132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

FBréf frá formanni UMFÍ.

[14:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við heyrum að hæstv. forseta þingsins þykir sú umræða, sem fram fer undir þessum dagskrárlið um fundarstjórn forseta, vera harla ómarkviss. En ég beini þeirri spurningu til hæstv. forseta þingsins hvaða skýringu hún kunni á því að þessi umræða dregst svo á langinn. Hver er ástæðan fyrir því að menn kveðja sér hljóðs, hver á fætur öðrum, klukkutíma eftir klukkutíma, undir þessum dagskrárlið eða öðrum um störf þingsins?

Það er einfaldlega vegna þess, frú forseti, að þinghaldið er allt komið í uppnám. Og hvernig stendur á því að þinghaldið er komið í uppnám og við hvern er að sakast í því efni? Það er við ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann að sakast, ríkisstjórnina sem er svo ákveðin í því að koma hinu umdeilda vatnalagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar í gegnum þingið að hún er reiðubúin að setja öll önnur mál til hliðar.

Formönnum þingflokkanna hér á Alþingi var skýrt frá því í gær að ekki standi til að hafa hefðbundinn fyrirspurnatíma í þinginu á morgun eins og venja stendur til vegna þess að allt á að víkja til hliðar fyrir vatnalögum ríkisstjórnarinnar. Þetta er ástæðan fyrir því, frú forseti, að menn kveðja sér hljóðs hér undir þessum dagskrárlið í og með til að mótmæla þessu fyrirkomulagi. Við krefjumst þess að fá nú skýr svör um framhald þingsins og hvernig á því standi að stjórn þingsins lætur undan kröfum ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans í þessu efni. Við svo búið má ekki vænta nokkurs samstarfs af hálfu stjórnarandstöðunnar í þessu máli eða öðrum. Við verðum að koma þessum málum og starfsemi þingsins í eðlilegan farveg að nýju. Fyrr en það verður gert má búast við löngum umræðum, markvissum og ómarkvissum, undir þessum dagskrárlið um stjórn fundarins og um störf þingsins.