132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:31]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég fékk því miður ekkert upp um það hvort hæstv. forseti ætlaði að taka tillit til þeirrar óskar minnar að fresta fundum þar til sú rannsókn sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í iðnaðarnefnd fór fram á hefur farið fram. Mér finnst bara sjálfsagt að hæstv. forseti geri grein fyrir afstöðu sinni til þess máls en hún virðist vera vant við látin við annað en að svara mér. Ég ætla því að gera stutta athugasemd við það að hv. formaður iðnaðarnefndar sé að draga Ungmennafélag Íslands inn í viðkvæma pólitíska umræðu. Mér er mjög annt um þetta ungmennafélag vegna þess að ég hef starfað innan Ungmennasambands Skagafjarðar. Mér finnst í rauninni ekki við hæfi að verið sé að draga Ungmennafélag Íslands inn í þessa umræðu, það er mjög vafasamt.

Einnig væri fróðlegt að fá það fram, vegna þess að sjálfstæðismenn hafa komið hver um annan þveran upp í ræðustólinn og heimtað rannsókn og efast um þetta og hitt varðandi umsagnir, hvort hv. formaður iðnaðarnefndar efist um umsögn Bændasamtakanna? (BJJ: Ég má ekki fara upp aftur.) Það væri þá fróðlegt að heyra það þegar færi gefst hvort hann efist um hana. Mér finnst það vera áhyggjuefni að Framsóknarflokkurinn skuli leggja fram frumvarp þar sem hann tekur ekki í einu né neinu tillit til bænda. Einhvern tímann hefðu það þótt tíðindi að umsögn bærist frá Bændasamtökunum þar sem segði:

„Frumvarpið hefur nú verið yfirfarið á nýjan leik og kemur þá í ljós að athugasemdir Bændasamtakanna hafa verið að engu hafðar.“

Þetta fyndist mér vera áhyggjuefni ef ég ætlaði mér að vinna á einhvern hátt að framgangi bænda, en það er ekkert gert með þetta. (Gripið fram í.) Ég er að gera það. Það er verið að gera athugasemd við frumvarp sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn leggja fram og það er eins og þetta hafi farið fram hjá fulltrúum sjálfstæðismanna. Mér finnst það með ólíkindum að fólk skuli koma hér upp og segja að umsagnir séu falsaðar og óski eftir rannsókn en síðan þegar stjórnarandstæðingar vilja leggja því lið að rannsókn fari fram heyrist hvorki hósti né stuna frá hæstv. forseta um það hvort hún ætli að taka afstöðu til þess eða ekki.

Mér finnst vera kominn tími til að hæstv. forseti svari því hvort (Forseti hringir.) hún ætli að taka tillit til þeirrar óskar eða ekki.