132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:15]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Framganga hv. þingmanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í dag og síðustu daga þar sem gengið hefur á með svívirðingum, ávirðingum og brigslum um hvers kyns framgöngumáta, stuðning við helstefnur og manndrápsstefnur og ég veit ekki hvað og hvað er með algerum ólíkindum og hlýtur að vera með dapurlegri stundum í þinginu um langt árabil. Til dæmis bera menn við að brigsla um kommúnisma og aðra slíka óáran hér í þinginu og látið óátalið. Nú síðast flýja þeir í skjól Ungmennafélagsins, reyna að draga það inn í hringiðu umræðunnar og deilunnar, allt til að drepa málinu og umræðunni um vatnalögin á dreif og víkja frá kjarna málsins, virðulegi forseti, sem snýst um eignarhald á auðlindum.

Það er það sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn vilja ekki ræða og þora ekki að ræða. Eftir að dregið var skýrar fram út á hvað málið gengur, hver pólitískur tilgangur málsins er hefur gengið hér á með þessari framgöngu stjórnarliðanna í þinginu dag eftir dag, virðulegur forseti. Nú síðast endaði það þannig að einn helsti forustumaður sjálfstæðismanna í málinu, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, óskaði eftir sérstakri rannsókn þingsins á því hvernig ein umsagnanna sem fyrir þinginu liggja og liggja umræðunni til grundvallar væri til komin. Það er sjálfsagt mál að hæstv. forseti skoði það sérstaklega hvort ekki verði farið yfir þetta mál og hvernig það kom til að Ungmennafélagið var fengið til að víkja frá stuðningi sínum eða segja sig frá honum með einhverjum hætti og fara yfir málið í heild sinni. Það er sjálfsagt mál fyrst hv. þingmaður, forustumaður og talsmaður sjálfstæðismanna í iðnaðarnefnd fór sérstaklega fram á það áðan.

Þess vegna vildi ég ræða það undir liðnum Um fundarstjórn hvort hæstv. forseti sæi ekki flöt á því að fresta þessum fundi og fara yfir málið þar sem framganga stjórnarliðanna við upphaf þingfunda var með þeim hætti að mjög óvarlegt er að halda umræðunni áfram án þess að það sé skýrt og sérstaklega vegna þess hvernig þeir drógu umsögnina frá Ungmennafélagi Íslands inn í þetta bara til að drepa málinu á dreif, víkja frá kjarna málsins af því að um er að ræða prinsippmál sem er eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum, algert grundvallar- og prinsippmál sem hér er reynt að drepa á dreif með brigslyrðum, ávirðingum og svívirðingum hvers konar sem er þeim sjálfum síst til sóma og málinu örugglega ekki til framdráttar, enda ekkert annað en pólitískar brunarústir eftir framgöngu stjórnarliðanna í dag og síðustu daga.