132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:22]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nokkur orð um þann misskilning sem greinilega er uppi annars vegar á milli UMFÍ og annarra aðila sem stóðu og standa sameiginlega að álitsgerð um vatnalagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Það ber að virða ef UMFÍ segir sig frá þessari umsögn en jafnframt að harma ef um hefur verið að ræða misskilning sem upp hefur komið og þá er það nokkuð sem einfaldlega þarf að leiðrétta.

Samkvæmt þeim gögnum sem ég hef séð um málið og sem ég tel vera áreiðanleg fékk UMFÍ umsögnina í hendur í lok nóvembermánaðar, hinn 27. nóvember að því er ég tel og síðan hefur hún gengið á milli aðila og síðast 30. janúar staðfestu samtökin fyrir sitt leyti á hvern hátt málið yrði kynnt fyrir iðnaðarnefnd, sameiginlega af hálfu þessara samtaka.

Ég held að misskilningurinn liggi í því að þessi aðili hafi ekki kynnt sér umsögnina og talið hugsanlega að þar væri eitthvað annað á ferðinni þó hann hefði haft hana undir höndum. Ég vil leggja þann besta skilning mögulegan í þetta mál og tel að svo geti hugsanlega verið og ef um slíkt er að ræða hefur það einfaldlega verið leiðrétt og UMFÍ sagt sig frá þessari umsögn. Rétt skal vera rétt en þá líka gagnvart öllum aðilum. Menn skulu fara varlega í ásökunum á hendur þeim aðilum öðrum sem standa einhuga að baki þessari álitsgerð og leggja mjög ríka áherslu á að því mér er kunnugt að hún verði tekin til alvarlegrar umfjöllunar á Alþingi eins og reyndar hefur verið gert. Þar er um að ræða BSRB, Samband íslenskra bankamanna, sem áður hét, er starfsfólk í bönkum og verðbréfafyrirtækjum, Landssamband eldri borgara, MFÍK, Öryrkjabandalag Íslands og Náttúruverndarsamtök Íslands. Mér er kunnugt um að öll þessi samtök hafa lagt mjög mikla vinnu í þetta mál og að baki umsögn þeirra er mjög mikil alvara og menn eiga að virða það.