132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[15:04]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég hef orðið áhyggjur af stjórn þingsins og vinnubrögðum hæstv. forseta. Ég leyfi mér því að spyrja: Hversu lengi á dagskrá fundar að standa í dag? Á að vera kvöldfundur eða á að vera næturfundur? Það hefur ekkert verið tilkynnt um það, að því er ég best veit, a.m.k. hef ég þá ekki heyrt hvernig forseti ætlar að haga þinghaldi í dag.

Það hefur heldur ekkert verið gefið út um morgundaginn sem er miðvikudagur, hefðbundinn fyrirspurnadagur. Venjan er sú að haft er samband við þingmenn um þetta leyti, um hádegisbilið, varðandi fyrirspurnir sem taka á fyrir á miðvikudegi og hvaða fyrirspurnir komast þá á dagskrá. Ekkert slíkt hefur verið boðað í dag þannig að ég leyfi mér að spyrja hæstv. forseta: Er þetta þing að verða stjórnlaust?

(Forseti (JóhS): Samkvæmt þingsköpum er það forseti sem ákveður dagskrá hvers fundar. Á dagskrá fundarins í dag eru vatnalögin, stjórnarfrumvarp. Það hefur enn ekki komist á dagskrá þar sem þingmenn ræða fundarstjórn forseta. Þeim forseta sem nú stýrir fundi er ekki kunnugt um það hvenær eigi að ljúka þessum fundi og hvort hann eigi að vera í kvöld eða ekki. Það ræðst væntanlega af því hvort eitthvert samkomulag næst milli forseta og formanna þingflokka, en forseta sem hér stendur er ekki kunnugt um hvort eitthvað slíkt sé í gangi eða hvort vænta megi þess að eitthvert samkomulag náist á þessum degi eða sólarhring. En meðan ekki hefur náðst samkomulag höldum við áfram umræðu um vatnalögin þegar þau komast á dagskrá, og eftir atvikum um fundarstjórn forseta.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir mjög skilmerkileg svör að því marki sem virðulegur forseti er fær um að gefa þau. Ég hlýt að skora á forseta að þetta mál verði tekið upp nú þegar í forsætisnefnd og tekin ákvörðun um það hvernig menn ætla að haga þinghaldinu í dag.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. forseta hvernig þinghaldi verði háttað á morgun. Ég er með starfsáætlun þingsins sem hefur verið gefin út og samþykkt af öllum þingflokkum, það ég best veit, og þar stendur að á morgun sé fundur og þá er gert ráð fyrir fyrirspurnatíma, eins og jafnan á miðvikudögum. Það er mjög miður ef það er eitthvað á reiki og ég velti fyrir mér hver taki eiginlega ákvörðun um það. Þó að hæstv. forseti segi að forseti ráði dagskrá þarf meira til til að raska öllum hefðbundnum dagskrárliðum án nokkurs samráðs við aðra þingflokka. Ég leyfi mér að spyrja ítrekað virðulegan forseta um dagskrá á morgun: Má ekki treysta því að á morgun verði hefðbundinn fyrirspurnatími eins og gert er ráð fyrir í starfsáætlun og að þingið hafi þá samband við þá aðila sem eiga fyrirspurnir um að geta tekið þær á dagskrá með eðlilegum hætti? Ég á fyrirspurnir inni sem ég vildi gjarnan að yrðu teknar á dagskrá. Það er óviðunandi ef eitt mál á að raska hér öllum öðrum þingstörfum, ekki síst fyrir það hvernig það er búið inn til þingsins. Ég leyfi mér ítrekað að spyrja hæstv. forseta hvernig dagskrá verði háttað á morgun varðandi fyrirspurnir.

(Forseti (JóhS): Það hefur ekki farið fram hjá neinum að þinghaldið er í nokkurri óvissu þessa dagana. Það er m.a. skýringin á því að ekki liggur fyrir hefðbundin dagskrá út þessa viku eins og vaninn er, en forseti væntir þess og það er ósk forseta að samkomulag náist um þinghaldið þannig að það geti farið í eðlilegt horf. Sá forseti sem hér stendur ræður því ekki einn en vonar svo sannarlega að hægt verði að ná einhverju samkomulagi með formönnum þingflokka og forseta um áframhaldið á þinginu. Það er vissulega óvissa um fyrirspurnatímann á morgun. Frekari svör hefur forseti ekki við því.)

Frú forseti. Ég þakka fyrir þau svör sem hæstv. sitjandi forseti getur gefið en ég hvet forseta til að gera hlé á fundinum og kalla til fundar forsætisnefndar þannig að það megi skýrast, þinghaldið, næstu klukkutíma og næstu daga og láta ekki þetta mál sem snýst um einkavæðingu á vatni og hæstv. forsætisráðherra segir að sé ekki neitt, það sé bara formbreyting, hleypa öllu í uppnám. Burt með þetta einkavæðingarfrumvarp.