132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[12:08]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Undanfarna tíu daga hafa störf Alþingis nánast eingöngu staðið um eitt mál, ný vatnalög ríkisstjórnarflokkanna. Fyrirséð var að deilur gætu áfram staðið um langan tíma og þinghald þar með í algeru uppnámi.

Með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar nú, sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur kynnt, og gildistíma seint á haustinu 2007, að afloknum alþingiskosningum, sem og nýrri yfirferð um lög og réttindi til vatnsins í nefndarstarfi, sem allir stjórnmálaflokkar koma að, var það mat okkar í stjórnarandstöðunni að rétt væri að stuðla að því að ýta þessum ágreiningi til hliðar um sinn og yfir á annan vettvang og taka þar með til umfjöllunar önnur nauðsynleg mál sem þarf að leysa í hv. Alþingi.

Það kann hins vegar að fara svo að þessu máli verði á vordögum 2007 skotið til þjóðarinnar við alþingiskosningar ef ekki næst sátt um málið í þeirri nefnd sem sett verður á fót.