132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:52]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það sem ég vildi ræða um fundarstjórn forseta var í tengslum við upphlaup hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar hér fyrr í dag þar sem hann óð upp með því sem í versta falli mætti kalla pólitískan subbuskap en í besta falli bráðræðisleg mistök, taugaveiklun og bráðræði. Ég finn í raun og veru til með hv. þingmanni út af þeirri stöðu sem hann setti málið í og með hvaða hætti hann dró Ungmennafélag Íslands inn í þessa umræðu.

Nú vill svo óheppilega til að formaður þess, Björn B. Jónsson, er varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Árborg, mikill sómamaður og mér þykir það leitt hvernig hv. formaður iðnaðarnefndar dró þann góða mann og þessi merkilegu og gömlu samtök, Ungmennafélagið, inn í það pólitíska gjörningaveður sem hér geisar í átökum um vatnalögin, sem eru átök um grundvallarmál og er hér reynt að drepa á dreif og út um allar trissur með því að draga inn hluti eins og hv. þingmaður gerði hér í morgun.

Ég vona, virðulegur forseti, að hv. formaður iðnaðarnefndar sjái sóma sinn í því að biðja formann Ungmennafélagsins afsökunar á því úr ræðustól þingsins að hafa með þessum hætti dregið Ungmennafélagið og viðkomandi mann inn í þessa pólitísku umræðu, inn í þessu hörðu átök með þeim óheppilega og smekklausa hætti sem hann gerði hér í morgun. En ég vil leyfa hv. formanni iðnaðarnefndar að njóta vafans og tel að hann hafi gert bráðræðisleg mistök, eins og ég sagði. Hafi þetta verið gert af ásetningi væri það pólitískur sóðaskapur en ég lít svo á að hann hafi gert hér bráðræðisleg mistök og vildi óska eftir því við hæstv. forseta að hann gefi hv. formanni iðnaðarnefndar tóm til þess, sæi hann glufu til þess í þingsköpum, að koma hér upp og skýra mál sitt betur þannig að ávirðingunum sé létt af Ungmennafélagi Íslands (Forseti hringir.) og formanni þess sem hér var dreginn inn í málið áðan.

(Forseti (JóhS): Enn einu sinni áminnir forseti ræðumenn sem tala vilja undir fundarstjórn forseta að ræða um fundarstjórn forseta. Ýmsir þeir sem hafa talað hér undir þessum lið, fundarstjórn forseta, eru á mælendaskrá í því dagskrármáli sem er á dagskrá. Þar hafa þeir ótakmarkaðan ræðutíma til þess að ræða um þennan lið þannig að forseti brýnir enn fyrir þeim sem eftir eru á mælendaskrá að ræða um fundarstjórn forseta.)