132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[15:17]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Það er óhætt að segja að vatnið sé nú virkilega farið að sjóða hér í þingsölum.

Mig langar vegna nýliðabreks hér áðan að biðja virðulegan forseta afsökunar á gífuryrðum sem fuku í hita leiksins. Að vísu hefur komið fram, eftir að ég tjáði mig, frá hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur, að þegar það bréf sem var lesið upp hér í morgun hafi komið fyrir nefndina hafi nefndin ætlað sér að hafa samband við umsagnaraðila og kanna þessa yfirlýsingu. Það hefði verið heppilegra að mínu mati að það hefði verið gert, áður en hún var lesin hér upp. Mér er annt um þessi 99 ára gömlu samtök og vil jafnframt nota þetta tækifæri til að biðja hv. þm. Birki Jón Jónsson afsökunar ef ég hef gengið of langt hér í morgun, sem ég líkast til gerði.

Svona er þetta akkúrat í dag í þessu gífurlega mikla hitamáli sem hér er orðið. Vatnið er, eins og ég segi, virkilega farið að sjóða en það var alls ekki ætlunin að ráðast á hv. þingmann, sem að mínu áliti hefur að mörgu leyti starfað hér vel. Þetta voru afskaplega óheppileg ummæli og ég bið hv. þingmann enn og aftur afsökunar.