132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Íbúðalánasjóður.

[13:37]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að nýr hæstv. félagsmálaráðherra lýsir því yfir að horft verði til þess að allt landið sitji við sama borð hvað varðar íbúðalán. Sjálfstæðisflokkurinn vill gera sem flestum kleift að búa í eigin húsnæði, það treystir fjárhagslegt sjálfstæði manna og eykur ábyrgðartilfinningu gagnvart verðmætum. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að sem flestir geti eignast þak yfir höfuðið og eftirsóknarvert út frá hagsmunum einstaklinga og fjölskyldna.

Íbúðalánasjóður og þar áður Húsnæðisstofnun ríkisins hafa gegnt miklu hlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði. Við höfum upplifað þá ánægjulegu breytingu að viðskiptabankakerfið hefur nú komið inn á íbúðalánamarkaðinn. Það breytir ekki þeirri staðreynd að viðskiptabankarnir munu væntanlega seint sinna íbúðalánamarkaðnum í dreifðum byggðum landsins. Því hefur Íbúðalánasjóður enn þá mikið hlutverk og nauðsynlegt þar sem íbúðamarkaðurinn er ekki jafnfjörugur og á höfuðborgarsvæðinu.

Það er augljóst mál að ekki verða dramatískar breytingar á Íbúðalánasjóði nema lausnir finnist á því hvernig landsbyggðinni verður sinnt. Þegar farið verður að íhuga breytingar á Íbúðalánasjóði verður að huga að þeim veruleika sem landsbyggðin býr við og því fagna ég orðum hæstv. félagsmálaráðherra hvað þetta varðar.