132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:35]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Ég held að þessi umræða um fundarstjórn forseta enn og aftur sýni hversu mikilvægt er að ná einhverri sátt um þinghaldið. Það er augljóst að pirrings er farið að gæta mjög víða hjá hv. þingmönnum. Við sjáum það sérstaklega í ræðum tveggja hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins varðandi bréf það sem formaður UMFÍ sendi til iðnaðarnefndar og kynnt var hér af formanni iðnaðarnefndar. Út af fyrir sig er ekkert óeðlilegt við það að formaður iðnaðarnefndar kynni bréf sem sent er til nefndarinnar vegna þingskjals sem hér liggur fyrir, en það voru viðbrögð hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, a.m.k. tveggja, sem voru sérstaklega sérkennileg. Eins og margoft hefur verið bent á voru allir þingmenn stjórnarandstöðunnar sakaðir um að hafa nýtt sér þetta plagg til að byggja allan sinn málflutning á og með því að eitt bréf hefði borist vegna þessarar umsagnar væri þar með búið að jarða allan þann rökstuðning. Þetta er auðvitað algjörlega út í hött, virðulegi forseti, en ekki síður sú sérkennilega beiðni sem kom frá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni um að hæstv. forseti léti fara fram sérstaka rannsókn, það mátti skilja það svo, á yfirleitt öllum umsögnum sem bærust til nefnda þingsins. Ég held að slíkt væri ógerningur. Það verður auðvitað að treysta því að umsagnir séu vel unnar. Mér sýnist, eins og komið hefur fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að hér hafi einhver mistök átt sér stað og að ekki sé ástæða til að gera mikið meira úr því en orðið er.

En það er auðvitað ýmislegt athyglisvert í því bréfi sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson las hér fyrir þingheim, vegna þess að í bréfinu, sem skrifað var í gær, kemur fram að sá sem það undirritar virðist hafa vitað af þessum umsögnum um þó nokkurn tíma, því að viðkomandi segir þar að hann hafi ekki vitað af því fyrr en þær hafi verið komnar til iðnaðarnefndar en ekki að hann hafi ekki vitað af því fyrr en í gær. Það er auðvitað afar sérkennilegt ef sá sem undirritar bréfið hefur vitað af þessu mjög lengi gerir ekki athugasemdir strax og viðkomandi vissi af þessu.

En það er annað, virðulegi forseti, sem er einnig athyglisvert í þessu bréfi og það er að í því segir að þessi umsögn hafi verið send til iðnaðarnefndar af hálfu BSRB. Þegar við skoðum hins vegar umsögnina sjáum við að BSRB er aðeins eitt af átta félagasamtökum, þegar UMFÍ er undanskilið, sem undir hana rita. Þetta bréf er því sérkennilegt ýmissa hluta vegna.