132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:25]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs um fundarstjórn forseta og hvet hæstv. forseta til að halda málinu áfram. Ég tel það mjög mikilvægt að sjónarmið þeirra þingmanna sem enn eru á mælendaskrá fái að koma fram. Ég teldi það vera mjög miður fyrir lýðræðið ef menn mættu ekki tala hér um málið áfram og eins lengi og þeir vilja og þó að nóttin yrði tekin til þess. Það er að sjálfsögðu tilhlýðileg virðing við hv. þingmenn.

Í gærkvöldi sat ég heima og hlýddi á umræður og sérstaklega milli kl. 11 og 12 en þá talaði hv. þm. Einar Már Sigurðarson og einhvern veginn náði ég ekki dýpt þeirrar ræðu. En það liggur örugglega að mér. En hins vegar tók ég eftir því að hv. þm. óskaði a.m.k. þrisvar eða fjórum sinnum eftir því að forseti mundi slíta fundi. Það þótti mér miður gagnvart þeim mönnum sem áttu eftir að koma á eftir hv. þingmanni og ræða málin.

Hann ræddi líka um Kárahnjúka. Það er dálítið merkileg umræða. Það er búið að skrifa undir allt varðandi Kárahnjúka. Það er byrjað að framkvæma meira að segja, ég sá stífluna. Það er búið að grafa heilmikil göng og það vill svo til að á Íslandi er réttarríki og lög virka ekki aftur fyrir sig þannig að þau lög sem gilda um Kárahnjúka eru núgildandi lög, ekki þau lög sem til stendur að setja hér. Það er fráleitt að vera að blanda því saman vegna þess að það lagafrumvarp sem verið er að ræða fjallar um framtíðina frá og með deginum í dag. Búið er að skrifa undir allt varðandi Kárahnjúka. Það getur ekki breytt neinu þar um réttarstöðuna. (Gripið fram í: Líka eignarnámið?)

Síðan langar mig til að ræða um umsögn BSRB, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Við mig hefur haft samband einn opinber starfsmaður og hann hefur kvartað undan því að hann er ekki sammála þeirri pólitík sem þau samtök eru að breiða út. Hann er á móti þeirri pólitísku skoðun sem samtökin koma fram með og hann er neyddur til að borga. Samkvæmt lögum ber honum að greiða í félag opinberra starfsmanna hvort hann vill eða ekki og hann telur að það sé brot á tjáningarfrelsi sínu að hann þurfi að borga áróður gegn sjálfum sér.

Reyndar hefur hv. þm. Ögmundur Jónasson, og ég verð að segja honum það til hróss, farið mjög listilega með þessa fínu línu á milli háttvirts þingmanns Ögmundar Jónassonar og Ögmundar Jónassonar, formanns BSRB, og hann hefur ekki notað sér aðstöðu sína hérna á þingi í því skyni. En það verður ekki fram hjá því horft að BSRB hafa í lengri tíma boðað til ráðstefna og alls konar funda varðandi vatnalögin einmitt vegna þess að það er pólitísk stefna hv. þingmanns.