132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Íbúðalánasjóður.

[13:53]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það var ekki mikill sannfæringarkraftur í máli hæstv. félagsmálaráðherra áðan og ekki að sjá að hann ætli að standa í ístaðinu gagnvart íhaldinu eins og fyrirrennari hans gerði. Ég sé ekki betur en að hæstv. ráðherra ætli að fylgja forsætisráðherra og íhaldinu í því að koma á heildsölubanka. Með hvaða afleiðingum? Hvað hefur eitt verðbréfafyrirtæki sagt nýlega í skýrslu sinni? Að það þurfi að skapa bönkunum svigrúm til að geta hækkað vexti á íbúðalánum með því að koma sjóðnum út af markaðnum. Mér heyrist að einu áhyggjurnar sem ráðherrann hefur sé landsbyggðin og það er vissulega ástæða til að hafa áhyggjur af landsbyggðinni ef Íbúðalánasjóður fer út af markaðnum. En það er líka ástæða til að hafa áhyggjur af félagslega hluta íbúðalánakerfisins, það er líka ástæða til að ætla að þetta geti minnkað þjónustu við íbúðakaupendur og það er líka ástæða til að ætla, eins og þetta matsfyrirtæki segir, að það vextir muni hækka í kjölfarið og þjónustugjöld. (Gripið fram í: Hver var félagsmálaráðherra þegar Byggingarsjóður verkamanna fór á hausinn?)

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra getur ekki einu sinni kveðið upp úr með það að ekki verði lagt fram frumvarp á þessu þingi. Það er ekki langt sem lifir af því. Hæstv. fyrrverandi félagsmálaráðherra fullvissaði okkur þó um að það yrði ekki gert en hæstv. ráðherra getur ekki einu sinni sagt það hér.

Hér vantar skýrslu Ríkisendurskoðunar sem er að gera stjórnsýslulega úttekt á endurskoðunarbeiðni félagsmálanefndar. Ég veit að sú skýrsla mun ekki liggja fyrir, eftir þeim upplýsingum sem ég hef, áður en þing fer heim í vor. Ég spyr: Mun hæstv. ráðherra bíða eftir þeirri skýrslu? Það er auðvitað grundvallaratriði að það sé gert.

Það eina sem hæstv. ráðherra segir er að hann muni jú hafa samráð við viðkomandi aðila og hann muni vernda landsbyggðina. En það vantar miklu meira til. Þetta vekur auðvitað upp spurningar um það hvort forsætisráðherra telji að nýr félagsmálaráðherra verði auðveldari viðureignar en fyrrverandi félagsmálaráðherra og hann verði líka bandamaður með honum með íhaldinu að koma Íbúðalánasjóði út af markaðnum.