132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[12:27]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir skörulega og góða ræðu, málefnalega. Hún var líka stutt. Þetta var ekki sama málæðið og verið hefur undanfarna daga þar sem maður gat ekki fylgst með, hélt engum þræði. Þetta var mjög skýrt.

Nú er það svo með lög og dóma að það er alltaf miðað við lög þegar ákveðinn verknaður er framinn, t.d. afbrot, mat á einhverju eða annað slíkt. Nú eru í gildi ákveðin lög og það er búið að taka ákvörðun um að fara út í Kárahnjúkavirkjun. Það er byrjað að virkja, það er byrjað að grafa og ég veit ekki hvað. Mig langar til að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi: Telur hv. þingmaður að Alþingi geti sett lög sem breyti þeirri réttarstöðu þess fólks sem verður fyrir einhverju tjóni eða einhverju slíku varðandi Kárahnjúkavirkjun? Gilda ekki núgildandi lög um það? Auk þess sem sérlög eru um Kárahnjúkavirkjun í heild sinni. Þetta er fyrsta spurningin.

Síðan segir hv. þingmaður að ásælni í jarðir hafi aukist. Ég segi sem betur fer fyrir fátæka bændur þessa lands því að staða þeirra, sérstaklega sauðfjárbænda, hefur verið skammarlega léleg. Telur þá hv. þingmaður að það sé slæmt að ásælni í jarðir hafi aukist þannig að bændur geti fengið sæmilegt verð fyrir jarðir sínar og telur hann að samþykkt þessa frumvarps, þegar það tekur gildi, hækki verð jarða enn frekar til hagsbóta fyrir bændur?