132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Íbúðalánasjóður.

[13:46]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að víkja að tvennu. Í fyrsta lagi vil ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að vekja athygli á málefnum Íbúðalánasjóðs og í öðru lagi að lýsa ásetningi okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um nauðsyn þess að slá skjaldborg um þessa stofnun sem bankarnir og Sjálfstæðisflokkurinn vilja nú feiga.

Varðandi þær yfirlýsingar sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom hér með um afstöðu UMFÍ þá þykir mér leitt að UMFÍ skuli hafa sagt sig frá sameiginlegri umsögn verkalýðssamtaka og almannasamtaka um vatnalögin. Þessi afstaða kemur mér nokkuð á óvart því að hún hefur aldrei komið fram fyrr enda þótt UMFÍ hafi haft þessa umsögn til umfjöllunar frá því í lok nóvembermánaðar. Fyrir fáeinum dögum lýsti UMFÍ og formaður þeirra samtaka, ég er með skeyti þar um því til staðfestingar, samþykki yfir því hvernig staðið yrði að kynningu í iðnaðarnefnd Alþingis á þessari umfjöllun og umsögn sem UMFÍ hefur átt aðild að.

Ég get náttúrlega ekki borið ábyrgð á því þótt forsvarsmenn UMFÍ lesi ekki póstinn sinn eða fari ekki yfir þau gögn sem þessum samtökum berast. (Gripið fram í.) Ef hins vegar hefur verið um misskilning að ræða, sem ég geri fastlega ráð fyrir að hafi verið í þessu efni, þá þykir mér það leitt og ekkert annað en sjálfsagt að taka því vel og fá það staðfest að UMFÍ segi sig frá þessari sameiginlegu umsögn.

Ef menn hafa einhverjar efasemdir um heilindi annarra aðila sem standa að þessari umsögn þá er ekki annað að gera en að snúa sér til þeirra, Kennarasambandsins, Sambands bankamanna, Öryrkjabandalagsins, Landssambands eldri borgara og Náttúruverndarsamtakanna og annarra samtaka sem standa að þessari umsögn. Við skulum gæta okkar á því (Forseti hringir.) að láta Framsóknarflokkinn ekki reyna að slá ryki í augu hvorki þingsins né þjóðarinnar í (Forseti hringir.) þessu efni.