132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Íbúðalánasjóður.

[13:39]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé landsmönnum mikið áhyggjuefni að heyra síðustu fréttir af ríkisstjórnarheimilinu þar sem það á að vera forgangsatriði að afhenda viðskiptabönkunum Íbúðalánasjóð. Fyrsta skrefið í að einkavæða Íbúðalánasjóð. Menn skulu hugleiða að það er ekki bara gagnvart íbúum landsbyggðarinnar, heldur líka gagnvart íbúum alls landsins, einnig í þéttbýlinu, sem Íbúðalánasjóður hefur gegnt því lykilhlutverki að veita lán til húsnæðis- og íbúðakaupa eða íbúða í byggingu á sem hagkvæmustu kjörum. Það er ein meginástæðan fyrir því að svo stór hluti af húsnæði hér á landi er í eigu þess fólks sem býr þar. Ef þetta á að verða hlutur Framsóknarflokksins, þess gamla félagshyggjuflokks, að vera beitt fyrir einkavæðingarvagninn enn á ný af hálfu Sjálfstæðisflokksins og að fela bönkunum Íbúðalánasjóð, þá finnst mér það dapurt, frú forseti.

Ég bendi á varnaðarorð sem ágætur fasteignasali birti í viðtali um miðjan nóvember sl., Ingibjörg Þórðardóttir, hjá Híbýlum, þar sem hún sagði að þeir sem minna mega sín og hafa lægri tekjur verði að njóta ívilnunar og það er það sem Íbúðalánasjóður hefur tryggt. En verði hann afhentur bönkunum eins og hér er verið að ýja að í stefnu ríkisstjórnarinnar þá verður þetta ekki þannig.

Ég bið, frú forseti, og skora á félagshyggjuflokkinn gamla, Framsóknarflokkinn, að standa vörð um Íbúðalánasjóð, láta hann ekki fara inn í einkavæðingarvagninn, frú forseti.