132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Íbúðalánasjóður.

[13:33]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil spyrja nýjan félagsmálaráðherra, um leið og ég óska honum velfarnaðar í starfi, hvort einhver stefnubreyting hafi orðið varðandi afstöðuna til Íbúðalánasjóðs en athyglisvert er að hæstv. forsætisráðherra notaði ráðherraskiptin til að biðja hæstv. ráðherra að hraða endurskoðun á Íbúðalánasjóði. Fyrrverandi félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, upplýsti nýlega á Alþingi að hugsanlegar breytingar á hlutverki sjóðsins tækju tíma og ekki væri að vænta lagabreytinga í því efni á yfirstandandi þingi. Ég spyr hæstv. ráðherra: Stendur það að menn muni taka sér þann tíma sem þarf og hafa víðtækt samráð við fjölda aðila, m.a. samtök launafólks, neytenda, námsmanna og lífeyrisþega um málið og frumvarp verði ekki lagt fram um það á þessu þingi?

Greinilegt er að vilji hæstv. forsætisráðherra er að breyta Íbúðalánasjóði í heildsölubanka. Ég spyr: Er hæstv. félagsmálaráðherra sammála því?

Það er auðvitað nokkuð kaldhæðnislegt að fórna eigi Íbúðalánasjóði og hann eigi að bjarga bönkunum úr þeirri stöðu sem þeir eru sjálfir búnir að koma sér í með óábyrgri útlánastarfsemi. Telur ráðherra það t.d. ekki vera áhyggjuefni að verðbréfafyrirtækið Merrill Lynch segir í nýrri skýrslu að bankarnir geti ekki reiknað með hagnaði af íbúðalánastarfsemi fyrr en framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs hafi verið ákveðið. Á mannamáli er verið að segja að skapa þurfi bönkunum svigrúm til að geta hækkað vexti á íbúðalánum með því að koma Íbúðalánasjóði út af markaðnum. Er það hvatinn sem rekur forsætisráðherra til yfirlýsinga sem í raun eru um að það eigi að jarða Íbúðalánasjóð?

Ég spyr líka hæstv. ráðherra hvort hann muni framfylgja því sem var í skoðun hjá fyrrverandi ráðherra um að breyta viðmiðun við brunabótamat og hækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs en með því að stjórnvöld hafa setið á eðlilegum breytingum á hámarksláni og miða við brunabótamat hafa þau auðvitað meðvitað verið að svelta Íbúðalánasjóð út af markaðnum.