132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:57]
Hlusta

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er líklega það eina sem ég get a.m.k. tjáð mig um í bili, það er fundarstjórn forseta. Ég verð nú að segja það, af því að hún talaði um að þingmenn hefðu hér ómældan tíma á eftir til þess að ræða um vatnalögin sem eru á dagskrá, þá hef ég í það minnsta ekki fengið staðfestingu á því enn þá að ég hafi nokkurn tíma.

En varðandi það mál sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson opnaði á verð ég að segja það að á fundi iðnaðarnefndar í morgun taldi ég að menn hefðu sammælst um að leita álits á og ritari nefndarinnar hefði verið beðinn um að kanna stöðu þessara umsagna. Því fannst mér og finnst mér mjög undarlegt, og skil eiginlega ekki alveg tilganginn og nauðsyn þess, að þetta bréf hafi verið lesið hér í dag. Mér fannst eiginlega engin ástæða til þess að upplýsa þingheim sérstaklega um það. Nefndin var meðvituð um þetta og ritaranum var falið að kanna þetta nánar. Að halda því fram að stjórnarandstaðan sé einvörðungu að byggja mál sitt, eins og þingmenn nokkrir hafa nefnt, á þessari umsögn er eiginlega hjákátlegt. Að sjálfsögðu liggja hér margar umsagnir að baki og ég er rétt að byrja að kynna mér þær, var að lesa þær eftir fundinn í morgun og í hádeginu. Ég get ekki annað séð en að þetta hafi ekki verið eitthvert málefni sem nauðsynlegt var að setja hér inn á þing í dag, að lesa hér upp. Mér finnst eins og öðrum að þessu væri varpað hér fram til að kasta rýrð á málflutning tiltekins þingmanns.