132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:38]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég tel mjög mikilvægt að forseti þingsins setji sig mjög vandlega ofan í málatilbúnaðinn um vatnalagafrumvarpið sem verið er að ræða hér í þinginu, setji sig vandlega ofan í það hvernig það er til komið, hvernig það er unnið og hvaða tilgangi það eigi að þjóna, hvert sé verkefni þess og hvers vegna verið er að koma því inn á þing, af því að það er grundvallarágreiningur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um tilgang þessa lagafrumvarps og hvert sé inntak þess. Ég tel að hæstv. forseta beri skylda til að fara ofan í það mál. Forsætisráðherra segir að þetta sé smámál og formsatriði. Einn af höfundum frumvarpsins, Karl Axelsson lögfræðingur, segir að þarna sé verið að taka á grundvallarréttaróvissu í tilteknum málum. Í upphafsgrein frumvarpsins stendur að þetta snúist um eignarrétt á vatni, eignarrétt á auðlindinni vatn. Þarna koma því fram mjög misvísandi atriði.

(Forseti (SP): Ætlar hv. þingmaður að ræða hér um fundarstjórn forseta eða efnislega um þetta mál? Það gefst tækifæri til þess á eftir þar sem þetta mál er á dagskrá.)

Frú forseti. Ég vona að hæstv. forseti hlýði á mál mitt. Ég er að spyrja forseta hvort hún hafi sett sig inn í þær miklu andstæður sem eru varðandi málatilbúnaðinn. Ég hef líka áður spurt forseta: Hvar er t.d. aðild okkar að samþykktum Sameinuðu þjóðanna um Vatn fyrir alla? Við höfum undirgengist það eða ég geri ráð fyrir því. Eða höfum við ekki samþykkt yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um Vatn fyrir alla og að áratugurinn 2005–2015 sé áratugur vatnsins í heiminum, Vatn fyrir alla, sem gengur í gegn einkavæðingu á vatni?

Ég spyr: Hefur hæstv. forseti ekkert sett sig inn í það mál og hvernig við höfum tekið afstöðu til þess? Hér er verið að tala um að hinar og þessar umsagnir séu ekki rétt til komnar. Ég vil minna á að ég er félagi í ungmennafélaginu og ég er stoltur af því að Ungmennafélag Íslands á aðild að þeim yfirlýsingum sem hér eru. (Gripið fram í.)

Hvar eru samþykktir Sameinuðu þjóðanna? Hver er aðild okkar að þeim? Ég krefst þess frú forseti að fá að vita hvort Ísland er aðili að yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um Vatn fyrir all, sem gengur gegn einkavæðingu á vatni. (Forseti hringir.) Ég krefst þess, frú forseti, að forseti upplýsi (Forseti hringir.) það hvort við séum aðilar (Forseti hringir.) að samtökum Sameinuðu þjóðanna um Vatn fyrir alla.