132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:37]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur verið nokkuð löng og ströng og upplýsandi fyrir þá sem grannt hafa fylgst með henni. Ég tel að þrátt fyrir að hún hafi verið löng og ströng þurfi að fara ýmis atriði áður en henni lýkur, m.a. til að reyna að varpa ljósi á ýmislegt sem sagt hefur verið. Sumt af því þarf kannski að skýra betur en gert hefur verið.

Það er athyglisvert að stjórnarliðar sem tekið hafa þátt í umræðunni hafa í reynd haft óskaplega lítið til málanna að leggja og kannski það helst, það má túlka orð þeirra á þann hátt, að Alþingi sé í raun ekki annað en afgreiðslu- eða stimpilstofnun sem bregðist við réttarþróun eða niðurstöðu dómstóla, jafnvel umræðum fræðimanna. Nú er því ætlað að lögfesta reglur út frá niðurstöðum dóma sem menn hafa leyft sér að túlka á tiltekinn hátt.

Það hefur verið einkenni á þessari umræðu að helstu forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa haldið því stíft fram að sú breyting sem við ræðum í frumvarpinu sé fyrst og fremst formbreyting en ekki efnisbreyting. Við þær aðstæður ætti að liggja í augum uppi hvort sú jákvæða skilgreining sem er í gildandi vatnalögum og skilgreinir nokkuð vel þau réttindi sem landeigandi á þegar kemur að vatni, geri svo á tæmandi hátt. Fær sú skilgreining haldið sér? Ef sú skilgreining heldur sér er ljóst að þeim deilum sem hér hafa orðið mun ljúka hratt og örugglega. Þá væru menn ekki að breyta neinu og þeir aðeins að grisja gildandi lög, sem færa má rök fyrir að nauðsynlegt hafi verið að gera, en að öðru leyti sé ekki hugmyndin að breyta neinu hvað varðar réttindi landeiganda þegar kemur að vatni.

Ef þetta væri veruleikinn þá væri enginn vandi. Þá væri enginn vandi að ljúka þessari umræðu með sátt milli meiri og minni hluta þannig að menn féllust á þá skilgreiningu sem nú er á réttindum landeiganda í lögum, að þau fengju haldið sér. Enginn virðist vilja fara þá leið og því er óhjákvæmilegt að draga þá ályktun að aðeins sé um að ræða fyrirslátt og ekkert annað. Þegar menn fara yfir söguna í þessu samhengi er óskaplega gróft að halda því fram að lög þessi breyti engu. Um leið segja menn að deilur sem stóðu í mörg ár í samfélaginu á síðustu öld hafi í reynd verið misskilningur, hafi í reynd verið deilur um form sem engu máli skipti. Núna árið 2006 dúkkar hæstv. viðskiptaráðherra upp og hæstv. forsætisráðherra og þau upplýsa okkur um það í þessu frumvarpi að þær deilur hafi í reynd verið tómur misskilningur sem enginn hafi komið auga á fyrr en þau komust til valda.

Ég tel eðlilegra að ræða þessi mál í því samhengi að um ríkisstjórnina má þó segja að hún er samkvæm sjálfri sér. Hún hefur lagt sig hart fram við að einkavæða auðlindir samfélagsins. Einkavæða auðlindir sem flestir hafa talið sameign þjóðarinnar og viljað halda þeim þannig. Nefna mætti fiskstofnana í sjónum, grunnvatn, jarðhita. Svo má nefna vatnið sem ríkisstjórnin telur, af einhverjum óútskýrðum ástæðum, gríðarleg nauðsyn á að einkavæða, að gera vatnið að séreign og fella það undir sérstakan eignarrétt landeiganda.

Í umræðunum sem farið hafa fram hafa menn að sjálfsögðu farið mjög vandlega yfir það sem deilurnar snerust á sínum tíma. Deilurnar snerust ekki hvað minnst um að menn vildu átta sig á hver væri réttarstaðan fyrir tíma vatnalaganna. Hvernig var eignarréttindum að vatnsréttindum háttað áður en þau lög sem nú eru í gildi, vatnalögin frá 1923, tóku gildi? Um þetta spunnust miklar deilur. Menn lögðust í mikið rannsóknarstarf. Helstu lögbækur voru lesnar og skýrðar og sýndist sitt hverjum í þeim efnum. Fór það eftir því hvaða viðhorf menn höfðu til þess hvers eðlis vatn væri hvort þeir töldu það eignarréttarhæft. Út frá því skiptust menn eftir því hvort þeir voru hlynntir allsherjareignarrétti á vatni eða hlynntir einkaeignarrétti á vatni. Um þetta snerist vinnan í fossanefndinni á sínum tíma að miklu leyti.

Eins og komið hefur fram í þessari umræðu og hefur verið rakið af mörgum hv. ræðumönnum klofnaði fossanefndin í tvennt í málinu, annars vegar í meiri hluta sem taldi að allsherjareignarréttur að vatni ætti að vera við lýði og hins vegar í minni hluta fossanefndar sem vildi fara séreignarleiðina. Þetta voru þær tvær meginstefnur sem fossanefndin klofnaði upp í á sínum tíma. Í framhaldi af niðurstöðu fossanefndar fór fram vinna í þinginu. Í þinginu voru flutt frumvörp til vatnalaga árin 1920 og 1921, bæði af landsstjórninni, sem þá var kölluð, bæði þeirra er studdu álit meiri hluta fossanefndar og hins vegar þeirra sem studdu álit minni hluta fossanefndar. Umræðan um þetta mál var því mjög mikil.

Það má halda því fram og segja fullum fetum að niðurstaða í þessar deilur hafi ekki fengist fyrr en Alþingi tók af skarið árið 1923. Þá samþykkti Alþingi núgildandi vatnalög með ákvæðum sem þar eru inni. Í vatnalögunum er kveðið á um að ríkið eða enginn, eftir því hvernig menn vilja túlka það, eigi vatnið en réttindin eru skilgreind á jákvæðan hátt, þ.e. þau eru tæmandi talin í vatnalögunum, hvaða réttindi eigandinn hefur. Þetta er lykilatriði og í niðurstöðu Alþingis kemur klárlega fram að niðurstaða meiri hluta fossanefndar, að enginn hafi átt vatnið, er í raun og veru niðurstaða Alþingis.

Í 2. gr. laganna segir, með leyfi forseta:

„Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“

Það er að segja að lögin kveða á um réttindin. Með öðrum orðum er kveðið á um það í almennum lögum hver réttindin séu og farin önnur leið en hefðbundin er við að skilgreina eignarrétt, sem oftast er skilgreindur á neikvæðan hátt. Þar er farin önnur leið vegna þess að menn töldu vatnið svo sérstakt. Menn töldu um svo mikilvæga auðlind að ræða og vissu að vatnið er forsenda lífs. Menn töldu ekki koma til álita að kveða á um séreignarrétt á vatni. Þetta var í raun niðurstaða Alþingis á sínum tíma þegar kom að því að afgreiða þetta mál. Þessi niðurstaða endurspeglast mjög í ræðu eins helsta talsmanns minni hluta fossanefndar, Sveins Ólafssonar frá Firði, sem talaði þannig á Alþingi þegar lögin voru endanlega samþykkt. Sveinn hafði setið í fossanefnd á sínum tíma og var einn helsti talsmaður séreignar á vatnsréttindum. Hann sagði, eftir að Alþingi hafði breytt frumvarpi Einars Arnórssonar á sínum tíma sem hann lagði fram og kallað var „bræðingurinn“, að með afgreiðslu Alþingis á þessari 2. gr. væri þeirri leið sem minni hluti fossanefndar lagði til í raun hafnað, þar með væri fótum kippt undan því að vatnsréttindi yrðu einhvers konar séreignarréttur. Það er gerð ágæt grein fyrir þessu í grein Sigurðar Gizurarsonar sem heitir „Fossanefndin 1917–1919“. Þar segir, þegar kemur að umfjöllun um þessa afgreiðslu, með leyfi forseta:

„Þótt meiri hluti deildarinnar styddi frumvarp stjórnarinnar var þó samþykkt breytingartillaga Bjarna Jónssonar frá Vogi og Jóns Þorlákssonar við 2. gr. frumvarpsins. Hún fól í sér frávik frá upphaflegri gerð textans sem hafði verið orðaður á annan veg. Orðalaginu var breytt á þann veg að landeigandi ætti rétt til umráða og hagnýtingar yfir vatni og landi sínu á þann hátt sem lög þessi heimila.“ — Ég hef áður nefnt það. Svo segir í grein Sigurðar Gizurarsonar: „Þetta tók Sveinn Ólafsson í Firði mjög óstinnt upp og taldi að með slíkri grundvallarbreytingu á frumvarpinu að væri lagastoðum kippt undan einkaeignarrétti á vatni. Kvað hann með þessu unnin spjöll á ákvæði 2. gr. frumvarpsins svo það skilgreindi ekki lengur eignarrétt landeiganda á vatni.“

Þetta var afstaða helsta talsmanns minni hluta fossanefndar þegar Alþingi afgreiddi frumvarp til vatnalaga sem enn er í gildi. Af hálfu ríkisstjórnarinnar er ætlunin að breyta því á þann veg að taka upp og lögleiða í reynd afstöðu minni hluta fossanefndar, sem vildi tryggja séreign landeigenda að vatni. Þetta er mjög athyglisverð afstaða í ljósi sögunnar. Það er allt að því vanvirðing við söguna þegar því er haldið fram af stjórnarliðum að með þessari breytingu sé aðeins ráðist í formbreytingu en ekki efnisbreytingu. Með því er í reynd sagt að deilurnar sem hér voru uppi og segja má að hafi staðið í starfi fossanefndar og næstu fögur árin eftir, þ.e. sex ára umræða, hafi í reynd verið tómur misskilningur og aldrei snúist um neitt sem máli skipti. En þegar menn halda því fram að þetta skipti engu máli þá gætu þeir allt eins haldið því fram. Þeir eru í reynd að fullyrða að sú tæmandi talning sem nú er í lögunum dugi fyrir allan hugsanlegan og óhugsanlegan nýtingarrétt á vatni, sem er að sjálfsögðu ekki. Menn gleyma því sennilega vísvitandi þegar fjallað er um þetta, að þegar kemur að vatni þá er langt frá því að við getum fullyrt að ekki muni koma upp fleiri nýtingarmöguleikar á vatni en við þekkjum í dag.

Ef við reynum að setja þetta í samhengi þá má segja að ef eignarréttur er skilgreindur á neikvæðan hátt fellur allur hugsanlegur og óhugsanlegur nýtingarréttur á vatni sem kann að koma upp í framtíðinni undir hina neikvæðu skilgreiningu. Allir viðbótarnýtingarmöguleikar falla því sjálfkrafa undir. Ef við höldum okkur á hinn bóginn við þá leið sem farin var 1923, þar sem þetta var skilgreint á jákvæðan hátt, þá yrði Alþingi að koma að því að heimila nýja aðferð til nýtingar á vatni. Það er stór munur á því hvort eignarréttindi eru skilgreind á jákvæðan eða neikvæðan hátt. Meðan eignarrétturinn er skilgreindur á jákvæðan hátt og réttindin þannig upp byggð að þau eru veitt með almennum lögum þá er hugsanlegt að þeim megi breyta með almennum lögum. Sé þetta á hinn bóginn skilgreint á þann hátt sem ríkisstjórnin hyggst gera þá er ljóst að möguleikar Alþingis á að breyta þessum réttindum eru mjög takmarkaðir, nema miklar bætur kunni að koma til. Vegferð ríkisstjórnarinnar í þessu máli og röksemdafærsla hennar í málinu heldur því ekki þegar grannt er skoðað.

Skort hefur á að ríkisstjórnin og ráðherrar hennar upplýsi okkur um hvers vegna svo mikil nauðsyn er á að breyta lögum sem hafa reynst vel allan þennan tíma, líkt og hér er kveðið á um. Ég nefndi í upphafi máls míns að ekkert væri óeðlilegt við að fara í gegnum lögin og jafnvel grisja þau þar sem tími og tíðarandi hefur breytt ástandinu frá því að þau voru samin. En skilgreiningin á eignarréttindunum hefur ekkert með það að gera. Það væri heiðarlegra af ríkisstjórninni og fulltrúum hennar að stíga fram í þessa umræðu og segja: Við viljum einkavæða auðlindir landsins. Það væri miklu heiðarlegra og ærlegra að segja það í stað þess að reyna að fela sig á bak við ýmsa fræðimenn og túlkanir á dómum um að þeim beri að gera svo, að það sé þeirra kvöð og skylda að breyta lögum með þessum hætti.

Það er líka athyglisvert í röksemdafærslu ríkisstjórnarinnar að í dag er beitt rökum sem menn fundu allt til foráttu í gær. Í dag er hægt að nota rök sem þóttu ómöguleg í gær. Núna liggur lífið á að breyta lögum í takt við viðhorf fræðimanna og dóma sem menn hafa leyft sér að túlka frjálslega, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Einn helsti dómurinn sem stjórnarliðið hefur notað til að skýra nauðsyn þess að gera vatnsréttindi að einkaeignarréttindum landeigenda er t.d. dómur sem nokkrir hafa vísað til frá 1954, í svokölluðu Kífsármáli. Þar voru málavextir þeir að Akureyrarkaupstaður tók fyrir misgáning vatn á vatnsveitu sína úr lindum í landi Kífsár í Glæsibæjarhreppi. Bóndinn krafði kaupstaðinn um bætur fyrir vatnstökuna og beiddist mats á bótum. Af hálfu kaupstaðarins var því neitað að matsmenn gætu metið bóndanum bætur þar eð matsbeiðandi væri ekki eigandi vatnsins, en það var ekki eignarrétti háð að lögum. Á þau rök kaupstaðarins féllust hvorki matsmenn né dómstólar. Undirréttur vísaði til ákvæðis vatnalaga, nr. 15/1923, greinargerða með þeim o.s.frv. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu.

Þessi dómur hefur m.a. verið notaður til að segja að dómstólar hafi komist að þeirri niðurstöðu að vatnsréttindi á landi séu eignarréttur í þeim skilningi sem við notum um önnur eignarréttindi. Veruleikinn er hins vegar sá að í vatnalögunum er kveðið á um hver tiltekin réttindi landeigenda eru, enda segir Sigurður Gizurarson í útskýringum á þessum dómi, með leyfi forseta:

„Málið snerist í raun um lindarvatn sem sérreglur gilda um í 9. gr. vatnalaganna, en til þess ákvæðis var ekki vitnað í dómunum. Auk þess snerist málið um virkjaðar lindir þar eð vatnið var sérgreint. Umráðaréttinn yfir lindunum hafði landeigandinn átt samkvæmt nefndu lagaákvæði og því jafnframt átt réttinn til þess að virkja lindirnar og öðrum var ekki heimilt að fara inn á land hans til að koma þar fyrir mannvirkjum til virkjunar á uppsprettum. Virkjað vatn er sérgreint vatn um leið og það er komið inn í leiðslur vatnsveitu.“

Með öðrum orðum má því segja um þann dóm sem hér hefur verið notaður ítrekað til að staðfesta það að réttindi langeigenda yfir vatni séu eignarréttur í hefðbundnum skilningi þess orðs, í reynd ekkert annað en að dómurinn dæmdi samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi og vísaði nákvæmlega í samræmi við þær heimildir sem hin jákvæða skilgreining á umráða- og nýtingarréttinum er í vatnalögum. Hér er því aðeins um útúrsnúning að ræða og mjög er frjálslega farið með mat á dómum. Verð ég að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að mér hefur þótt þetta miður því að til þessa dóms hefur ítrekað verið vitnað hér í umræðunni og í reynd ekki í neinum takti við það sem veruleikinn segir til um.

Þegar ég sagði áðan að rök gærdagsins duga ekki í dag var ég að vísa til þess að fyrir nokkrum árum féllu dómar þar sem tiltekin lagasetning eða lagaákvæði sem núverandi hæstv. ríkisstjórn stóð fyrir og keyrði í gegnum þingið var dæmd á þann veg að hún var ekki talin samræmast ákvæðum stjórnarskrár. Má hér vísa til málefna er varða öryrkja, málefni er varða kvótakerfið og önnur slík. Þá var afstaða manna afar skýr. Þá var umræðan í raun þannig að dómstólarnir vissu nánast ekkert hvað þeir voru að gera. Og ekki má gleyma því að einn helsti talsmaður þessara viðhorfa, Jón Steinar Gunnlaugsson, núverandi hæstaréttardómari, sem kannski fór fyrir þessari umræðu og ýmsir hæstv. ráðherrar fylgdu í kjölfarið, sagði að það væri ekki dómstólanna að setja lögin, það væri Alþingis að taka afstöðu til laganna og lagasetningar. En hér eru allt önnur sjónarmið uppi. Hér er ríkisstjórnin, eins og hún leggur málið fram, þolandi að því að tiltekin réttarþróun hefur átt sér stað eins og þeir lýsa þessari réttarþróun.

Það er afar athyglisvert að þegar það hentar, þegar það á við, þegar það samræmist stefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma, þá er sjálfsagt og eðlilegt að fylgja niðurstöðum fræðimanna, að fylgja meintum niðurstöðum dómstóla, af því að það hentar. En þegar það hentar ekki þá eru dómstólarnir ómögulegir fyrir að skipta sér af deilumálum í pólitík, viðkvæmum málum, en ekki að dæma samkvæmt lagareglum. Þetta er afar athyglisverð afstaða sem menn nota í þessu tiltekna máli og má eiginlega segja sem svo, ef marka má það sem fram hefur komið, að þeir séu miklir þolendur í þessu og þeir neyðist vegna þessarar túlkunar að einkavæða vatnið.

Á þessu ferðalagi og tilraunum við að einkavæða vatnið er víða komið við. Áður en ég fer frekar yfir afstöðu og skoðanir Einars Arnórssonar sem á sínum tíma samdi vatnalagafrumvarpið sem síðar varð að lögum og afstöðu hans til vatnsréttinda og afstöðu hans til hugsanlegra eignarréttinda að vatni þá langar mig samhengisins vegna að fara aðeins yfir skrif Ólafs Lárussonar sem mjög hefur verið teflt fram í þessari umræðu sem eins hinna helstu fræðimanna á þessu sviði í gegnum tíðina. Ég get tekið heils hugar undir það. Það er fróðlegt að líta í hans skrif þegar kemur að því að fjalla um eignarréttindi að vatni. Ég taldi mig, virðulegi forseti, vera með rit hans eða grein sem hann skrifaði sennilega 1932, ef ég man þetta rétt. Í þeirri grein fer hann einmitt ítarlega yfir það hvort vatnsréttindi geti verið eignarréttindi. Það var eins og ég nefndi fyrr í minni ræðu grundvallarspurning fossanefndar sem hafði það að meginstefnu að greina hver réttarstaðan var á Íslandi áður en vatnalögin voru sett. Ég trúi ekki öðru, virðulegi forseti, en þetta rit sé hér einhvers staðar. Það er kannski rétt að ég komi að því síðar og noti tækifærið til að fara aðeins yfir skrif Einars Arnórssonar um vatnsréttindi. Eins og flestum er kunnugt eftir þessa umræðu sem hefur verið löng og ströng var Einar ritari fossanefndar og einhver virtasti lögfræðingur þess tíma. Hann tók heils hugar undir niðurstöðu meiri hluta fossanefndar og skrifaði síðan ítarlega ritgerð um það hver væru réttindi yfir vatni og velti fyrir sér þeirri spurningu hvort unnt sé að eiga réttindi yfir vatni. Hann orðar spurninguna svo: „Er eftir hlutarins eðli unnt að hafa eignarrétt yfir vatni?“ Ég vísa þá í Einar Arnórsson og ritgerð hans um vatnsréttindi, með leyfi forseta:

„Eignarréttur er enn fremur tekinn í merkingunni heimild eða vald til að fara með verðmæti, ráðstafa því í allar áttir innan takmarka löggjafarinnar og innan þeirra takmarka er eigandi hefur sjálfur gert í þágu annarra. Vatni má skipta í tvær greinir í þessu sambandi, fljótandi vatn, fast og frosið. En fljótandi vatni má aftur skipta í tvær deildir, straumvatn og stöðuvatn.

Áður en talað verður um eignarrétt að hverri tegund vatns fyrir sig skulu gerðar nokkrar athugasemdir sem taka til alls þess vatns sem á þennan hnött fellur án þess að til greina komi í hvaða líki það er þá eða hvaða líki það fær síðar meðan það er á yfirborði landsins.

Það er öllu vatni sameiginlegt að það fellur niður á jörðina úr gufuhvolfinu kringum jörðina. Sumt af því vatni sem á jörðina kemur tekur jarðargróðurinn, sumt fer til manna, dýra, til drykkjar og annars. Nokkuð sígur niður í jarðlögin, seytlar um þau og breytir þeim á ýmsan hátt. Sumt safnast í tjarnir, stöðuvötn, ár og læki. Sameiginlegt er það því næst að allt þetta vatn, hvernig sem um það fer meðan það er í fljótandi líki á jörð eða í, gufar aftur upp af jörðinni að meira leyti eða minna jafnskjótt sem hitinn, aðallega sólarhitinn, fær að verka á það og verður loftkennt. Þegar svo loftið verður meitlað af vatnsgufu þéttist hún og verður að fljótandi efni, vatni, að nýju sem svo fellur aftur á jörðina. Síðan er það notað á henni sem fyrr var sagt, gufar upp og svo koll af kolli. Sum úrkoman sú er til jarðar fellur í föstu líki þarf að bráðna áður eða um leið og hún verður að fljótandi efni, vatni. Mikið af því vatni sem í árfarvegum vorum rennur er þannig til komið.“

Síðan spyr Einar, með leyfi forseta:

„En hver á þá tilkall til alls þessa vatns?“

Og Einar svarar, með leyfi forseta:

„Eftir eðli málsins getur enginn átt það sérstaklega. Svo víst sem enginn á skýin sem vatnið eða snjórinn fellur úr, svo víst er það og að enginn á neitt einkatilkall til vatnsins. Vatnið er eftir eðli sínu allsherjargagn eins og loft og ljós. Allir eiga að fá það til þurftar sinnar, svo sem til drykkjar og matar, handa skepnum sínum, til þess að vökva grasið á jörðinni, til að þess veita því á hana til iðju sinnar og iðnaðar með eða án orkunýtingar þess, og engan má útilokað frá því. Þannig er það almennt. En það er ekki þar með sagt að vatn geti ekki eða eigi ekki að vera undirorpið einkaumráðum ákveðins manns eða ákveðinna manna þegar þeir hafa kostað einhverju til að handsama það og þegar sá verknaður hefur heppnast. Til þess að vatn geti verið eignarhæft verður að aðgreina það frá öðru vatni.“

Einar Arnórsson telur með öðrum orðum að vatn sé ekki eignarhæft nema það hafi verið sérstaklega aðgreint. Í reynd er það þannig í þeim dómi sem ég vísaði til áðan og stjórnarliðar hafa notað að einhverju leyti máli sínu til stuðnings að Hæstiréttur sagði eitthvað á þá leið að þar sem vatnið væri sérgreint og, í takt við það sem Einar Arnórsson hér segir og Ólafur Lárusson einnig, þá hafi gilt um þetta þær reglur sem þar er kveðið á um.

Einar heldur áfram í þessu mjög svo athyglisverða og merka riti sínu og kemst í raun að þeirri niðurstöðu að afar óeðlilegt sé að nokkur einn einstaklingur geti átt vatnið. Ég vil leyfa mér að fullyrða að miðað við þau tilteknu viðhorf sem Einar hafði og eru algerlega í takt við álit meiri hluta fossanefndar — Einar samdi vatnalögin sem Alþingi afgreiddi á sínum tíma á þann hátt sem það og gerði — þá er ekki hægt að túlka vatnalögin á annan veg en þann að niðurstaða Alþingis hafi þá verið sú að að enginn ætti vatnið, hugsanlega ætti ríkið vatnið, en almannavaldið hafi haft heimild til þess að fela landeigendum tiltekinn umráða- og hagnýtingarrétt. Veruleikinn er sá að þetta hefur reynst nokkuð vel. Það eru ekki margir dómar sem hafa fallið vegna þessara laga vegna þess að ekki hafa verið nein vandkvæði að skýra þetta á þann hátt sem raun ber vitni.

En nú skyndilega dúkkar upp á árinu 2006 ríkisstjórn sem hefur haft það að meginmarkmiði að einkavæða auðlindir landsmanna. Nú telur hún fátt mikilvægara í þessu lífi en að skilgreina þetta upp á nýtt. Það sorglega við þetta er að ríkisstjórnin leggur málið í raun upp á fölskum forsendum. Hún segir: Þetta er formbreyting en ekki efnisbreyting. En ríkisstjórnin er ekki tilbúin til þess að skilgreina vatnsréttindi á sama hátt áfram sem hingað til, hún er ekki tilbúin til þess. Ríkisstjórnin vill finna upp nýja skilgreiningu á eignarrétti yfir vatni. Og hvernig má það vera þegar því er haldið fram í öðru orðinu að þetta sé formbreyting en ekki efnisbreyting en í hinu er hún ekki tilbúin til að viðhalda þeirri skilgreiningu áfram?

Í umræðunni sem bæði hefur verið löng og ströng hefur heldur ekki komið fram hvað það er sem krefst breytingar á þessum ákvæðum. Ég hef áður vikið að því í máli mínu að ekkert óeðlilegt er við það að gerðar séu ákveðnar hreinsanir á gömlum lögum, að ákveðin grisjun eigi sér stað. Það er ekkert óeðlilegt við það. En það hafa ekki verið nein vandkvæði með þessa skilgreiningu á réttindum landeiganda hingað til. Þetta er veruleikinn og þess vegna vil ég ítreka það sem ég sagði fyrr í ræðu minni að fullyrðingar um að hér sé bara um formbreytingu en ekki efnisbreytingu að ræða er í raun og veru vanvirðing við það mikla starf sem fram fór í kringum 1920, þau sex ár þar í kring, sem snerist um þetta kjarnaatriði. Og það væri miklu eðlilegra, heiðarlegra og skynsamlegra að ríkisstjórnin legði fram það mál sem við ræðum hér núna og segði einfaldlega: Við erum séreignarsinnar. Við viljum einkavæða auðlindir þessa lands. Það væri miklu eðlilegra en að skáka í svona aumu skjóli, að treysta sér ekki til þess að stíga fram og segja hvað menn í raun vilja, heldur skýla sér á bak við fræðimenn og tiltekna dóma, því að á endanum snýst þetta náttúrlega um pólitík, endalaust snýst þetta um lífsafstöðu manna, á endanum snýst þetta um afstöðu manna til þessarar grundvallarauðlindar sem sennilega mun ekki gera neitt annað, þ.e. vatnsauðlindin, en að verða verðmætari og verðmætari eftir því sem tímar líða. En áður en það gerist verður ríkisstjórnin að einkavæða vatnið. Á ýmsu hefur maður átt von frá núverandi ríkisstjórn en ég skal viðurkenna að það að einkavæða vatnið er eitthvað sem ég átti ekki von á. En úr því að hún ákvað að fara í þetta hefði verið miklu heiðarlegra og ærlegra að segja það, en ekki að fela sig á bak við jafnvel gengna fræðimenn og útúrsnúninga úr dómum. Þetta finnst mér alveg óskaplega lítilmótlegt af hálfu ríkisstjórnarinnar að stinga sér inn í þetta mál á þann hátt sem hún hefur gert.

Ég hef ekki í umræðunni gert skil athyglisverðri ræðu sem hv. — hér finn ég loksins það gagn sem ég hef verið að leita að og taldi víst að ég væri með í pontu og það kemur í ljós að ég var með það, sem ég og taldi. En þetta er athyglisverð grein eða rit eftir Ólaf Lárusson og vitnað hefur verið nokkuð mikið til í umræðunni og hann jafnvel gerður að einhverju leyti ábyrgur fyrir þessari tilraun ríkisstjórnarinnar til að einkavæða vatnið, sem mér hefur fundist vera afar athyglisverð tilraun og vert að skoða frekar. En kafli þessi heitir: Skrifaðir kaflar úr hlutarétti. Vatnsréttur. Reykjavík –1929. Þetta er eitt af því sem vitnað hefur verið til í umræðum um það frumvarp sem við ræðum. Mér finnst til að halda öllu samhengi hlutanna og til að halda því öllu til haga, að rétt væri og mikilvægt þó ekki væri nema fyrir þingtíðindin, að upp úr þessu verði lesið og það þá staðfest hvað Ólafur Lárusson sagði í raun og veru um það sem ítrekað hefur verið vísað til í umræðunni að hann hafi sagt. Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að lesa í fyrsta lagi innganginn, í öðru lagi um vatn á yfirborði jarðar og í þriðja lagi umfjöllun hans um straumvatn. En svo segir, með leyfi forseta:

„Frá fornu fari hafa menn hagnýtt sér með ýmsum hætti vatn það sem á jörðinni er. Þeim notum er þannig farið að réttarreglur hljóta að myndast um þau fyrr eða síðar. Verða þær því margbreyttari og umferðarmeiri því margháttaðri sem vatnsorkan verður og eftir því sem menningin eykst og mönnum lærist betur að færa sér í nyt vatnið og afl það sem í því býr.“

Í þessum orðum felst í rauninni það að menningin, lærdómurinn og tækniþekkingin beri það með sér að nýtingarmöguleikar vatns geti orðið meiri og meiri. Það er það sem ég vísaði til í upphafi ræðu minnar sem mun skipta sköpum ef fleiri nýtingarmöguleikar á vatni finnast í framtíðinni, að sú skilgreining sem hér er verið að fara í á eignarrétti landeigenda á vatni mun sjálfkrafa falla þar undir. Þegar menn segja að einungis sé um formbreytingu að ræða en ekki efnisbreytingu þá er það vitaskuld ekki rétt. Og áfram heldur Ólafur Lárusson, með leyfi forseta:

„Einn aðalþátturinn í þessum réttarreglum eru reglurnar um rétt manna til að nota vatn. Sá réttur nefnist vatnsréttur. Er hér aðeins átt við einstaklingsrétt, þ.e. rétt sem heimilar að meira eða minna leyti að útiloka aðra frá afnotum vatnsins. Réttur sá er 11. gr. vatnalaga ræðir um fellur því eigi undir vatnsréttindi. Skoðanir manna um eðli vatnsréttindanna hafa verið skiptar, einkum um það að hve miklu leyti þau væru afleiðing af eignarrétti yfir vatninu. Er því nauðsynlegt að skýra þetta atriði fyrst og þá einkum athuga hvort og að hve miklu leyti vatn geti verið eignarrétti háð. Vatn getur verið á ýmsum stöðum og í ýmsum myndum. Það getur verið í gufuhvolfi jarðar, á yfirborði jarðar og undir því. Það getur bæði verið fast og fljótandi. Fljótandi vatn getur ýmist verið straum- eða stöðuvatn. Þar sem vatninu er svo misjafnlega háttað er viðbúið að ólíkar reglur gildi um það, hverjum réttindum það geti verið háð eftir því hvernig er ástatt um það. Spurningunni um eðli vatnsréttinda verður því eigi svarað í einu lagi.“

Hér veltir Ólafur Lárusson, sá fræðimaður því upp hvort vatn geti verið eignarrétti háð og svarar því til að það kunni að vera mismunandi sjónarmið eftir því hvert sé eðli vatnsréttinda. Það er því alrangt sem hér hefur verið haldið fram í umræðunni að skrif hans og fullyrðingar standi sem einhver stoð undir því að einkavæða vatnið, þ.e. færa í lög einkaeignarrétt á vatni. Ólafur heldur áfram og fjallar um vatn á yfirborði jarðar, með leyfi forseta:

„Sumir hafa haldið því fram að vatnið á yfirborði jarðar væri eftir eðli sínu allsherjargagn og geti ekki verið eignarrétti háð fyrr en það hafi verið nægilega aðgreint og því aðeins að það sé verðmætt. Telja menn þetta leiða af því að vatn sem safnast á vatnsveg sé tilkomið fyrir úrkomu á svæðum sem oft séu mjög stór, að vatnið falli úr loftinu og gufi aftur upp og sé það því eins víst að enginn eigi einkatilkall til þess eins og það að enginn eigi skýin sem það kemur úr. Þá telja menn og það styðji þessa skoðun að vatnið sé öllum jafnnauðsynlegt sem loft og ljós. Enn fremur sé vatnið venjulega verðlaust og ýmis tæki þurfi til að greina það frá öðru vatni og sé það ekki eignarhæft fyrr en sú aðgreining hefur farið fram.“

Og áfram heldur Ólafur:

„Það er satt að vatnið er öllum mönnum nauðsynlegt en af því leiðir ekkert frekar en það að lögin eiga að tryggja öllum nauðsynleg vatnsnot, en til þess þyrfti ekki að fara lengra en að takmarka rétt vatnseiganda. Ekki geta öll vatnsnot talist til slíkra nauðsynja. Sum þeirra gætu af þessum sökum vel verið einstaklingsréttindi, t.d. það að vinna orku úr vatni, taka ís á vatni til frystingar o.m.fl. Um verðmæti vatnsins er þess fyrst að geta að flest vatnsnot eru verðmæti í þeim skilningi að þau mundu gefa þeim er ættu rétt til þeirra betri fjárhagslega afstöðu en öðrum en auk þess er nokkurt efamál hvort einskorða á hlutaréttindi við hluti sem hafa verið í viðskiptum manna …“

Ólafur kemst í raun og veru að þeirri niðurstöðu að hann telur ekki „að almennar röksemdir verði færðar að því að vatn yfirleitt sé ekki eignarhæft,“ — þ.e. hann segir að vatn geti verið eignarhæft í tilteknum tilvikum alveg eins og er í vatnalögunum. Í tilteknum afmörkuðum tilvikum sem almenn lög kveða á um og Alþingi hefur þegar skilgreint á jákvæðan hátt er viðurkenndur umráða-, hagnýtingar- og nýtingarréttur landeigenda — „en vera mætti að því væri svo varið um sumt vatn er sérstaklega er ástatt um og skal það atriði því athugað næst og þá fyrst og fremst gerður munur á straumvatni og stöðuvatni.“

Nú ætla ég að leyfa mér, virðulegi forseti, að lesa umfjöllun Ólafs Lárussonar um straumvatn:

„Ef til vill mætti greina þannig milli straumvatns og stöðuvatns að straumvatn væri allt það vatn er væri á sífelldri hreyfingu af því það samkvæmt þyngdarlögmálinu leitaði frá hærri stað á lægri. Samkvæmt því eru sums staðar öll vötn sem afrennsli hafa ofan jarðar talin straumvötn. En hér á landi er aðgreiningin ekki byggð á þessu einu, hvorki í daglegu máli né að lögum …

Hreyfingin á vatninu er misjafnlega mikil en þegar hún er svo lítil að hennar verður lítt eða ekki vart mun rétt að telja vatnið stöðuvatn, eins fyrir því þótt það hafi afrennsli ofan jarðar.

Takmörkin milli straumvatns og stöðuvatns verða því ekki glögg, þau fara eftir mati á því hve mikils straums gætir. Það er sameiginlegt öllu straumvatni að það er á sífelldri hreyfingu eftir farveginum frá einum stað til annars, það berst óðfluga frá einni fasteign til annarrar. Ef talið væri að eigandi fasteignarinnar ætti vatn það sem um hana rennur á hverjum tíma, þá væri sá eignarréttur næsta hverfull skammvinnur. Eftir örstutta stund væri vatnið komið inn á aðra fasteign, eigendaskipti orðið að því og svo koll af kolli. Það væri óeðlilegt að telja svo stopulan rétt eignarrétt eða yfirleitt sjálfstæðan hlutarétt. Þess vegna verður rennandi vatn ekki talinn eignarhæfur hlutur. Heimild til þess að færa sér það í nyt er því hvorki sjálfstæður hlutaréttur né afleiðing af eignarrétti yfir því.“

Með öðrum orðum segir Ólafur í þessari grein að rennandi vatn geti ekki talist eignarhæfur hlutur. Ég held að mikilvægt sé, virðulegi forseti, að það sem hann segir um þessa hluti komi fram í umræðunni og ekki sé verið að vísa sí og æ til hinna ýmsu fræðimanna, virtra, um að þeir fullyrði að sú nýja skilgreining sem frumvarpið felur í sér á eignarrétti á vatni standi á bak við þessa skilgreiningu fullum fetum. Ég held að það sé afar mikilvægt, virðulegi forseti, að þetta komi fram í umræðunni.

Áður en ég kem frekar að frumvarpi því sem við ræðum hef ég, eins og hér hefur komið nokkuð glögglega fram, reynt að fara aðeins yfir sögulegar forsendur vatnalaganna, tilurð þeirra og þá umræðu og vinnu sem fram fór í aðdraganda þeirrar lagasetningar. Það er nefnilega afar mikilvægt að menn átti sig á samhengi þess hvernig lögin líta út og þeirrar miklu vinnu sem fram fór áður en lögin voru afgreidd frá hinu háa Alþingi.

Því hefur einnig verið haldið fram í umræðunni að sú hugmynd sem ríkisstjórnin og sá meiri hluti sem hún styðst við á hinu háa Alþingi hyggst lögfesta eigi sér fyrirmyndir í norrænum rétti. Þegar norsku lögin, sem eru nr. 82 frá 24. nóvember árið 2000, voru lögfest var einmitt farið í það að fjalla um í 13. gr. þeirra laga um ráðstöfunarrétt landeigenda á vatni en þar segir, með leyfi forseta:

„Vatnasvæðið tilheyrir eiganda landsins sem það er á ef annað er ekki ákveðið með sérstökum réttarreglum. Ef vatnasvæðið er að öllu leyti eða að hluta í sameign gilda reglur í lögum um sameign og tengsl sameigenda.“

Það sem fram kemur í norsku lögunum er að farin er sú leið, þ.e. þessi jákvæða skilgreining að það er talið upp í lögunum, þ.e. í almennum lögunum er kveðið á um hvaða rétt landeigandi hefur. Það kemur hvergi fram í norsku lögunum, a.m.k. ekki svo ég hafi séð, að markmið þeirra sé að kveða á um skýrt eignarhald á vatni og ég held, virðulegi forseti, að við getum sennilega ekki vísað til nokkurs lands eða nokkurrar þjóðar sem við viljum bera okkur saman við sem hefur lagt upp í þá vegferð að einkavæða vatn.

Í nýlegri vatnatilskipun sem Evrópusambandið hefur látið frá sér fara er meginreglan sú að vatn verði ekki almenn verslunarvara. Í Evrópu hefur meginstraumurinn í þessu verið sá að vatn sé allsherjareign. Og jafnvel þó að ekki hafi verið nákvæmlega sami taktur á Norðurlöndum fæ ég ekki séð að við finnum nokkurt land sem hefur ákveðið að fara þá leið sem hér er lögð til nema ef vera kynni í Mið-Ameríku, þar sem stærri fyrirtæki hafa jafnvel keypt upp vatnsból, jafnvel þannig að þau hafa komist í þá aðstöðu að selja vatnið almenningi dýrum dómum. Eftir því sem ég kemst næst átti það sér stað í Bólivíu að fyrirtæki, jafnvel dótturfyrirtæki fyrirtækis sem er að framkvæma hér á landi, keypti upp vatnsból en bæjarbúar sögðu því stríð á hendur og nánast hröktu það úr bænum. Reyndar skilst mér að nú séu málaferli í gangi, þar sem þetta tiltekna fyrirtæki hefur stefnt ríkisstjórn Bólivíu til að greiða skaðabætur. En það er heldur miður ef í Mið-Ameríku eða jafnvel Suður-Afríku séu einustu fyrirmyndirnar sem við getum vísað til eða hægt er að jafna til þeirra hugmynda sem hér liggja fyrir á hinu háa Alþingi og birtast í því frumvarp sem við nú ræðum.

Hvað varðar hugmyndafræði frumvarpsins hefur, eins og hér hefur komið fram, meginumræðan snúist um skilgreiningu á eignarrétti yfir vatni og þá stefnu ríkisstjórnarinnar að einkavæða vatnið og þær tilraunir hennar til að setja þá stefnu sína í einhvern allt annan búning en sú stefna raunverulega er í.

Hins vegar er einnig ýmislegt annað í frumvarpinu sem minni athygli hefur fengið og ekki kannski fengið þá skoðun eða þá umræðu sem það á skilið en óhætt er að fullyrða, fyrir utan þetta markmið um að einkavæða vatnið, að hér er einnig verið að takmarka rétt almennings til að sækja vatn á landareignir frá því sem er í gildandi lögum. Í reynd er verið að herða einkaeignarréttinn eins og fram hefur komið og það segir í greinargerð á bls. 19, með leyfi forseta:

„Þar er fyrst og fremst um nýtingu markaðsgæða vatnsréttinda að ræða og er því réttur til nýtingar vatns og lands annarra að sama skapi minni og miðaður meira við jafnræði í markaðshag og ráðstöfunarrétti aðila yfir eignum sínum.“

Kannski er þetta eina tilvitnunin þar sem segja má að hin raunverulega stefna stjórnvalda, hið raunverulega markmið stjórnvalda komi sæmilega skýrt fram, þ.e. að fyrst og fremst er verið að ræða um að nýta markaðsgæði vatnsréttinda „og er því réttur til nýtingar vatns og lands annarra að sama skapi minni og miðaður meira við jafnræði í markaðshag og ráðstöfunarrétti aðila yfir eignum sínum.“

Hér er kannski að finna þá stefnu sem ríkisstjórnin síðan kappkostar við að afneita í öllum umræðum, hvort heldur þær eru í fjölmiðlum eða hér á hinu háa Alþingi, hvað menn raunverulega eru að gera þegar þeir reyna að lögfesta þessi ákvæði. Einnig hafa verið settar fram óformlegar hugmyndir um að leysa megi úr þessari deilu eða þessum ágreiningi meiri og minni hluta með því að taka upp nánast orðrétt það sem til að mynda hæstv. forsætisráðherra hefur sagt og fleiri um að hér sé ekki um efnisbreytingu að ræða heldur aðeins formbreytingu, taka þá þessa skilgreiningu upp sem er í gildandi lögum og menn sættist þá á að skilgreiningin á eignarréttinum verði sú sama og verið hefur. En það þarf ekki að koma á óvart og kemur kannski ekki nokkrum á óvart sem hefur kynnt sér þetta mál af einhverri alvöru að áhugi ríkisstjórnarinnar á því var enginn. Ríkisstjórnin hafði engan áhuga á að lenda málinu á hennar eigin forsendum, a.m.k. ef marka má það sem fram hefur komið í umræðu. Þetta í raun og veru staðfestir það sem við mörg hver höfum haldið fram að þessar hugmyndir eru settar fram á röngum forsendum.

Spurningin er hvaða afleiðingar það muni hafa í för með sér að réttur landeiganda til vatns verði styrktur jafnmikið og raun ber vitni frá því sem er í gildandi lögum. Menn hafa áhyggjur af þeirri spurningu. Menn hafa áhyggjur af svörunum við slíkum spurningum. Menn hafa áhyggjur af því að jafnmikilvæg auðlind komist á fárra hendur.

Við höfum verið að sjá miklar breytingar að undanförnu á því hvernig farið hefur verið með vatn. Við höfum verið að sjá vatnsveitur hverfa inn í stærri fyrirtæki, jafnvel fyrirtæki og hlutafélög sem síðar kunna að fara á markað og ekki þarf að fara mörgum orðum um það að sá sem hefur réttinn til að selja vatnið hefur geysilega sterka stöðu því að líkast til er vart til eftirsóknarverðari verðmæti en vatn og líklega er ekki til betri aðstaða fyrir nokkurn en að komast í þá stöðu að geta selt tilteknum hópi eða hafa einkarétt til að selja tilteknum hópi vatn.

Það þarf ekki að koma á óvart að miðað við sögu ríkisstjórnarinnar hafi hún ákveðið að fara þá leið sem við höfum mótmælt mjög harðlega og byggt það í raun og veru á þeirri forsendu að hér sé ekki um efnisbreytingu að ræða heldur formbreytingu og blessuð ríkisstjórnin sé svo ólánsöm að vegna dómaframkvæmda og viðhorfa fræðimanna sé henni nauðugur sá kostur að einkavæða vatnið. Henni var ekki nauðugur sá kostur að greiða öryrkjum það sem Hæstiréttur dæmdi á sínum tíma eða kvað á um að henni væri skylt að greiða. Þá rak neyðin ríkisstjórnina ekki áfram til að fara eftir og virða niðurstöður dómstóla. Þá voru allt aðrar hugmyndir uppi. Þá var látið sverfa til stáls. Þá var látið á það reyna til fulls hvort ríkisstjórnin gæti ekki staðið það af sér. En þegar kemur að því að viðhalda eða keyra fram þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur haft þegar kemur að auðlindum þessarar þjóðar þá horfa hlutirnir allt öðruvísi við. Þá er mikilvægt að keyra þetta áfram og eiginlega einkavæða eins margar auðlindir og nokkur er kostur.

Ég held að það sé afar nauðsynlegt að við skoðum þetta einnig í samhengi því fyrir nokkrum árum var hér starfandi og sett á laggirnar svokölluð auðlindanefnd sem m.a. átti að fjalla um nýtingu almennra auðlinda og einkum fiskstofnanna en þó nýtingu þeirra auðlinda sem landið býr yfir og hvernig við ættum að fara með þær auðlindir, hvernig við ættum að útdeila þeim og hvernig við ættum að tryggja að þær yrðu áfram í þjóðareign. Auðlindanefnd komst á endanum að niðurstöðu. Auðlindanefnd, þverpólitísk nefnd, lagði til að ákvæði um auðlindir í þjóðareign yrði sett í stjórnarskrá. Það hefur ekki verið forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar að fylgja þeirri hugmynd fram. Hún hefur talið flest annað mikilvægara en að keyra þá grundvallarhugmynd fram og það er það sem við erum að sjá og það er það sem er að birtast okkur í þessu tiltekna frumvarpi.

Þó að efnisákvæði þessa frumvarps, mörg hver, kalli á ítarlega og vandaða umræðu þá get ég ekki látið hjá líða áður en ég lýk máli mínu í þessari umræðu að fjalla um höfunda frumvarpsins sem hér liggur fyrir, því nú er það orðin lenska í íslenskum stjórnmálum að það eru ekki ráðherrar sem bera frumvörpin fram heldur eru það höfundar. Það eru einhverjir lögfræðingar úti í bæ sem bera helst hina pólitísku ábyrgð á þeim verkum sem ráðherrar eru að vinna og menn bera þá jafnan fyrir sig. (Gripið fram í: Fjölmiðlalögin.) Má nefna fjölmiðlalögin sem hér er kallað fram í, það má nefna breytingar sem menn eru að vinna að varðandi almenn hegningarlög og kynferðisbrot og það má nefna þetta frumvarp hér því það eru einhverjir höfundar úti í bæ sem bera talsverða ábyrgð á þessum málum og það eru þessir tilteknu höfundar sem koma fyrir þingnefndir og til þeirra er vitnað í almennri umræðu. Það er eins og ábyrgð ráðherra á frumvörpum sem lögð eru fram, einkanlega ef það eru ágreiningsmál, sé alveg í lágmarki. Það eru höfundarnir sem bera þessa ríku ábyrgð.

Þessir tilteknu höfundar komu fyrir iðnaðarnefnd núna í vikunni þar sem m.a. var farið yfir hvaða breytingar eigi sér stað að því er varðar eignarnám frá gildandi vatnalögum. Svör höfundanna sem fyrir iðnaðarnefnd komu voru á þá leið að eignarnámsákvæðunum í gildandi vatnalögum mætti lýsa sem einhvers konar „hrotta“, þ.e. þau eru tilgreind í allt að 40 tilvikum á 40 stöðum í gildandi vatnalögum, þau séu eins og vatnalögin voru þá hugsuð miðað við þá tækni og þær hugmyndir og þá notkunarmöguleika sem menn töldu vera til staðar hvað varðar vatn á þeim tíma og því séu eignarnámsákvæði gildandi vatnalaga á engan hátt til þess fallin að takast á við þær miklu framkvæmdir sem verið er að ráðast í á landinu að því er varðar virkjanir, vatnsflutning og fleira og því alger nauðsyn á að lögfesta ný ákvæði um eignarnám.

Við reyndum á þessum tiltekna fundi iðnaðarnefndar að kalla eftir svörum um hvort lögfesting þessa frumvarps með þeim eignarnámsákvæðum sem þar eru væru forsenda fyrir því að hægt væri að ráðast í hina miklu vatnsflutninga sem ætlunin er að ráðast í fyrir austan, jafnvel hugsanlega vatnsflutninga í Þjórsá og víðar og hvort lögfesting þessa eignarnámsákvæða væri forsenda fyrir að hægt væri að ráðast í þessar framkvæmdir ef til að mynda samningar tækjust ekki við landeiganda og hvort það mundi þá standa undir því að þau lönd væru tekin eignarnámi sem ekki tækjust samningar um.

Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að þrátt fyrir talsverða eftirfylgni þá gátum við ekki fengið svör við þessum spurningum. Þau einustu svör sem við fengum voru þau að gildandi eignarnámsákvæði mætti líta á sem einhvers konar „hrotta“ sem væri barn síns tíma og ætti í raun og veru í erfiðleikum með að standa undir þeim stórkostlegu vatnsflutningum sem menn hefðu núna tæki, tól og tækni til að ráðast í þar sem heilu árnar, heilu fljótin eru tekin og færð annað, eins og til að mynda Jökulsá á Dal.

Mér þótti afar miður að við skyldum ekki fá skýrari afstöðu eða upplýsingar um þetta tiltekna mál á þessum fundi en þetta voru þau svör sem við gátum dregið fram hjá höfundum eins og þeir eru kallaðir í hinni daglegu … (Gripið fram í: Ætli skilji það nokkur?) Nú treysti ég mér ekki til að fullyrða nokkuð um hvað það er sem ráðherrann skilur vel og hvað ekki og það er kannski heldur ekki í mínum verkahring að reyna að skilja það.

Virðulegi forseti. Í minni ræðu hef ég farið yfir það sem ég tel vera kjarnaatriðið í þessu máli. Ég fór yfir þá miklu vinnu sem unnin var í tengslum við það þegar vatnalögin voru lögfest. Ég fór yfir þá miklu vinnu sem menn lögðu í það að reyna að skilgreina hver vatnsréttindi landeigenda voru fyrir setningu vatnalaganna. Þar greindi menn mjög á en niðurstaða Alþingis var skýr eins og kom fram hjá megintalsmanni einkaeignarréttarmanna, Sveini Ólafssyni frá Firði, í afgreiðslu á vatnalögunum þar sem hann sagði að breytingin sem gerð var á 2. gr. frumvarpsins sem síðar varð að lögum, hafi í reynd falið það í sér að stoðum væri kippt undan hugmyndum um einkaeignarrétt að vatni. Það varð niðurstaða vatnalaganna og það hefur enginn dregið þá niðurstöðu Alþingis í efa. Það var í raun og veru sá dómur sem Alþingi kvað upp að væri réttarstaðan og henni hefur verið fylgt.

Nú, 83 árum eftir að þessi niðurstaða var fengin eftir miklar deilur þar sem menn tókust einmitt á um sömu grundvallaratriði og tekist er á um í dag þá byggðu menn afstöðu sína meira og minna á pólitískum viðhorfum til málsins, þ.e. hvort þeir studdu það að vatn heyrði undir allsherjareign eða hvort vatn væri séreign. Í þeirri umræðu voru menn mjög áfram um að fylgja afstöðu sinni. Þar fæ ég ekki séð að menn hafi reynt að skýla sér á bak við eða reynt að finna skoðunum sínum og viðhorfum farveg í einhverjum búningi þannig að þeir hafi ekki þurft að koma fram á eigin forsendum. Þar datt engum í hug að skýla sér á bak við það að vegna tiltekinnar réttarþróunar sé okkur nauðugur sá kostur að einkavæða vatnið. Menn höfðu einfaldlega þessi viðhorf og skýrðu þau með rökum. Í dag má segja að öldin sé nokkuð önnur. Nú stíga menn fram, vilja einkavæða vatnið en færa fyrir því þau rök að þeim sé nauðugur sá kostur vegna réttarþróunar sem átt hefur sér stað.

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins segja það í lokin að ég reyni að virða allar skoðanir sem menn hafa en mér þykir miður þegar menn hafa ekki kjark að stíga fram með viðhorf sín og standa og falla með þeim en reyna þess í stað að setja þau í þann búning að þeim sé laumað í gegnum þingið á fölskum forsendum.