132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[12:05]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Eins og þingmönnum er kunnugt hefur umræða um vatnalögin staðið yfir á þinginu í 35 klukkustundir en nú sér fyrir endann á henni með þeirri sátt um málsmeðferð sem náðist í þinginu í gær. Eftir stendur hinn pólitíski og efnislegi ágreiningur um málið, en það er engu síður mikilvægt að ná sátt um meðferð málsins í þinginu.

Sáttin er tvíþætt eins og komið hefur fram hjá hæstv. iðnaðarráðherra. Í fyrsta lagi er gildistöku frestað fram til nóvember 2007 eða fram yfir kosningar. Það gefur auðvitað tíma og ráðrúm til að leita sátta um breytingar á lögunum eftir næstu kosningar og við munum að sjálfsögðu beita okkur fyrir því að sú breyting verði gerð.

Í öðru lagi hefur ríkisstjórnin ákveðið að setja niður nefnd til að fara yfir öll lagaákvæði sem lúta að vatni og vatnsréttindum og þar á meðal væntanlegt frumvarp umhverfisráðherra um vatnsvernd og væntanlegt frumvarp iðnaðarráðherra um jarðrænar auðlindir. Við í Samfylkingunni lögðum mjög mikla áherslu á að þessi mál yrðu skoðuð heildstætt þannig að ekki væri eingöngu verið að taka á nýtingar- og eignarréttindum heldur líka á almannarétti og umhverfisrétti. Það hefur þá náðst núna að skipuð verður nefnd til að fara yfir og skoða þessi mál öll heildstætt, og það teljum við mjög mikilvægt.

Í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram hefur endurspeglast grundvallarágreiningur sem lýtur að skilgreiningu á eignarhaldi og nýtingarrétti á auðlindum. Þessi ágreiningur kemur upp í hvert skipti sem auðlindamál eru rædd og svo mun væntanlega verða áfram. En engu að síður, virðulegi forseti, er mikilvægt að á lokasprettinum geti menn náð saman um það hvernig halda eigi á málum í þinginu þó að hinn pólitíski ágreiningur standi eftir óleystur.