti að vera ef ekki er búið að ræða framkvæmdar- og tækniatriði þess á fyrri stigum og sem flest sjónarmið liggja fyrir. Umhverfisstofnun telur að umrætt frumvarp til vatnalaga hafi goldið þessa verklags.“

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir þetta þegar ég les frumvarpið, það er á margan hátt alveg meingallað. Það er alls ekki tækt til laga. Það þarf að vinna það miklu betur. Það þarf að leyfa þessu máli að þroskast í meðförum þingmanna, (Gripið fram í.) í umræðum á hinu háa Alþingi, í iðnaðarnefnd og jafnvel fleiri þingnefndum áður en það getur orðið að lögum.

Ég vil leyfa mér að benda á að í niðurstöðu umsagnar Umhverfisstofnunar frá 1. desember í fyrra bendir Umhverfisstofnun á að verið sé að breyta hérna gömlum heildarlögum og láta þau fjalla um afmarkaðan þátt fyrri laga en undir sama heiti, þ.e. nýja frumvarpið ber sama heiti og gömlu lögin sem mér finnst á margan hátt vera ámælisvert. Ef ég man rétt gerir Umhverfisstofnun tillögu um að þessi lög verði látin heita annað. Ég er alveg sammála því. Umhverfisstofnun leggur til að skilgreiningu á eignarréttinum verði breytt og jafnframt er bent á að von sé á frumvarpi þar sem til standi að innleiða þessa svokölluðu vatnatilskipun sem gangi þá út á að mynda rammalöggjöf um sameiginlega nýtingu vatns, aðgengi almennings að vatni og verndun. Helsta markmið eða leiðarljós þessarar vatnatilskipunar sem mér sýnist ríkisstjórnarmeirihlutinn mjög hræddur við og vilji helst ekki vita af er, samkvæmt því sem Umhverfisstofnun segir, einmitt að vatn sé ekki verslunarvara heldur sameiginleg arfleifð og það beri að varðveita vatnið sem slíka arfleifð. Þetta finnst mér vera mjög athyglisverður punktur og ég fæ ekki skilið hvers vegna í ósköpunum ekki er hægt að bíða eftir þessari vatnatilskipun.

Stjórnarliðar hafa hvergi nokkurs staðar í öllum sínum málflutningi, í öllu því þrefi sem hefur staðið yfir á þingi, getað komið með efnislega röksemd að mínu mati fyrir því hvað það er sem gerir það að verkum að afgreiða verði þetta frumvarp sem lög frá hinu háa Alþingi áður en þingi lýkur í vor. Það er engin röksemd komin fyrir því. Og maður getur velt fyrir sér hverjar ástæðurnar fyrir því eru, hvers vegna svona mikið liggur á.

Ég hef sjálfur kallað eftir því að hæstv. forsætisráðherra kæmi í þingsal, í ræðustólinn, og útskýrði fyrir þingheimi í ræðu hvað gerir það að verkum að hann vilji koma þessu máli í gegn. Ég hef öruggar heimildir fyrir því að það sé einmitt hæstv. forsætisráðherra sem leggi mesta áherslu af öllum á það að þetta verði afgreitt héðan sem lög í vor. Ég hef beðið um að hann kæmi hingað og útskýrði fyrir okkur þingmönnum hvers vegna, en hann hefur því miður ekki séð sér fært að gera það. Ég hef sterkan grun um að hann hafi ekki einu sinni fylgst með umræðunum sem hafa átt sér hér stað, a.m.k. benda þær fáu ræður sem hann hefur haldið til þess að hann hafi ekki haft mikla hugmynd, því miður, um það sem hefur átt sér stað í þingsalnum fram til þessa þegar þetta frumvarp er annars vegar.

En nóg um það, virðulegi forseti.

Lítum áfram á umsögn Umhverfisstofnunar. Hún segir að þrátt fyrir að einhverjar breytingar hafi verið gerðar á þessu frumvarpi frá því í fyrra standi enn eftir nokkur atriði sem Umhverfisstofnun finnst mikilvæg, til að mynda þetta með lögleiðingu vatnatilskipunarinnar og síðan það að ekki sé enn búið að samræma löggjöf um nýtingu og verndun vatns. Í þessu sambandi langar mig til að benda á eitt sem ég hef gert mér grein fyrir bara á undanförnum dögum og það er að hæstv. landbúnaðarráðherra hefur lagt fram í þinginu mikla lagabálka sem varða lax- og silungsveiði og aðra þætti er varða nýtingu ferskvatnsfiska hér á landi, frumvörp um fisksjúkdóma, Veiðimálastofnun og annað. Mig minnir að þetta séu ein sex frumvörp þegar allt er tekið saman, miklir lagabálkar. Þeir hafa enn þá ekki komist í gegnum 1. umr. en ég hef grun um að þeir tengist á margan hátt efnisinnihaldi þessa frumvarps hér, frumvarps til vatnalaga. Ég mun koma aðeins að því síðar í ræðu minni en þar eru einmitt þættir varðandi nýtingu á auðlindum í ferskvatni, þá ekki síst fiskstofnum. Eins og kunnugt er eru einmitt fiskstofnar í ferskvatni hér á landi ákaflega dýrmætir, ekki vegna þess að þeir skili svo miklum afla í tonnum talið, heldur er mjög mikill og arðbær iðnaður rekinn í kringum nýtingu á laxfiskum hér á landi. Þá er ég að tala um sölu á sportveiðileyfum.

Þetta mun ég koma inn á aðeins síðar í ræðu minni, virðulegi forseti, en mig langar að lokum í umfjöllun minni um þessa umsögn frá Umhverfisstofnun sem ég tel ákaflega mikilvæga vekja athygli á því að Umhverfisstofnun — og hérna er ég alveg sammála — leggur til að frumvarp um lögleiðingu vatnatilskipunarinnar verði lagt fram um leið og frumvarpið um vatnalögin, þ.e. það frumvarp sem við erum að ræða um núna.

Síðan segir Umhverfisstofnun að breyta beri heiti þessa frumvarps þannig að það gefi betur til kynna efni þess. Þarna er ég alveg sammála. Mér finnst það í raun vera blekking og kasta ryki í augu fólks að þetta frumvarp skuli heita frumvarp til vatnalaga. Ég hygg að margir séu ósjálfrátt þeirrar skoðunar þegar þeir heyra þetta nafn að hér sé á ferðinni eitthvert frumvarp um lög varðandi stöðuvötn, eitthvað þess háttar. Þarna er markvisst verið að kasta ryki í augu fólks, blekkja að ég tel vera. Það er ljótur leikur að reyna að sigla frumvarpi í gegnum þingið undir fölsku flaggi. Fyrst þegar ég heyrði af frumvarpinu hélt ég að þetta væri meinlaust frumvarp sem fjallaði eitthvað um stöðuvötn eða eitthvað þess háttar og veitti því í sjálfu sér ekki mikla athygli, ekki fyrr en það kom hér inn og 1. umr. hófst um málið. Þá sá ég, strax og ég fór að lesa frumvarpið, hvað hér var á ferðinni en fram að þeim tíma gerði ég mér alls ekki grein fyrir því að hér væri um svona alvarlega hluti að ræða, einmitt vegna þess að nafnið á frumvarpinu blekkti mig.

Umhverfisstofnun segir að það sé mikilvægt að almannaréttur skerðist ekki og það verði tryggt með þessum lögum. Hér segir orðrétt, með leyfi forseta, að „telji Alþingi að einungis sé um formbreytingu að ræða varðandi skilgreiningu á eignarhaldi, og sé það ætlun þess að svo verði, telur Umhverfisstofnun að skilgreining sem byggir á orðalagi gildandi laga sé skýrari út frá sjónarmiði náttúrufræða og valdi minni óvissu í túlkun á almannarétti“.

Hér verð ég að segja, virðulegi forseti, að ég túlka þetta með þeim hætti að ekki einu sinni Umhverfisstofnun láti blekkjast af þeim fagurgala stjórnvalda í þessu frumvarpi að hér sé bara formbreyting á ferð. Davíð Egilson forstjóri sem skrifar undir þetta og Helgi Jensson forstöðumaður sjá að hér er svikinn héri á ferð og að hér verði að staldra við og bæta um betur.

Umhverfisstofnun skilar ágætri greinargerð með þessari umsögn sem fylgir hér með sem fylgiskjal í minnihlutaáliti iðnaðarnefndar og ég ætla svo sem ekkert að fara mikið í það en bendi þó á að Umhverfisstofnun leggur til að þessi lög verði látin heita Lög um eignarhald, skynsamlega og hagkvæma stjórnun vatnamála og sjálfbæra nýtingu vatns eða Lög um eignarhald og sjálfbæra nýtingu vatns eða hreinlega Lög um eignarhald og stjórnun vatnamála. Þarna er ég alveg hjartanlega sammála. Það hefði verið miklu heiðarlegra að gera þetta með þessum hætti. Það á að gefa hlutunum rétt nöfn. Það á ekki að koma með lög inn á hið háa Alþingi og reyna að blekkja fólk með því að skíra þau einhverjum heitum sem ekki gefa til kynna hvert innihaldið er. Það er einfaldlega ekki góð lexía að mínu mati, alls ekki til fyrirmyndar og þinginu hreinlega til vansa.

Annað í þessari umsögn Umhverfisstofnunar. Stofnunin bendir á að hún hafi efasemdir um skilgreininguna, hún „hefur efasemdir um að skilgreining til hvaða hlutar vatns eignarréttur landeiganda nær yfir sé skýrari en í gildandi lögum“. Hún bendir á að nýtingarréttur sé stærsti hluti eiginlegs eignarréttar og því sé breyting á nýtingarrétti, ásamt þessari dómaframkvæmd sem við höfum haft, yfir í eignarrétt formbreyting frá sjónarmiði lögfræðinnar. Stofnunin bendir hins vegar á að það skekki myndina að í frumvarpinu sé verið að skilgreina til hvers eignarrétturinn taki, þ.e. til hvaða hluta vatns hann nái. Við sjáum í 2. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“

Þetta finnst mér afskaplega víðtæk skilgreining á gildissviði laganna. Ég mun koma að því nánar á eftir en síðan er í 4. gr. hnykkt á þessum eignarrétti og sagt:

„Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“

Þarna á milli er himinn og haf, þ.e. milli 2. gr. sem talar um gildissviðið og síðan 4. gr. sem talar um eignarrétt á vatni og gömlu laganna. 2. gr. gömlu laganna hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég fæ engan veginn skilið að ekki sé um efnisbreytingu að ræða, ekki sé hér um algera grundvallarbreytingu að ræða. Nú skal það svo sem vel viðurkennt að sá sem hér stendur kann að vera takmarkaður að því leyti að ég er ekki lögfræðimenntaður maður. Ég er bara ósköp lítill og vesæll fiskifræðingur og hef aldrei stúderað lög og lagatexta af neinu viti þannig að það má vel vera að það geri mig, hvað eigum við að segja, hálfvangefinn í þessum efnum. Ég hef kannski ekki þá innsýn og þá mikilvægu þekkingu sem þarf til til að skilja hvað hér er á ferðinni en ég verð hins vegar að segja það og vil að það sé fært til bókar að ég er sæmilega læs og reyni að beita mínu takmarkaða hyggjuviti til að skilja þessa lagatexta sem liggja fyrir okkur á hverjum tíma og beita síðan þessu hyggjuviti til að reyna að draga réttar ályktanir af því sem ég les. Ég er uppalinn við það að maður skuli trúa laganna hljóðan eins og hún stendur á pappírnum, reyna a.m.k. að hafa það að einhvers konar leiðarsnúru í öllum þeim lagafrumskógi sem við glímum við. Ég fæ engan veginn séð að hér sé um neitt annað að ræða en grundvallarbreytingu frá gömlu lögunum og ég kemst hreinlega ekki yfir það. Menn verða að virða það við mig að ég skuli ekki geta skilið það sem hæstv. forsætisráðherra og nokkrir af fulltrúum stjórnarliða í hv. iðnaðarnefnd hafa verið að reyna að troða í þingið ásamt hæstv. iðnaðarráðherra, þ.e. að hér sé ekki um neina efnisbreytingu að ræða, hér sé aðeins verið að breyta um form til að fullnægja einhverjum lagalegum tækniatriðum, dómaframkvæmd eða öðru þess háttar. Ég fæ ekki skilið það og eins og ég segi verða menn bara að virða það við mig.

Mér finnst Umhverfisstofnun benda á svolítið athyglisverðan punkt í umsögn sinni um það sem segir í 2. gr. um gildissvið þar sem segir, með leyfi forseta:

„Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“

Umhverfisstofnun bendir á það sem ég sagði í upphafi máls míns, að vatnið sé á stöðugri hringrás í náttúrunni í formi vatns, gufu, raka og annars þess háttar. Hún bendir einnig á að skilgreiningin samkvæmt laganna hljóðan feli í sér að eignarréttur landeiganda nái til vatnsins á meðan það rennur um jörðina en að eignarrétturinn nái þá líka til þokunnar sem snertir jörðina, þ.e. á meðan þokan snerti jörðina sé hún samkvæmt þessum lögum eign landeigandans, en um leið og þokan er komin í loftið og snertir ekki lengur jörðu er hún ekki lengur eign, því að þoka er náttúrlega ekkert annað en raki sem hefur þést og myndar þoku, ekki satt? Ég skyldi halda það. Eignarréttur á vatninu samkvæmt því frumvarpi sem nú liggur fyrir mundi þá ná til slyddu, krapa og snævar sem liggur á jörðinni en ekki til úrkomunnar á meðan hún fellur, þ.e. menn eiga ekki regnið meðan það fellur en um leið og regndropinn snertir jörðina eiga menn regndropann. Þetta eru skrýtin lög. Mér finnst þetta skrýtið og alveg stórmerkilegt. Svo er bent á að spurning vakni um hvernig tekið sé á eignarrétti á vatni sem leitt er í gegnum fasteign í farvegi, göngum, leiðslum frá lóni að stöðvarhúsi, og öðrum tæknilegum atriðum.

Svona undarleg atriði fá mann til að staldra við og velta fyrir sér hvort þetta frumvarp sé í raun og veru tækt til að verða að lögum. Þetta er einn af mörgum þáttum í þessu frumvarpi sem gerir það að verkum að maður fyllist mjög miklum efasemdum og verður, svo maður tali hreina íslensku, nánast skíthræddur við að eiga nokkurn þátt í því að þetta frumvarp verði að lögum, ef það verður að lögum. Mér finnst það vera svo illa hugsað og vitlaust að við verðum að skoða það betur. Við verðum að hugsa þetta svolítið betur og átta okkur aðeins á hvert við erum að fara ef við ætlum að innleiða þessi eignarhalds- og eignarréttarákvæði í þetta frumvarp til vatnalaga, sem ég mun aldrei nokkurn tíma samþykkja, eða að það fari í gegn með þessum eignarréttarákvæðum. Mér finnst þetta alveg víðáttuvitlaust og mun aldrei nokkurn tíma segja já við þessu, aldrei. Fyrr skal ég dauður liggja, eins og ég sagði hér um daginn.

Umhverfisstofnun bendir líka réttilega á, og þar komum við að því sem ég nefndi áðan, að það virðist vanta samræmingu í mikilvægum hugtökum eins og landareign og fasteign í lögum þar sem nýting vatns kemur fyrir. Stofnunin bendir á að hugtakið fasteign virðist á einhvern hátt vera öðruvísi skilgreint í því frumvarpi sem nú hefur verið dreift í þinginu um lax- og silungsveiði sem ég nefndi áðan. Þarna tel ég, virðulegi forseti, að við þurfum að lesa saman lagatextana og skoða hvort hér reki sig ekki hvert á annars horn, þ.e. hið svokallaða frumvarp til vatnalaga og síðan þessi frumvörp eða lagabálkar sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur loksins skilað af sér inn í þingið og okkur gefst vonandi tími til að ræða í 1. umr. þegar okkur hefur tekist að komast að samkomulagi um að því frumvarpi sem við ræðum núna verði vísað frá til betri meðferðar.

Ég læt umfjöllun minni um umsögn Umhverfisstofnunar lokið, virðulegi forseti. Hér eru fleiri umsagnir, til að mynda umsögn frá Náttúrufræðistofnun Íslands og þar eru líka skynsamir menn sem sjá augljósa meinbugi á þessu. Þar er t.d. bent á þá miklu sérstöðu vatnsins að það sé á sífelldri hringrás um heiminn eins og ég benti á áðan, á sífelldri hringrás um bláa hnöttinn, og þar af leiðandi algjörlega ólíkt öllum öðrum jarðrænum auðlindum. — Nú gengur hv. formaður iðnaðarnefndar í salinn og ég harma það að hann skuli ekki hafa hlustað áðan á stórmerkan fyrirlestur minn um efnafræði vatns og gildi þess í náttúru Íslands og fyrir jörðina alla. (BJJ: Ég fæ útskrift.) En við getum kannski lesið saman síðar, ég og hann, söguna af bláa hnettinum. Þar er ágætisumfjöllun um … (Gripið fram í: Það er spurning um að endurtaka það.) Það er spurning um að endurtaka það og byrja upp á nýtt.

Landvernd, þau merku samtök eru líka með ágæta umsögn um frumvarpið og benda á að í því er ekkert fjallað um mengunarvarnir, hollustu, náttúruvernd, almannarétt og nýtingu lífrænna auðlinda. Það er að sjálfsögðu fjallað um það í öðrum frumvörpum, eins og hinu nýja um lax- og silungsveiði, en ég ítreka enn og aftur að ég tel að það sé mjög mikilvægt að þessi lög séu öll lesin saman. Ég hefði gjarnan viljað sjá að þessi frumvörp færu í gegnum þingið samtímis, þ.e. frumvarp til vatnalaga og öll þau frumvörp sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur lagt fram.

Stjórn Landverndar leggur áherslu á að óháð því hvernig eignarhald á vatni verði skilgreint í þessum lögum — sem er stóra deilumálið hjá okkur núna — verði að gera þau þannig úr garði að aldrei fari á milli mála að öllum sé tryggður aðgangur að heilnæmu vatni til heimilishalds og bústarfa. Þar stendur aftur hnífurinn í kúnni og mun ég koma að því aðeins síðar þegar við skoðum umsagnir frá Bændasamtökunum. Þeir benda einmitt á mjög alvarlegan galla við þetta frumvarp eins og það lítur út í dag.

Veiðimálastjóri, Árni Ísaksson, bendir líka á að í þessu frumvarpi virðist alveg skorta eða að lítið sé fjallað um hvaða áhrif vatnsveitur og virkjanir hafi á lífríki og fisktegundir. Þarna erum við enn og aftur komin að atriði sem vekur upp spurningar um hvernig það frumvarp sem hér liggur fyrir samræmist frumvarpi hæstv. landbúnaðarráðherra, nýju frumvarpi um lax- og silungsveiði. Fyrst hv. formaður iðnaðarnefndar er í salnum væri kannski ekki úr vegi að spyrja hann að því hvort hann hafi lesið þessi frumvörp saman og athugað hvort þau skarist á einhvern hátt eða hvort meinbugir séu á þessu frumvarpi í samanburði við frumvarpið um lax- og silungsveiði, eða hvort einhverjir aðrir hafi kannað þann möguleika. Ég er ekki viss um að svo sé vegna þess að ég held að alls óháðir aðilar hafi komið að samningu nýja frumvarpsins um lax- og silungsveiði og aðrir að samningu nýja frumvarpsins svokallaða um vatnalög. En þetta mun væntanlega koma í ljós, jafnvel nú á vordögum því eins og ég sagði áðan vona ég að við munum frekar fyrr en síðar geta farið að fjalla um nýja frumvarpið um lax- og silungsveiði. Kem ég þá einmitt að umsögn Landssambands veiðifélaga sem dagsett er 27. nóvember 2005. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Það er fráleitt að mati LV að nú, þegar vatnalögin eru endurskoðuð, sé algjörlega skautað fram hjá stjórnsýslu veiðimála sem mótuð hefur verið undanfarna áratugi á grundvelli laganna um lax- og silungsveiði.“

Síðan segir svo:

„LV gerir kröfu um aðkomu að stjórnsýslu veiðimála í lögum þessum, þar sem það á við, með vísan til núgildandi laga um lax- og silungsveiði.“

Kem ég þá að umsögn Bændasamtaka Íslands. Þau hafa farið yfir frumvarpið öðru sinni, skiluðu líka umsögn í mars í fyrra en þessi umsögn er dagsett 28. nóvember 2005. Bændasamtökin gera alvarlegar athugasemdir við nokkra þætti þessa frumvarps. Sú sem ég hnýt strax um er búsþarfir, af því að ég er áheyrnarfulltrúi í landbúnaðarnefnd og hef verið það undanfarin ár og tók þátt í að semja ný búnaðarlög og við skilgreindum m.a. hvað hugtakið landbúnaður þýðir. Það var rætt mjög ítarlega í landbúnaðarnefnd á sínum tíma, ég man eftir að við sátum á fundum og skilgreindum það og við komumst að því að hugtakið landbúnaður merkti — í þeim lögum sem við vorum að tala um, jarðalögum, nr. 81/2004 — „hvers konar vörslu, verndun, nýtingu og ræktun búfjár, ferskvatnsdýra, lands og auðlinda þess til atvinnu- og verðmætasköpunar, matvælaframleiðslu og þjónustu er tengist slíkri starfsemi“.

Hér er talað um í frumvarpi til vatnalaga að hugtakið búsþarfir, sem kemur fram í lögunum, þýði búsþarfir til kvikfjárræktar. Bændasamtökin eru að sjálfsögðu ósátt við þetta og vilja miklu frekar að hugtakið búsþarfir verði skilgreint sem búsþarfir til landbúnaðar og þá með vísan til þeirrar skilgreiningar sem er að finna í jarðalögum. Ég er alveg sammála þessu. Mér finnst þetta mjög mikilvægt atriði. Hér má ekki ganga á rétt bænda og þar af leiðandi tel ég að hugtakið búsþarfir í þessu frumvarpi eigi þá einmitt að vera skilgreint sem búsþarfir til landbúnaðar. Um þetta á ekki að vera nein spurning. Það er alveg út í hött að hér sé eingöngu talað um þarfir til kvikfjárræktar því að við vitum að landbúnaður er svo miklu meira en bara kvikfjárrækt í dag. Þessu verður að breyta, það er ekki spurning. Það er alveg sama hvaða form þessi lög fá, þegar upp verður staðið verður að breyta þessu.

Hér er svo bent á marga aðra þætti, t.d. netlög, hvað er stöðuvatn og vatnsmiðlun og talað um forgang að vatni, landamerki í stöðuvötnum, — miklar athugasemdir eru gerðar við þetta allt í frumvarpinu — mannvirkjagerð og tilkynningarskyldu til Orkustofnunar. Bændasamtökin hafa greinilega farið mjög ítarlega yfir þetta frumvarp enda miklir hagsmunir bænda í húfi. Þeir benda á ótal atriði en kvarta síðan yfir því í bréfi sem fylgir að athugasemdir þeirra hafi að engu verið hafðar og því sendi þeir þær aftur. Athugasemdir Bændasamtakanna, sem voru sendar inn í fyrra, hafa að engu verið hafðar.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst alveg með ólíkindum að hafa ítrekað heyrt framsóknarþingmanninn Birki Jón Jónsson, sem einnig er formaður iðnaðarnefndar, reyna að beita því fyrir sig, sem höfuðrökum eða réttlætingu fyrir því að þetta frumvarp með eignarréttarákvæðinu fari í gegnum þingið sem lög, að hér sé verið að verja hagsmuni íslenskra bænda sem Framsóknarflokkurinn ber svo mjög fyrir brjósti. Svo kemur það í ljós, virðulegi forseti, þegar við lesum umsögnina frá Bændasamtökum Íslands, að það hefur ekkert verið hlustað á bændur í þessu frumvarpi. Þær athugasemdir sem komu í fyrra hafa verið virtar að vettugi.

Hér er enn og aftur verið að leika mjög ljótan leik. Það verður að segjast eins og er að þetta er Framsóknarflokknum ekki til mikils sóma. Það er heldur ekki til mikils sóma að formaður landbúnaðarnefndar, hv. þm. Drífa Hjartardóttir, skuli heldur ekki rísa upp og mótmæla. Ég veit að hún, sjálf bóndakonan, ber hag bænda mjög fyrir brjósti. Ég þekki það sjálfur úr landbúnaðarnefnd þar sem ég hef unnið með henni undanfarin tvö ár að hún ber hag bændastéttarinnar fyrir brjósti. Mér finnst það alveg með ólíkindum að hún skuli ekki rísa upp og mótmæla því að hér skulum við vera með frumvarp sem varðar mjög hagsmuni íslenskra bænda en á að fara í gegn án þess að hlustað hafi verið á athugasemdir Bændasamtaka Íslands. Það hreinlega gengur ekki. Við getum ekki sett lög af þessu tagi án þess að hlusta að neinu leyti á mjög svo réttmætar athugasemdir Bændasamtakanna.

Umsögn frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins er, ef maður flettir umsögnunum þarna í bunkanum, fyrsta umsögnin sem er jákvæð og það finnst mér svolítið merkilegt. Það vakti athygli mína að bæði Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins eru sammála þeirri stefnu sem fram kemur í frumvarpinu og tryggir eignarrétt landeigenda á vatnsauðlindinni á sama hátt og gildir um aðrar auðlindir. Tökum eftir þessu. Tryggir eignarrétt landeigenda á vatnsauðlindinni, segja Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins. Er hægt að segja þetta skýrar? Hvernig geta stjórnarþingmenn komið hér aftur og aftur, meira að segja hæstv. forsætisráðherra, og þrætt fyrir það að hér sé breyting á ferð þegar Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins segja þetta með svo skýrum hætti og segjast vera sammála þeirri stefnu sem fram kemur í frumvarpinu? Ef þeir segjast vera sammála þeirri stefnu sem fram kemur í frumvarpinu er þá ekki um að ræða nýja stefnu sem er ólík því sem kom fram í gamla frumvarpinu? Liggur það ekki í orðanna hljóðan að Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins viðurkenna hreinlega, og það meira að segja fúslega, að hér sé um ákveðna stefnubreytingu að ræða í nýju lagafrumvarpi sem þeir vonast til, ég fæ ekki betur séð á orðanna hljóðan í þeirra umsögn, að verði að lögum sem allra fyrst. Þau eru sammála þessu og þetta tryggir eignarrétt landeigenda á vatnsauðlindinni á sama hátt og gildir um aðrar auðlindir og í því sambandi er bent á lög um auðlindir frá 1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. — Mér er tjáð að það frumvarp hafi verið samþykkt frá hinu háa Alþingi og verði að teljast mjög alvarleg mistök að það skuli hafa náð í gegn á sínum tíma. — Ég skal svo sem ekki segja meira um það en ég vænti þess að aðrir stjórnarandstöðuþingmenn komi hér upp og greini nánar frá því hvað liggi í því frumvarpi. Ég er alveg sannfærður um að fleiri þingmenn eiga eftir að hnjóta mjög um þessa umsögn frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins því það verður að segjast eins og er að þar kemur strákurinn Tumi upp um sig. Það hefði verið afskaplega fróðlegt að hafa hér í salnum bæði hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. forsætisráðherra til að gefa okkur nánari skýringar á því hvað þessi tvö samtök eru að fara í sinni sameiginlegu umsögn sem er dagsett 28. nóvember sl.

Hér er, virðulegi forseti, kominn enn einn punkturinn sem gerir það að verkum að það er hreinlega ekki hægt að fallast á að þetta frumvarp fari í gegnum þingið. Það er ekki hægt. Ég hef sagt það áður og ég segi það enn: Það er okkar heilaga skylda í stjórnarandstöðunni að benda á þessa miklu meinbugi. Það er líka okkar heilaga skylda að sjá til þess að þau skilaboð komist með óyggjandi hætti út í þjóðfélagið til fólksins í landinu, til þjóðarinnar sem hefur kosið okkur til trúnaðarstarfa á hinu háa Alþingi. Það er okkar heilaga skylda að sjá til þess að þeim boðskap sé komið út til fólksins að verið sé að vinna mjög svo vafasaman verknað með því að keyra þetta frumvarp í gegnum þingið.

Ef við höldum áfram að skoða umsagnir — þetta er mikill bunki og langt mál að fara í gegnum. Ég ætla ekki að fara í gegnum það sem eftir er í smáatriðum, ég veit að aðrir stjórnarþingmenn, ef ég man rétt eru einir 15 stjórnarandstöðuþingmenn á mælendaskrá, munu fara yfir þessar umsagnir og benda á margt annað sem mér hefur kannski yfirsést. Það er af nógu að taka í gagnrýni á þetta frumvarp. Aðrir þingmenn munu benda á aðra ágalla sem ég tala ekki um.

Ég hnýt um erindi eða umsögn frá Orkustofnun sem mun fá mikilvægt hlutverk verði þetta frumvarp að lögum. Orkustofnun mun fá það hlutverk m.a. að viðhalda og reka gagnasafn sem verið er að undirbúa um vatnsból og vatnsöflunarsvæði. Það þarf að halda utan um þetta allt saman, allar þessar upplýsingar. Það þarf að halda utan um leyfi til framkvæmda, taka við tilkynningum um framkvæmdir, tilkynningum um rekstur á mannvirkjum, hvort reksturinn verði stöðvaður eða hvernig sem það er. Það þarf að halda utan um þetta allt saman. Mér finnst svolítið skrýtið að þetta muni einungis kosta um 3,5 millj. kr. á ári að mati Orkustofnunar. Ég hefði haldið að þetta yrði nokkuð dýrara en það. En þeir segja þetta. Hákon Aðalsteinsson skrifar undir og fullyrðir þetta og maður verður þá að taka það trúanlegt svo langt sem það nær.

Ég held að þetta dugi í bili. Þetta er fyrri ræða mín í þessu máli þannig að ég hef nógan tíma til að fara betur yfir þessar umsagnir síðar meir. Ég vil vekja athygli á umsögn frá Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa en þar er bent á að það eigi að breyta nafni frumvarpsins. Félagið leggur til að það verði kallað Lög um nýtingu vatnsauðlinda. Það má líka fallast á það því eins og ég sagði áðan þá er það nafn sem nú er á frumvarpinu mjög svo blekkjandi. Félag heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa fellst á, það sem er einnig mín skoðun, að hér sé á ferðinni grundvallarbreyting á því fyrirkomulagi sem tíðkast hefur í gildandi lögum varðandi eignarhald á vatni. Félagið er með það alveg á hreinu að hér sé verið að tala um að settur verði eignarréttur á vatnið og þetta sé grundvallarbreyting frá gömlu lögunum þar sem eingöngu var talað um nýtingarrétt. Félag heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Umrædd breyting getur haft þýðingu þar sem þar með eru vatnsréttindi orðin eign sem eins og aðrar eignir er hægt að selja, óháð annarri fasteign, s.s. landi og búi. Því getur komið upp sú staða að annar eigandi eða eigendur séu að landi og híbýlum en að vatnsréttindum á sama svæði og gæti það mögulega leitt til skerðingar á nýtingu vatns á svæðinu fyrir íbúa og búfé. Í frumvarpinu er kveðið á um að reynt sé að tryggja vatnsréttindi við skiptingu sameignarlands og þegar framseldur er hluti fasteignar sem liggur að vatni eða á. Kjósi eigandi vatnsréttar hins vegar í því tilviki, er vatnsréttur hefur verið seldur óháður sameign, að veita vatni annað eða krefjast hárrar gjaldtöku fyrir vatnsrétt af íbúum á fasteign gæti það leitt til skerðingar á þeim grundvallarmannréttindum að eiga aðgang að fersku vatni. Ákvæði sem miða að því að tryggja rétt fasteignareiganda til vatnstöku þarf að styrkja til að koma í veg fyrir þá hættu. Að mati félagsins væri eðlilegra að fasteignareigandi ætti eins og áður rétt til vatnstöku og nýtingu, ekki eignarrétt.“

Ég er alveg hjartanlega sammála þessu og ég vil halda áfram, með leyfi forseta. Hér segir:

„Þá hlýtur eignarréttur á vatni sem um fasteign rennur að hafa í för með sér aukna ábyrgð eiganda vatnsins. Þar sem vatnsföll og grunnvatnsstraumar liggja oft um margar landareignir getur skaði sem einn fasteignareigandi veldur á sinni fasteign haft umtalsverð áhrif á vatn á eign annarra. Óhófleg vatnstaka, spilling vatns með mengun, bæði örveru- og efnamengun eða breyting á farvegi áar á einum stað getur valdið skaða á eignum fjölda aðila. Ákvæði laganna ná ekki að marka ábyrgð eiganda vatnsréttinda í slíkum tilvikum. Hér gæti einn aðili sem á land við upptök vatnsfalls gert vatnstöku annarra eigenda sama vatnsfalls ómögulega. Skýra þarf skaðabótaskyldu viðkomandi vatnsréttareiganda í slíkum tilvikum, enda ætti hann sem eigandi vatnsins hér fulla ábyrgð.“

Ég spyr: Þarf að segja þetta eitthvað skýrar? Ég held ekki. Félag heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa er félagsskapur fólks sem hefur mikið vit á vatni ef svo má segja, fólks sem hefur atvinnu sína af því m.a. að fylgjast með því að vatnið sem við drekkum sé í lagi. Þetta er hámenntað fólk. Ég hygg að þetta fólk viti hvað það er að tala um og mér finnst þessi umsögn afskaplega áhugaverð.

Þá er einnig fjallað um fráveitur, að gert sé ráð fyrir í þessu frumvarpi að fráveitur séu í höndum sveitarfélaga. Það séu grundvallarbreytingar á gildandi reglum því að þær geri ráð fyrir að eigandi fasteignar sem fráveita sveitarfélags nær ekki til sé skyldugur til að setja niður rotþró með siturlögn. Hér er talað um sveitabýli, sumarhús og litla byggðarkjarna. Ég er enginn sérfræðingur í ræsismálum og hlýt að taka þetta trúanlegt eins og það kemur fram á pappírnum og læt þar með lokið athugun minni á umsögn heilbrigðisfulltrúanna.

Hér er einnig umsögn frá BSRB og Samtökum starfsfólks fjármálafyrirtækja; Ungmennafélagi Íslands, Landssambandi eldri borgara, Kennarasambandi Íslands, Menningar- og friðarsamtökum íslenskra kvenna, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Öryrkjabandalaginu. Þessi samtök lögðu fram sameiginlega yfirlýsingu sem var m.a. til umfjöllunar á ráðstefnu sem haldin var í lok október. Ég tók þátt sem fulltrúi Frjálslynda flokksins í þeirri ráðstefnu, þ.e. „Vatn fyrir alla“. Þessi sameiginlega yfirlýsing hefur verið lesin upp áður í ræðustól. Ég ætla svo sem ekki að þreyta þingheim með því að lesa hana upp líka. Það er afskaplega skýr og skorinorð yfirlýsing. Ef ég man rétt hefur Alþýðusamband Íslands líka undirritað þessa yfirlýsingu.

Þetta er hálfgerð mannréttindayfirlýsing um mikilvægi vatnsins. (SigurjÞ: Þeir gera ekkert með þetta.) Nei, þeir gera ekkert með þetta þótt á ferðinni séu mjög fjölmenn félagasamtök á Íslandi sem sendu frá sér þessa yfirlýsingu. Það er eins og það skipti engu máli og lítið er gert úr því. Þessi fjölmennu félagasamtök eru lítilsvirt með sama hætti og Bændasamtökin og ekkert mark tekið á því sem frá þeim kemur. Það er að sjálfsögðu mjög alvarlegt að ekki skuli hlustað á þetta. Það eitt og sér, að stjórnarliðar skuli hunsa þetta, er fullt tilefni til þess að við erum nánast komin í algert stríð í sölum Alþingis út af þessu máli. En það er svo sem allt í lagi. Ég er klár í það og ætla ekkert að draga neitt af mér í því. Ég hef nægt úthald til að standa keikur í þeim slag.

Ég mun kannski koma nánar að þætti áðurnefndra félagasamtaka í seinni ræðu minni. En eins og ég sagði áðan var ég á þessari ráðstefnu. Þar lýsti ég því yfir að ég teldi að í raun ætti að innleiða þetta í stjórnarskrá, að vatnið væri sameiginleg auðlind allrar þjóðarinnar samkvæmt stjórnarskrá. Ég mun reyna að leggja til að þetta verði hreinlega tekið fyrir í stjórnarskrárnefndinni, sem nú er að störfum, að sett verði inn ákvæði í stjórnarskrá um það að vatnið verði þjóðarauðlind, með svipuðum hætti og þær hugmyndir sem hafa verið uppi um að sett verði í stjórnarskrá að fiskimiðin séu í raun sameign þjóðarinnar.

Ég man ekki betur en hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson, sem leggur á það ofuráherslu að þetta frumvarp til vatnalaga fari í gegnum þingið og verði að lögum, hafi sjálfur lýst því yfir að hann mundi sjálfur nánast prívat og persónulega, eða flokkur hans, beita sér fyrir því að slíkt ákvæði yrði í stjórnarskrá, um það að fiskimiðin væru sameign þjóðarinnar. En það virðist gilda eitthvað annað um vatnið þó að vatnið sé í raun á margan hátt miklu mikilvægara fyrir okkur Íslendinga en fiskurinn í sjónum, að því leyti að ef það væri ekkert vatn þá gætum við ekki lifað. Við gætum kannski dregið fram lífið án þess að hafa fiskinn þannig lagað séð en án vatns er ekkert líf. Flóknara er það ekki.

Ég hef, virðulegi forseti, lokið við það að skauta yfir þessar umsagnir, a.m.k. í bili. Þetta með eignarréttinn hefur komið til umræðu í nokkrum af þessum umsögnum. Það kemur eins og ég benti á mjög skýrt fram og kannski einna skýrast fram einmitt í umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins. Þeir eru með það á hreinu að hér er um að ræða grundvallarstefnubreytingu varðandi vatnið, nýtingu þess og ekki síst eignarhald á því. Það er einmitt fróðlegt að velta fyrir sér eignarhaldinu og eignarréttinum og eign á vatni.

Fluttar hafa verið margar lærðar ræður um eignarrétt og eignarhald á hinu og þessu í gegnum tíðina. Ég hef skemmt mér við að lesa svolítið merkilegt rit sem heitir Samfélagssáttmálinn og er eftir franska heimspekinginn Jean-Jacques Rousseau sem var uppi á 18. öld. Þetta er grundvallarrit í pólitík, eitt af þessum smáritum sem Hið íslenska bókmenntafélag hefur gefið út nokkra undanfarna áratugi af miklum myndarskap í afskaplega vönduðum þýðingum. Mörg þeirra eru skemmtileg aflestrar og góð í smáskömmtum. Þetta getur verið hálftyrfinn texti, heimspekirit, rit um pólitík og annað þess háttar. Rousseau skrifaði svolítið um eignarréttinn og um eignir. Af því að ég ætla að fjalla svolítið um það og hvað hér geti hugsanlega legið að baki, sérstaklega í ljósi umsagna frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, langar mig að lesa stuttan texta úr þessu riti, Samfélagssáttmálanum eftir Rousseau, 9. kafla sem ber nafnið „Um eignir“. Hann hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Sérhver meðlimur samfélagsins gefur sig því á vald um leið og það myndast. Hann gefur sjálfan sig eins og hann er á þeirri stundu, með öllum mætti sínum og eignum, sem raunar eru hluti máttarins. Að vísu er því ekki svo farið að við þessa athöfn breyti eignir um eðli, skipti um hendur og verði eign fullveldisins. En líkt og máttur borgríkis er ólíkt meiri en máttur einstaklings eru eignir hins opinbera í raun miklu sterkari og tryggari í sessi án þess þó að vera lögmætari, að minnsta kosti í augum útlendinga. Vegna samfélagssáttmálans ræður ríkið yfir öllum eignum þegna sinna, enda er hann undirstaða allra réttinda í ríkinu. Gagnvart öðrum ríkjum hefur ríkið þó ekki slík yfirráð yfir eignum þegnanna nema í krafti þess sem kemur fyrstur á vettvang; og þann rétt þiggur ríkið af einstaklingum.

Réttur þess sem kemur fyrstur á vettvang á meiri stoð í raunveruleikanum en réttur hins sterka, en verður samt ekki sannur réttur fyrr en stofnað hefur verið til eignarréttar. Sérhver maður hefur af náttúrunnar hendi rétt til alls þess sem hann vanhagar um, en athöfnin sem gerir hann að eiganda einhvers og útilokar hann frá því að eiga nokkuð annað. Hlutur hans hefur verið ákvarðaður og honum ber að einskorða sig við hann. Hann á ekki lengur kröfu til neins gagnvart samfélaginu. Af þessum sökum er réttur þess sem fyrst kemur máttvana í ríki náttúrunnar, en virðingarverður í augum siðmenntaðra manna. Virðingin sem honum hlotnast á einkum rætur að rekja til þess sem ekki tilheyrir manni sjálfum, fremur en til þess sem tilheyrir öðrum.

Almennt verður að uppfylla eftirfarandi skilyrði, eigi að vera hægt, á tilteknu svæði, að heimila rétt þess sem kemur fyrstur. Í fyrsta lagi má enginn vera fyrir á svæðinu; í öðru lagi má ekki eigna sér meira en það sem maður hefur þörf fyrir til að lifa af; í þriðja lagi verður að helga sér eignina með vinnu og ræktun, en ekki með hégómlegri athöfn. Skorti lagalegar heimildir eru vinna og ræktun einu merki eignar sem öðrum ber að virða.

Er annars hægt að komast lengra með rétt þess sem kemur fyrstur en að láta þörf og vinnu ráða? Verður komist hjá því að setja honum mörk? Nægir að stíga fæti á sameiginlegt svæði og segjast þar með ráða yfir því. Ráði maður yfir þeim styrk sem þarf til að fæla aðra menn frá nægir það þá til þess að réttur þeirra til svæðisins sé að eilífu frá þeim numinn? Er það ekki refsivert eignarnám þegar maður eða þjóð tekur til sín gríðarlegt landsvæði eða sviptir mannkynið öllum rétti til þess ef aðgerðin girðir fyrir það að aðrir menn fái notið dvalar eða næringar sem náttúran gefur öllum sameiginlega?“

Er það ekki refsivert eignarnám þegar maður eða þjóð tekur til sín gríðarlegt landsvæði og sviptir mannkynið öllum rétti til þess ef aðgerðin girðir fyrir að aðrir menn fái notið dvalar og næringar sem náttúran gefur öllum sameiginlega? Já, þetta var skrifað í Frakklandi um miðja 18. öld. Þetta rit hefur alla tíð verið álitið eitt af klassískum ritum í stjórnmálafræði og heimspeki. Það er á margan hátt mjög merkileg ritgerð og áhugavert að lesa bókina á síðkvöldum, þegar maður er að ná sér niður eftir erfiðan dag í þinginu.

Eignarhaldið á þessari náttúruauðlind, vatni. Getum við leyft okkur að skilgreina með þeim hætti sem liggur fyrir í frumvarpi þessu, eignarhald á vatni? Það var til umræðu á hinu háa Alþingi þegar vatnalögin voru sett. Ég hef gluggað svolítið í ræður þingmanna frá þeim tíma, þ.e. árinu 1923, rétt áður en það frumvarp varð að lögum. Þá var hér þingmaður sem hét Sveinn Ólafsson, fæddur í Firði í Mjóafirði árið 1863, hann lést sumarið 1949. Hann var bóndi en hafði m.a. stundað nám í Noregi, á Möðruvöllum og einnig í Danmörku. Hann var þingmaður um margra ára skeið, þ.e. frá 1916–1933. Hann var meira að segja varaforseti Sameinaðs þings 1920–1923, einmitt þegar vatnalögin sem eru í gildi voru samþykkt. Hann var líka í hinni svokölluðu fossanefnd sem mér skilst að hafi unnið mjög að þessu gamla frumvarpi sem enn er í fullu gildi og hefur dugað okkur vel í 83 ár. En hann sagði þá m.a. á þingfundi, fimmtudaginn 3. maí, í neðri deild að ég hygg, 1923, með leyfi forseta:

„Það má með sanni segja að vatnamálið sé gamall gestur á þingi. Það hefur gist hvert þing frá 1917 að einu undanskildu, þinginu 1918. Ekkert annað mál hefur verið hér jafnþaulsætið, ekkert mál jafnþungt í vöfum og vandhæfismikið enda er meðferð þess orðin dýrari en nokkurs annars máls á þessu tímabili. Ég hygg að ég fari rétt með þegar ég giska á að meðferð þessa máls hafi kostað 90–100 þús. kr. fram að þessu. Það mun ekki misminni hjá mér að störf milliþinganefndarinnar“ — þ.e. fossanefndar, sem hann var í“ — og utanför hennar hafi kostað 60–70 þús. kr. Ekki mun of mikið í lagt að meta kostnaðinn og alla fyrirhöfn við þetta mál á þeim fimm þingum sem það hefur legið fyrir 20 þús. kr.

Vitaskuld er þetta mál fyrirferðarmikið og margþætt og margs að gæta við afgreiðslu þess. Svo hefur líka farið í öllum nágrannalöndunum, að svipuð vatnalöggjöf hefur tekið langan tíma. Hér hefur drátturinn á afgreiðslu þessa máls ekki stafað svo mjög af þeim erfiðleikum sem þar hafa tafið því frá öndverðu höfðum vér fyrirmyndir í löggjöf nágrannaþjóðanna. Þess vegna gat starfið orðið auðveldara hér að styðjast mátti við lög þeirra í þessu efni.“

Hér bendir þáverandi þingmaður, Sveinn Ólafsson, sem var þá þingmaður Framsóknarflokksins, á að tekið hefði langan tíma fyrir Alþingi að setja þessi lög. Vatnamálið var þá þegar gamall gestur á þingi. Fimm sinnum tók þingið það til meðferðar, að einu ári undanskildu, árinu 1918 sem var mikið harðindaár. Þá geisaði spánska veikin og vera má að þeir erfiðleikar hafi að einhverju leyti haft þau áhrif að málið væri ekki tekið til umræðu en ég bendi á, með því að vitna í þessi gömlu ummæli, að þarna höfðu þingmenn augljóslega vit á því að vanda sig. Þeir voru ekki að flýta sér of mikið. Þeir vönduðu sig enda vissu þeir að lögin yrðu mikilvæg. Þeir þurftu að kljást við grundvallarspurningar, t.d. varðandi nýtingarrétt og eignarrétt. Þeir veltu því mjög vandlega fyrir sér hvernig þeir gætu komið þessu saman í lagabálk sem einhver sæmileg sátt gæti ríkt um í þjóðfélaginu. Þetta tók allan þennan tíma og mér finnst þess vegna með ólíkindum að við sem erum á þingi árið 2006 skulum ekki bera gæfa til þess að vanda okkur betur en frumvarpið sem hér liggur fyrir ber vitni.

Ég hygg að við ættum að hafa gömlu þingmennina okkur til fyrirmyndar í þessu efni eins og í mörgu öðru. Þegar ég les þessar gömlu þingræður, manna sem allir eru löngu liðnir, dáist ég að því hvað þeir hafa oft getað séð fram úr erfiðum álitamálum og hvað þeir hafa verið skynsamir á margan hátt. Mér finnst að við ættum að taka vinnubrögð þessara þingmanna til fyrirmyndar. Þrátt fyrir að liðin séu 83 ár og við höfum haft vatnalögin í gildi síðan þá hafa þau dugað okkur afskaplega vel. Samt sem áður megum við enn kljást við grundvallarspurningar, grundvallarspurningar sem ég hef farið yfir áður í ræðu minni og koma fram í frumvarpi til vatnalaga, eins og það er lagt fyrir þingið núna varðandi þætti eins og eignarréttinn.

Í framhaldi af öllu þessu hlýtur maður að velta því fyrir sér, virðulegi forseti, hvers vegna í ósköpunum eru menn að koma fram með þetta frumvarp núna, útbúa það með þeim hætti sem hér liggur fyrir, innleiða þessi markmið í lögunum um skýrt eignarhald á vatni og segja síðan orðrétt eins og segir í 4. gr. „Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“ Af hverju eru menn að þessu? Af hverju er ekki hægt að hafa þetta með svipuðum hætti og var í gömlu lögunum þar sem talað var um nýtingarrétt? Já, maður hlýtur að velta því fyrir sér en þegar maður fer að skoða þetta og hugsa þetta betur og lesa sér til um það hvernig þessum málum er háttað ekki bara hér á landi heldur líka úti í heimi þá rennur fljótlega upp fyrir manni ljós. Maður gerir sér grein fyrir því að þótt við Íslendingar séum vön að líta á vatnið sem sjálfsagðan og eðlilegan hlut, þá er það ekki svo úti í heimi.

Úti í heimi er víða skortur á vatni. Þetta rann upp fyrir mér með mjög svo sláandi hætti einmitt fyrir ári síðan, nánast upp á dag, þegar ég var staddur í Ísrael og Palestínu ásamt hópi annarra þingmanna héðan á Alþingi. Þar sáum við óyggjandi dæmi þess hversu mikilvæg auðlind vatnið er. Við fórum í dagsferð einn daginn frá Jerúsalem til Gólanhæða en Gólanhæðir eru fjallahéruð sem Ísraelsmenn lögðu undir sig, ef ég man rétt í Yom Kippur stríðinu árið 1973, landsvæði sem þeir tóku frá Sýrlandi og hafa haldið síðan. Ég skrifaði nokkra ferðapistla meðan ég var á ferðalaginu í Palestínu og Ísrael sem birtust á heimasíðu minni og á vef Frjálslynda flokksins, xf.is. Ég skrifaði þá yfirleitt á kvöldin þegar ég kom aftur til Jerúsalem, þá gekk ég frá hótelinu þar sem við bjuggum, hóteli í eigu Vatíkansins, yfir götuna og inn fyrir gömlu borgarmúrana í Jerúsalem, inn í gömlu borgina í Jerúsalem sem er á margan hátt nútímavædd þó að hún sé ævaforn og margra alda gömul og húsin og göturnar eftir því, en þá er hún nútímavædd á þann hátt að það var til að mynda hægt að komast í tölvur og þar var netkaffi svo hægt var að setjast niður og skrifa. Ég skrifaði pistlana á kvöldin og lagði beint út á netið heima á Íslandi, ferðasögur frá því að við vorum þarna. Ein grein, skrifuð 24. mars á síðasta ári, ber titilinn „Rigningarskattur hernámsþjóðar, dansað undir mannaveiðum og vegakerfi herraþjóðar“ en þar segir, með leyfi forseta:

„Við heimsóttum Gólanhæðirnar í gær, miðvikudag, og sáum rústirnar. Í bænum Mjdal shams, sem er þétt upp við sýrlensku landamærin eins og þau hafa verið þarna síðan 1973, hittum við fulltrúa fólksins sem hefur búið í Gólanhæðum frá örófi alda. Þetta fólk er af þjóðflokki drúsa, en það eru bændur og hirðingjar. Það lítur á sig sem Sýrlendinga og hafnar allri viðleitni Ísraelsmanna til innlimunar í ísraelska ríkið. Drúsarnir hafa þurft að þola marga raun síðan ógæfan dundi yfir árið 1967. Þá voru þeir um 130.000 í Gólanhæðum. Alls voru um 140 þorp og bæir á þessu svæði. Nú eru drúsarnir í Gólanhæðum aðeins um 20.000 talsins. Einungis fjögur þorp og bæir eru eftir, öll í grennd við sýrlensku landamærin.

Drúsarnir sögðu okkur að Ísraelsmenn hefðu jafnað öll þorp og býli þeirra við jörðu eftir sex daga stríðið. Íbúarnir voru hraktir á brott og flúðu flestir til Sýrlands. Í staðinn komu ísraelskir hermenn. Reynt var að fá ísraelska „landnema“ til að setjast að í Gólanhæðum en það mistókst herfilega, þeir höfðu ekki áhuga. Kannski af hræðslu við að Gólanhæðir verði afhentar Sýrlandi á nýjan leik sem skiptimynt í samningaviðræðum um varanlegan frið. Mikilvæg ástæða er einnig sú að Gólanhæða mun hvergi vera getið í Biblíunni. Það hefur einmitt verið notað sem röksemd eða réttlæting fyrir „landnámi“ Ísraelsmanna í landsvæðum Palestínumanna. Biblían nefnir stóra hluta Palestínu og það túlka ísraelskir ofsatrúarmenn á þann hátt að þarna sé land sem þeir hafi rétt á. Að þeir hafi undir höndum eins konar þinglýsingarskjal undirritað af Guði sem segi að þeir hafi rétt til að setjast að á þessu landi og eigna sér það og öll þess gæði. Þessi réttlæting dugar ekki í Gólanhæðum og því má spyrja sig hvers vegna Ísraelsmenn haldi þessu svæði sem með réttu tilheyrir aröbum, þ.e. Sýrlendingum og Jórdönum.

Sennileg skýring er að Gólanhæðir er mikilvægt úrkomusvæði þar sem snjór og rigning útvega vatn fyrir landsvæðin í Ísrael og Palestínu. Vatn er dýrmætasta auðlind Miðausturlanda og grundvöllur alls lífs. Þetta endurspeglaðist vel í því sem við sáum þegar við fórum um héruð drúsa sem eru flinkir bændur. Ísraelsmenn settu hömlur á vatnsnotkun þeirra til jarðyrkju og þá tóku þeir til sinna ráða, settu upp stór opin ker vítt og breitt um land sitt og í þau safna þeir rigningarvatni sem síðan er veitt á akurlöndin. Sagan segir að Ísraelsmenn hafi rekið upp stór augu. Þeirra viðbrögð voru að krefja drúsana um borgun fyrir regnið sem féll af himnum. Drúsarnir sem eru staðfastir og búa yfir mikilli samheldni sögðu hernámsþjóðinni að hoppa upp í þá líkamshluta á sjálfri sér þar sem sólin aldrei skín og fyrr skyldu þeir dauðir liggja en að fara að borga fyrir úrkomuna af himnum ofan.“ — Þarna verð ég að skjóta inn að orðalagið er svona — ja, sumir kannast kannski við það enda var það sá sem hér stendur sem skrifaði textann, en áfram skal haldið. — „Þar við situr. Vatnstankarnir bera hins vegar enn númer sem Ísraelsmenn krotuðu á þá til skráningar þegar þeir voru að undirbúa rigningartollinn.

Drúsarnir tóku okkur með kostum og kynjum. Þetta er aðdáunarvert fólk sem að hluta til býr innan um jarðsprengjur sem plantað hefur verið nánast ofan í húsagarða þess. Ísraelsmenn eru ávallt viðbúnir gegn innrás frá Sýrlandi og grunur leikur á að þeir geymi kjarnorkusprengjur í fjöllunum í Gólanhæðum sem hægt verði að hleypa af komi til stríðs. Mér þykir það frekar ólíklegt því þar með myndu þeir eyðileggja vatnsbirgðir sínar og geislavirkt vatn flæddi niður á láglendið þar sem Ísrael og Palestína liggja. En hver veit svo sem hvaða brjálæði hægt er að finna upp á hér?“

Þennan texta skrifaði ég um kvöldið þegar ég kom aftur til Jórsala, borgarinnar helgu, og var að reyna að tína saman þau áhrif sem ég hafði orðið fyrir í heimsókn okkar íslensku þingmannanna til drúsanna í Gólanhæðum. Þarna rann það í raun og veru upp fyrir mér með mjög svo óyggjandi og á vissan hátt átakanlegum hætti hvað það er í raun og veru sem gerir það að verkum að þessi mikli ófriður er alltaf fyrir botni Miðjarðarhafs. Jú, ófriðurinn stafar að verulegu leyti af því að menn eru að berjast um yfirráðin yfir vatni. Þarna kom það mjög glöggt fram hvernig hernámsþjóðin, þ.e. Ísraelsmenn höfðu lagt undir sig fjallahéruðin í Gólanhæðum þar sem úrkoman kemur niður, fellur úr skýjunum, regnið og snjórinn fellur niður, bráðnar og fer síðan í lækjum og ám niður á láglendið, til að mynda í ána Jórdan, hina heilögu á Jórdan sem markar landamærin á milli þess sem kallaður er Vesturbakkinn, sem er í raun og veru Palestína, og síðan landsins Jórdan sem er austan megin. Ísraelsmenn höfðu lagt þessi fjallahéruð undir sig einmitt til að tryggja að óvinir þeirra í Sýrlandi gætu ekki veitt vatninu sem rann úr hlíðum Gólanhæða niður á undirlendið fyrir neðan eitthvað annað og þar með tekið vatnið frá Ísrael. Þetta er meginástæðan fyrir því að Ísraelsmenn eru þar enn og eru ekkert á förum, eru enn hernámsþjóð ekki bara í Palestínu á Vesturbakka Jórdanar heldur líka á gömlum landsvæðum Sýrlendinga í Gólanhæðum. Það er baráttan um vatnið og ekkert annað sem gerir það að verkum að þarna er viðvarandi ófriðarástand sem í raun og veru er ekkert annað en púðurtunna sem hugsanlega verður kveikjan að næstu stórstyrjöld, ég ætla ekki að segja heimsstyrjöld, en næstu stórstyrjöld sem gæti orðið fyrir botni Miðjarðarhafs og það má spyrja sig að því hvort einmitt mörg þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir í Austurlöndum nær eigi ekki einmitt rætur að rekja til einmitt þessa, þ.e. hernámsins á Vesturbakka Jórdanar eða í Palestínu og síðan í Gólanhæðum.

En þarna sáum við hvernig þjóð sem taldi sig eiga vatnið, eða öfl sem töldu sig eiga vatnið hvað þau voru reiðubúin til að ganga langt til þess að innheimta tekjur, innheimta skatta. Þarna gengu Ísraelsmenn svo langt að þeir innheimtu skatta af rigningunni sem féll á jörðina þar sem þeir töldu sig eiga vatnsréttindin. Þá getum við farið að ímynda okkur, virðulegi forseti, hvert þetta frumvarp sem hér liggur fyrir getur í rauninni leitt okkur. Það eru einmitt svona hlutir sem gera það að verkum að ég er svo hræddur við þetta frumvarp. Það er nefnilega réttilega bent á að rigningin sem fellur til jarðar verður eign landeigandans þegar hún hefur snert jörðina. Dalalæðan sem liggur eftir landinu er eign landeigandans á meðan hún hefur snertingu við landið hans og við getum rétt reynt að ímynda okkur hvers konar villigötur eða ógöngur við Íslendingar getum ratað í ef við innleiðum þessi eignarréttarákvæði á vatninu. Mér virðist sú átakanlega reynsla sem við urðum vitni að þennan dag í Gólanhæðum geta vakið okkur til umhugsunar, hún vakti a.m.k. þann sem hér stendur til alvarlegrar umhugsunar. Við sáum líka önnur dæmi, okkur var sagt frá öðrum dæmum þarna í Palestínu um hvernig baráttan um vatnið er háð. Ísraelsmenn settu landnemabyggðir yfir staði þar sem þeir vissu að grunnvatn væri í jörðu, annaðhvort beint undir eða í nágrenninu, og reyndu síðan að beita ýmiss konar aðferðum, klækjum til þess að ná þessu grunnvatni til sín þannig að Palestínumenn gætu ekki notfært sér það. Palestínumenn þurftu að búa við viðvarandi vatnsskort. Þeir gátu búist við því hvenær sem var að Ísraelsmenn sem töldu sig eiga forgangsrétt á öllu vatni, mundu skrúfa fyrir vatnið hjá þeim án nokkurrar aðvörunar. Þetta var m.a. skýring á því að við sáum að búið var að setja vatnstanka á öll þök húsa í Palestínu. Þeir eru til að safna þar birgðum ef einhvers konar tímabil kæmi þar sem Ísraelsmenn þyrftu á miklu vatni að halda, kannski þurrkatímabil eða annað, þá þyrftu Palestínumenn að vera viðbúnir því að skrúfað væri fyrir vatnið hjá þeim í þeirra eigin landi vegna þess að herraþjóðin þyrfti vatn og þá yrðu Palestínumenn að reiða sig á vatnsskömmtun og vatnið sem þeim hefði þá tekist að safna í vatnstankana á þökum húsa sinna. Þetta er staðan þarna, virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að hafa mörg orð um það hvernig ástandið hlýtur þá að vera í mörgum öðrum löndum sem búa við viðvarandi vatnsskort.

Við vitum að vatnið er mjög víða afskaplega takmörkuð auðlind. Það er vatnsskortur mjög víða. Einungis 0,5% af vatnsforða jarðarinnar er ferskvatn. Það er ekki alltaf að við Íslendingar gerum okkur grein fyrir því. Aðeins 0,5% af vatnsforða jarðarinnar er ferskvatn og nú þegar búa fjölmörg lönd við viðvarandi skort á vatni. Þetta er staðreynd og er víða mjög mikið vandamál.

Aðrar þjóðir í nágrenni okkar hafa gert sér grein fyrir þessu. Ekki bara aðrar þjóðir heldur líka Sameinuðu þjóðirnar sem hafa skilgreint vatn þannig að aðgangurinn að því teljist hreinlega til grundvallarmannréttinda. Sameinuðu þjóðirnar hafa ályktað eða sagt sem svo að hver maður skuli eiga rétt á drykkjarvatni, en markaðsöflin eru dregin inn því þar er sagt drykkjarvatni á hóflegu verði. Enda er það þannig víða í mörgum löndum að vatn er takmörkuð auðlind og vatn er söluvara. Okkur Íslendingum kann að þykja þetta svolítið skrýtið en þannig er þetta.

Sameinuðu þjóðirnar lýstu því yfir árið 2003 að það ár væri ár vatnsins. Ég man ekki eftir því að lögð hafi verið sérstaklega mikil áhersla á það á Íslandi að árið 2003 væri ár vatnsins. En við Íslendingar hefðum kannski átt að leggja áherslu á það og einmitt beina athyglinni að því að við búum hér yfir afskaplega mikilvægri og dýrmætri auðlind sem er vatnið okkar.

Í dag býr rúmlega 1 milljarður manna við að hafa ekki góðan aðgang að drykkjarvatni. Þetta er viðvarandi og mikið vandamál, sérstaklega hjá hinum fátækustu. En þetta hefur líka leitt til þess að erlend stórfyrirtæki og auðhringir hafa notfært sér þá stöðu til að nánast arðræna fátækt fólk einmitt í þeim löndum sem búa við vatnsskort.

Það er nefnilega þannig að þeir sem hafa ekki aðgang að hreinu vatni í dag eru líka þeir sem eru fátækastir á jörðu. Fátækustu íbúar jarðar búa við viðvarandi vatnsskort. Þetta fólk hefur því miður alls ekki efni á að kaupa vatnið á frjálsum markaði og þarna eru fyrir hendi nú þegar í dag mikil og alvarleg vandamál. Talið er að tugþúsundir barna að minnsta kosti deyi á hverju ári vegna þess að þau fá ekki aðgang að hreinu vatni og þetta veldur þá allt of mörgum ótímabærum dauðsföllum.

Þetta var líka vandamál hjá okkur Íslendingum allt fram að upphafi síðustu aldar. Dæmi eru um að íslensk börn hafi við upphaf síðustu aldar eða á síðustu öld látist langt fyrir aldur fram vegna þess að heimili þeirra höfðu ekki aðgang að nógu góðu vatni. Börnin drukku vatn sem var sýkt, þau fengu t.d. taugaveiki og annað þess háttar. Fólk missti börnin sín hér á landi vegna þess að ekki var alls staðar aðgangur að nógu góðu og hreinu vatni. Þetta er sem betur fer ekki lengur vandamál hjá okkur, en því miður er þetta vandamál sérstaklega í þróunarlöndunum.

Við Íslendingar erum þannig í dag að við höldum að rigningin falli bara endalaust af himnum ofan og þetta sé endalaus auðlind. En það er ekki svo. Þetta er viðkvæm auðlind og við þurfum að vernda hana og þurfum að tryggja að hér hafi að sjálfsögðu allir aðgang að vatni, hreinu og góðu vatni, helst ókeypis eða því sem næst.

Ég minntist aðeins á það áðan hvernig erlend stórfyrirtæki hafa á margan hátt notfært sér neyð fólks. Dæmi eru um það, t.d. á Indlandi. Ég er hér með heimildir frá ráðstefnu þar sem norskur fyrirlesari hélt erindi einmitt um þetta. Kókakólafyrirtæki á Indlandi notaði svo mikið af vatni í ríkinu Kerala að á ákveðnum svæðum þar varð hreinlega vatnsskortur. Gosdrykkjaframleiðandinn tók allt grunnvatnið sem fólkið átti að hafa og mengaði síðan restina sem skapaði mikil vandamál. Önnur vandamál hafa komið upp í grennd við Las Vegas í Bandaríkjunum þar sem borgin notar svo mikið vatn við Nevada-eyðimörkina að Colorado-áin er nánast þurrkuð upp áður en hún nær landamærunum að Mexíkó, sem hefur síðan alvarlegar afleiðingar fyrir fólkið sem býr þeim megin landamæranna. Það er alveg augljóst að þegar svona vatnsskortur er úti í heimi þá geta styrjaldir hlotist af slíku og jafnvel af minna tilefni.

Sameinuðu þjóðirnar hafa gert það að markmiði að fyrir árið 2015 verði þeim fækkað um helming sem nú búa við vatnsskort í heiminum. Nú skal ég svo sem ekki segja til um hvort það gangi eftir en það er þó að minnsta kosti verið að reyna. Það er þá líka oft reynt þannig að vatnið er gert að markaðsvöru. Ef fólk vill fá vatn verður það að borga fyrir það. En þetta gerir það að verkum að það bitnar á þeim fátækustu því að þeir hafa ekki peninga til að kaupa vatn. Flóknara er það nú ekki.

Við Íslendingar og Norðmenn búum við svo stórkostleg auðæfi að við gætum sennilega séð um vatnsþörf heimsins eða að stórum hluta. Norðmenn segja að svo mikið sé af ferskvatni í Noregi að þeir geti í raun fullnægt eftirspurninni í heiminum fyrir drykkjarvatn. Þeir hafi svo mikið af ferskvatni að þeir geti fullnægt þeirri eftirspurn, þ.e. fimm lítrum á hverja persónu en talað er um að fimm lítra þurfi á hverja manneskju á hverjum degi. Ef talan er sex milljarðar manna þá hafi þeir nóg vatn til að geta gert þetta. Ég skal svo sem ekki segja til um hvort þetta sé rétt.

En ég hygg að hér á landi hafi menn í rauninni komið auga á að vatnið á Íslandi er mikilvæg auðlind og hægt sé að þéna á henni góðar fjárhæðir, vænar fúlgur fjár í framtíðinni. Það má til að mynda minna á, og það er ekkert leyndarmál, menn geta bara séð það með því að fara út á næstu bensínstöð að þar er verið að selja vatn í hálfslítra flöskum á rúmlega hundrað krónur. Fyrir hálfan lítra. Tvöhundruð kall fyrir lítrann og rúmlega það. Þetta segir manni að vatnið sem selt er á íslenskum bensínstöðvum í dag er helmingi dýrara en bensín. Það er helmingi dýrara en bensín, vatnið sem selt er á Íslandi, í landinu þar sem allt er fljótandi í vatni. Það að fólk á Íslandi sé reiðubúið að borga svona mikið fyrir vatn hlýtur að segja manni að ofboðsleg viðskiptatækifæri liggja einmitt í því að selja vatn. Ef hægt er að selja Íslendingum vatn, sem er svona svipað og selja eskimóum ís, og láta þá borga hundrað kall og rúmlega það fyrir hálfan lítra, rúmlega tvöhundruð kall fyrir lítrann, þá getur maður rétt ímyndað sér hvaða tækifæri hljóta að liggja í því ef hægt væri að koma á viðskiptasamböndum úti í hinum stóra heimi, fyrir íslenskt vatn.

Þarna hygg ég, virðulegi forseti, að hundurinn liggi kannski grafinn í því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Og Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins hafi svona með vissum hætti kjaftað af sér í umsögnum sem þau sendu inn með frumvarpinu, þar sem þau segjast vera sammála þeirri stefnu sem fram kemur í frumvarpinu og það tryggi eignarrétt landeigenda á vatnsauðlindinni á sama hátt og gildir um aðrar auðlindir, samanber lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þarna liggur hundurinn grafinn. Menn eru einfaldlega að slægjast eftir því að geta slegið eign sinni á vatnið. Slegið eign sinni á vatnið á Íslandi. Menn sjá þarna viðskiptatækifæri. Ég hygg og sagði það í ræðu á laugardag að menn væru í raun og veru að reyna að byrgja brunninn áður en barnið dytti ofan í hann, ef svo má segja, að setja strax lög um skýrt eignarhald á vatni áður en það rynni upp fyrir fleirum að hér er um stórkostlega auðlind að ræða.

Ég er búinn að vera þingmaður frá árinu 2003. Ég man enn vel eftir því að inn á borð þingsins kom einmitt frumvarp til laga um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess, ágætt frumvarp að mörgu leyti. Frumvarpið var lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi. Mér þótti þetta frumvarp svo merkilegt að ég hef varðveitt það í fórum mínum allar götur síðan þá og geymt það vel. Þarna voru menn strax veturinn 2003/2004 að setja lög um að vernda Þingvallavatn. Það lýsir á margan hátt mikilli framsýni að menn skyldu hafa gert þetta því að Þingvallavatn er mjög merkileg auðlind.

Með frumvarpinu fylgdi greinargerð sem dr. Pétur M. Jónasson skrifaði og heitir Um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Ég er með frumvarpið sem lagt var fram á 131. löggjafarþingi 2004/2005. Þá var það samþykkt loksins, ef ég man rétt. En í greinargerðinni sem dr. Pétur M. Jónasson skrifaði segir á síðu 15, með leyfi forseta, en millifyrirsögnin er Framtíðarvatnsból þjóðarinnar.

„Vatnasvið Þingvallavatns býr yfir miklu meiri auðlind en nokkurn hafði órað fyrir. Þannig er vatnið úr Vellankötlu frá miðöldum eða jafnvel miklu eldra. Eitt stærsta háhitasvæði Íslands er Hengilssvæðið sem liggur á barmi Þingvallavatns og fær vatn alla leið úr Langjökli. Vatnasvið Þingvallavatns hefur að geyma um fjórðung af öllu grunnvatni í byggð á Íslandi.“

Hugsið ykkur. Vatnasvið Þingvallavatns hefur að geyma um fjórðung af öllu grunnvatni í byggð á Íslandi. Þetta er stórkostleg auðlind, Þingvallavatn. Höldum áfram, með leyfi forseta:

„Það er því fagnaðarefni að ríkisstjórnin leggur fram frumvarp á Alþingi til þess að vernda vatnasvið Þingvallavatns, allt frá vatnaskilum í Hengli inn í Langjökul, því að þar liggur framtíðarvatnsból þeirra 70% þjóðarinnar sem búa á suðvesturhorni landsins. Það er höfuðnauðsyn að halda þessu vatni ómenguðu þegar Gvendarbrunna þrýtur en sú stund nálgast með þeirri þróun sem er á svæðinu.“

(Gripið fram í.) Þetta er dr. Pétur M. Jónasson, prófessor í Kaupmannahöfn, afskaplega merkur fræðimaður. (Gripið fram í: Hvenær skrifaði hann þetta?) Þetta skrifar maðurinn á síðasta ári. Þetta er skrifað á síðasta ári af okkar fremsta sérfræðingi í ferskvatnslíffræði, maður sem hefur rannsakað Þingvallavatn um áratugaskeið.

Pétur M. Jónasson segir áfram, með leyfi forseta:

„Auk hinnar miklu náttúrufegurðar er Þingvallasvæðið ein mesta auðlind íslensku þjóðarinnar. Hér voru byggð með fyrstu og öruggustu vatnsorkuverum landsins.

Hengilssvæðið, sem er meðal stærstu háhitasvæða á landinu, mun tryggja hita um langan aldur fyrir Reykjavíkursvæðið. Sýnt hefur verið fram á að vatn Nesjavallavirkjunar kemur alla leið úr Langjökli.“

Svo stendur hér, virðulegi forseti, og hlustum nú vel:

„Vatnasvið Þingvallavatns, sem er um 1.300 ferkílómetrar að stærð, geymir stærstu neysluvatnslind í byggð á Íslandi. Það gefur af sér 100 rúmmetra á sekúndu í Sogið við útfall úr Þingvallavatni eða 25% af öllu grunnvatni í byggð.

Vatnsforði á höfuðborgarsvæðinu er takmarkaður en aðeins hluti hans verður nýttur áður en hann rennur til sjávar. Hið frábæra vatn Þingvallavatnasviðsins tryggir því neyslu- og nytjavatn fyrir Reykjavík og Reykjanesskagann til langframa. Á Reykjanessvæðinu frá Selfossi að austan og að Kjalarnesi að vestan búa 70% þjóðarinnar eða 205.000 manns (Hagstofa Íslands, desember 2002). Enn fremur er rétt að minna á að yfir 90% af fólksfjölgun í landinu verður á þessu svæði. Fólksfjölgun á svæðinu var 30.000 undanfarin 10 ár. Vatnsnotkun fimmtíufaldaðist í Reykjavík frá 1903 til 1983 úr 18 í 900 lítra á mann á dag en mun vera minni í dag vegna endurbóta á leiðslum. Hagkvæmast og styst fyrir Suðvesturland mun vera að taka neysluvatn úr Kaldár- og Miðfellsstraumi sem báðir renna af austursvæði vatnasviðsins frá Lyngdalsheiði og vestur en Miðfellsstraumur er þriðjungur grunnvatns sem rennur að norðan til Þingvallavatns eða um 25 rúmmetrar á sekúndu.“

Virðulegi forseti. Þarna er sagt með mjög óyggjandi hætti hvers konar stórkostleg auðlind Þingvallavatn eitt og sér er og hlýtur að vera fyrir þjóðina til framtíðar.

Ef þetta frumvarp verður að lögum vil ég fá að heyra hvernig eignarhaldi á vatninu úr Þingvallavatni yrði háttað? Það væri nú fróðlegt að fá að heyra svör frá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni við því hvort iðnaðarnefnd hafi skoðað hvað verður með eignarréttinn á vatninu sem fellur úr Þingvallavatni? Þessi stórkostlega auðlind, stærsta neysluvatnslind í byggð á Íslandi — ég held að það finnist ekki nokkuð sem hægt er að líkja við þetta hér á norðurhveli jarðar. Vatnið sem er í Þingvallavatni á upptök sín á Miðhálendinu, ekki síst frá Langjökli. Þetta er vatn sem bráðnar þar eða fellur af himnum ofan sem regn, seytlar ofan í jörðina og kemur síðan inn í Þingvallavatn sem grunnvatn, seytlar gegnum jörðina og upp í gegnum sprungur í botninum.

Því er mjög vel lýst í bókinni Þingvallavatn – Undraheimur í mótun, sem var ritstýrt af Páli Hersteinssyni og einmitt nefndum Pétri M. Jónassyni, og kom úr fyrir nokkrum árum, hvernig þessi mikla vatnsauðlind verður til. Þarna er mikið af mjög góðu, hreinu vatni. Ef þetta frumvarp verður að lögum sé ég það fyrir mér að þeir sem munu eignast eignarréttinn á vatninu sem fellur úr Þingvallavatni, landeigendur þá í kringum Sogið og þar — þarna verði hægt að koma á eignarrétti á þessari auðlind og hugsanlega fara að stunda stórtæka sölu á vatni úr Þingvallavatni, bæði til fólks sem býr hér á höfuðborgarsvæðinu og til fólks á suðvesturhorninu en hugsanlega til útflutnings.

Mér finnst að menn ættu að skoða þetta mjög gaumgæfilega. Áður en áfram verður haldið þarf að skoða þetta mjög gaumgæfilega. Þetta er ein af þeim ástæðum sem ég vil tilgreina sem rök fyrir því að þessu frumvarpi verði hreinlega vísað frá og það komi síðan aftur eftir gaumgæfilega skoðun inn í þingið næsta haust eftir að nefnd fulltrúa úr öllum flokkum hefur skoðað þessa hluti mjög vandlega. Það þarf einmitt að skoða svona álitamál. Við getum ekki búið til eignarrétt á þeirri stórkostlegu auðlind sem Þingvallavatn er og vatnið í Þingvallavatni. Við getum ekki gert það í hugsunarleysi eitthvað út í loftið. Við þurfum að skoða þetta mjög vandlega.

Það er líka annað sem gerir það að verkum að maður hefur mjög varann á sér. Það er náttúrlega það að menn hafa verið með yfirlýsingar um að þeir sjái tækifæri í vatni. Hér er nóg að minna á ummæli Ólafs Ólafssonar, stjórnarformanns, sem var, Olíufélagsins, umsvifamikill viðskiptajöfur sem hefur tengst inn í innstu hringi Framsóknarflokksins. Hann sagði orðrétt í viðtali á mbl.is í janúar sl., með leyfi forseta:

„Fyrir einu og hálfu ári ákváðum við að efla fjárfestingar okkar utan Íslands og fara í frekari útrás en við þegar höfum verið í á undanförnum árum. Núna metum við það svo að ástandið á íslenska markaðnum, efnahagsástandið, sé afar hagstætt og verði það vonandi næstu árin. Jafnframt að Olíufélagið sé til þess búið að fara í frekari verkefni hér heima, s.s. í orkugeiranum, hvort sem það er í vatni eða rafmagni, og skapa sér nýja stöðu þar eða í smásölu eða heildsölu.“

Síðan hefur þessi aðili selt sig út úr Olíufélaginu, en ég hygg að áhugi hans á vatni og landvinningum þar sé enn til staðar.

Maður hlýtur að velta því fyrir sér, og mér er alveg sama þótt framsóknarmenn komi hér upp bláir af reiði og segi að þetta séu dylgjur, hvort þetta ofurkapp sem forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins leggur á að frumvarp um eignarhald á vatni verði nú að lögum geti tengst því að verið sé að búa til hagstætt lagaumhverfi fyrir einhverja vini og vandamenn í Framsóknarflokknum.

Maður hlýtur að velta því fyrir sér, það er fullkomlega eðlilegt að spyrja þeirrar spurningar, og mér er alveg sama þó menn fyrtist við og móðgist þó það sé gert. Ég held nefnilega að menn bíði þarna úti eftir því að þessi lög verði samþykkt og það verði gengið með skýrum hætti, eins og stendur í frumvarpinu, frá eignarhaldi á vatni til þess að það sé alveg á hreinu að þessir menn eigi vatnsauðlindina, að þeir hafi slegið eign sinni á hana. Í þessu sambandi má líka benda á að auðmenn Íslands hafa verið mjög stórtækir á undanförnum missirum við að kaupa upp til að mynda jarðir.

Hér er ég með Frjálsa verslun sem var að koma út. Þar er annars vegar talað um eignatengsl í íslensku atvinnulífi og þar er m.a. nefndur til sögunnar umræddur Ólafur Ólafsson í Samskipum. En hér er líka grein sem fjallar um að efnafólk sé að kaupa jarðir í sveitinni. Það eru svo oft og tíðum jarðir sem eru með aðgang að vatni. Í blaðinu eru taldar upp ýmsar jarðir. Ég hvet þingmenn til að verða sér úti um þetta blað og lesa það.

En hér eru taldar upp ýmsar jarðir sem hafa komist að undanförnu í eigu ýmissa auðmanna. Þetta eru oftar en ekki jarðar sem liggja til að mynda að straumvötnum, laxveiðiám. Menn eru núna að tala um lax. Hér er talað um Urriðaá á Mýrum í Borgarfirði í eigu Magnúsar Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Kapital og áður formanns VSÍ og fleiri félaga. Þetta eru einhverjir menn sem ég kannast ekkert við. Ég er ekkert í þessum kreðsum. Ég veit ekkert hverjir þessir menn eru en þeir heita þessum nöfnum. Hér er talað um Langárfoss á Mýrum í eigu samnefnds einkahlutafélags og fyrir því fer Pálmi Haraldsson, löngum kenndur við Feng. Ég veit ekki hvað hér er, Hvítsstaðir og Árbær við Langá á Mýrum eru í eigu nokkurra úr hópi stjórnenda KB-banka. Lundur í Þverárhlíð, ég veit ekki hvort það er vatn þar, er í eigu hjónanna Kristínar Ingólfsdóttur, rektors Háskóla Íslands, og Einars Sigurðssonar, framkvæmdastjóra IMG Gallup. Já, já. Nefndur Ólafur Ólafsson, kenndur við Samskip, á jarðirnar Miðhraun I og Borg í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi. Innri Kóngsbakki á Snæfellsnesi er í eigu einkahlutafélags ýmissa þekktra athafnamanna, svo sem Finns Ingólfssonar, forstjóra VÍS, Tryggva Pálssonar í Seðlabankanum og Hrólfs Jónssonar, sviðsstjóra hjá Reykjavíkurborg og áður slökkviliðsstjóra. Slökkviliðsstjórar eru nú fundvísir á vatn. Er það ekki? (Gripið fram í: Eru þetta ekki bara veiðiáhugamenn?) Þeir hafa nef fyrir vatni. Þar sem er veiði er líka vatn. Fiskur þrífst ekki nema í vatni.

Framsóknarmenn munu örugglega kalla þetta dylgjur. En ég veit það ekki. Mér finnst gaman að skoða þennan lista því hann er nokkuð áhugaverður. Að sjá hvað þessir menn hafa verið að bralla.

Össur Kristinsson, stofnandi Össurar, á jörð og glæsilegt hús við Vatnsfjörð skammt frá Flókalundi. Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, á kirkjujörðina Saurbæ á Rauðasandi. (Gripið fram í: Er vatn þar?) Ég veit það ekki. Ég veit ekki hvort það er vatn þar. Ég veit ekki hvort það er vatn á þessum stöðum. Þetta eru veiðijarðir. Hér er Andri Teitsson verkfræðingur, áður framkvæmdastjóri KEA, sem á jarðir í Húnaþingi vestra. Það eru Fremri-Fitjar í Miðfirði, Hnúk í Vesturárdal, Galtarnes og Auðunarstaði í Víðidal og Litlu-Borg í Vesturhópi. Hann er að safna jörðum.

Óttar Yngvason lögmaður á Króksstaði í Miðfirði og þrjár samliggjandi jarðir á vesturbakka Víðidalsár, þ.e. Árnes, Laufás og Refsteinsstaði. Þarna er laxveiðivatn. Þingeyrar við Hóp eru í eigu Ingimundar Sigfússonar, fyrrum sendiherra og áður forstjóra Heklu. Steinunn Jónsdóttir arkitekt keypti í fyrra Bæ við Höfðavatn rétt norðan við Hofsós og stendur þar í framkvæmdum. Faðir hennar Jón Helgi Guðmundsson í Byko á Neskot í Fljótum og sonur hans og bróðir Steinunnar, Guðmundur Halldór, á aðra samliggjandi jörð, Krakavelli.

Síðan er það Fljótshlíðin. Margir kunnir athafnamenn eiga þar jarðir. Hér eru tvær jarðir sem bera nafnið Lækur. Á Lambalæk eru þeir Hörður Sigurgestsson, áður forstjóri Eimskips, Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans, Stefán Pétur Eggertsson, stjórnarformaður Árvakurs, og Bakkavararbræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra á Kvoslæk, (Gripið fram í: Hvað segirðu?) Kvoslæk í Fljótshlíð. Það hlýtur að vera lækur þar. Það er vatn þar. (Gripið fram í: Er hann ekki hæstv. dómsmálaráðherra?) Hæstv. dómsmálaráðherra, afsakið. Ég biðst forláts.

Þetta er svona listi sem þeir eru að skemmta sér við að birta í Frjálsri verslun. Það er svo sem allt í lagi. Ég get alveg unnt þessum mönnum að eiga jarðir. Það er ekki það. Það er bara hollt og gaman og gott að búa í sveitinni. En maður hlýtur að velta fyrir sér — hugsanlega fylgja þessum jörðum einhver vatnsréttindi, ég skal ekki segja til um það. En þetta eru hlutir sem ég tel að sé mjög mikilvægt að skoða áður en þetta frumvarp hugsanlega verður að lögum, sem ég vona svo sannarlega að verði ekki.

Við þurfum að fara aðeins yfir hvaða vatnsauðlindir þetta eru, ferskvatnsauðlindir. Hvar liggja helstu ferskvatnsauðlindir Íslendinga? Með hvaða hætti væri hugsanlega hægt að koma þeim í verð? Gæti til að mynda hugsast að fátæk sveitarfélög mundu neyðast til að selja vatnsveiturnar sínar til að eiga fyrir skuldum? Við vitum að mörg sveitarfélög standa höllum fæti. Vatnsveiturnar kæmust þá í eigu einhverra stórfyrirtækja sem síðan mundu mata krókinn á því að selja fólki sem býr á viðkomandi stöðum vatn.

Nú gengur hv. formaður iðnaðarnefndar í salinn. Mér þætti nú gaman að fá að vita hjá honum hvort hann hefði velt þessu fyrir sér, hvort hann hafi heyrt orð mín og ábendingar um Þingvallavatn og þá miklu vatnsauðlind sem þar er og hvernig eignarhaldi á þeirri auðlind yrði hugsanlega háttað ef þetta frumvarp yrði að lögum. (Gripið fram í: … fara yfir það …)

Hv. formaður getur lesið ræðu mína. En við erum að spyrja mjög mikilvægra spurninga sem við verðum að fá svör við. Við getum ekki leyft okkur að halda áfram að afgreiða þetta mál með þeim hætti sem við höfum verið að gera núna án þess að þetta sé skoðað mjög gaumgæfilega. Að landeigendur skuli á hverjum tíma sjálfkrafa verða eigendur vatns um leið og það kemur og snertir land þeirra í formi þoku eða um leið og regndropinn fellur á jörðina. Það eru hlutir sem við þurfum líka að skoða nánar.

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé nú orðið ágætt hjá mér í fyrri ræðu minni, ég held ég fari að reyna að ná lendingu í þessu. Ég hef farið um víðan völl, talað um vatnið sjálft og hvers konar auðlind það er. Talað um gildi vatnsins fyrir okkur Íslendinga sem þjóð, bæði efnislega sem neysluvatn og kannski líka svolítið tilfinningalega því ég tel að hún standi þjóðarsálinni mjög nærri þessi auðlind. Nú er ég orðinn vatnslaus þannig að einhver þarf að fara og ná í vatn.

Ég hef líka farið yfir þær umsagnir sem hafa borist um þetta frumvarp og rætt þær svolítið í þaula, sumar þeirra. Nokkrar þeirra vekja mjög athygli mína. Ég bendi á umsögn Umhverfisstofnunar, ég bendi á umsagnir sem hafa komið frá Landssambandi veiðifélaga og Bændasamtökunum og ég bendi á umsagnir frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, sem eru mjög merkilegar, og einnig bendi ég á umsögn frá Félagi heilbrigðisfulltrúa. Ég hef líka notað ræðu mína til að minnast sérstaklega á Þingvallavatn og farið yfir það hvers konar gríðarleg auðlind þar er og hefur verið bent á það. Þar er búið að ganga frá frumvarpi um verndun Þingvallavatns og kannski var það liður í þessu plotti, ég skal ekki segja til um það.

Það er alltaf þannig þegar maður fer í svona langar ræður að maður gleymir einhverju en ég man skyndilega eftir því að ég ætlaði að nefna einn hlut sem hugsanlega kann að skipta einhverju máli. Það er að það liggur núna fyrir þinginu frumvarp. Við höfum þegar talað um Kárahnjúka og hugsanleg áhrif þessa frumvarps á þær framkvæmdir. En ég vil leyfa mér að nota síðustu mínútur mínar til að vekja athygli á að það liggur hér fyrir þinginu, það er búið að fara gegnum 1. umr., frumvarp til laga um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar. Þetta er svolítið áhugavert mál sem ég legg ríka áherslu á að menn láti ekki fara fram hjá sér.

Hvað verður um þetta frumvarp og hvað verður um þau eignarréttindi sem er verið að tala um þar? Á ríkið að afsala þeim til Landsvirkjunar fyrir ekki neitt, bæði landi og vatnsréttindum í Þjórsá? Hvaða áhrif mun þetta frumvarp sem hér liggur fyrir þinginu, frumvarp til vatnalaga, hafa varðandi þetta? Því þarf að svara. Það er einkennileg tilviljun að þetta skuli vera hér til umfjöllunar á sama tíma og frumvarpið til vatnalaga.

Nú verður að leggja höfuðið í bleyti, hv. þingmenn, og skoða þessa hluti alla saman mjög vandlega og reyna að skapa okkur heildstæða mynd af því hvað er hér í gangi. Hvað er hér í gangi? Hvað vakir fyrir mönnum? Hvernig stendur á því að stjórnarmeirihlutinn er að reyna að keyra þetta mál hér í gegnum þingið með þvílíku offorsi um eignarhald á vatni? Hvernig stendur á því að við fáum engar skýringar á því hvað það er sem gerir það að verkum að það liggur svona ofboðslega mikið á? Hvernig stendur á því að Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins segjast hér vera sammála þeirri stefnu sem fram kemur í frumvarpinu og tryggi eignarrétt landeigenda á vatnsauðlindinni á sama hátt og gildir um aðrar auðlindir, sbr. lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu? (Gripið fram í.) Hvernig stendur á því að Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins, sem eru með heilan her af lögfræðingum innan sinna vébanda, senda frá sér þessa umsögn? Mér þætti gaman að fá svar við því.

Drekk ég þar með vatnsglas mitt í botn og segi máli mínu lokið í þessari fyrri ræðu minni en ég mun að sjálfsögðu koma aftur því það eru ótal atriði sem mér hefur ekki gefist tími til að fjalla um og hef ég þó talað núna í tæpa þrjá tíma. (Gripið fram í.)