132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[12:32]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Til að svara hv. þingmanni skýrt tel ég ekki slæmt að jarðir fátækra bænda eða annarra landeigenda á Íslandi hækki í verði, það tel ég alls ekki vera. Ég get í sjálfu sér ekki sagt af eða á um það hversu virkur þáttur til hækkunar á verði jarða þetta frumvarp gæti orðið. Ég tel mig skorta þekkingu til að svara því afgerandi. Hins vegar vil ég segja við hv. þingmann: Það eru ekki allar eignir fólks sem verða metnar til fjár. Heimahagarnir eru einu sinni heimahagar sem fólk vill fram í rauðan dauðann halda í en ekki selja. Það er ekki allt falt hjá öllu fólki. Þannig er málið að fólk sem hefur átt jarðir sem það er alið upp á og sem það hefur reynt að stunda búskap á hefur taugar til síns lands og það skiptir það ekki mestu máli hvert verðmat viðkomandi jarða er. Það eru aðrir hlutir sem skipta þetta fólk máli. (Gripið fram í.) Taugarnar til átthaganna skipta verulegu máli.

Ef sumt fer í eyði — þá erum við farin að tala um byggðastefnuna og þar er ég alveg sammála hv. þingmanni. Við skulum ræða byggðastefnuna en ekki út frá þeim eignarréttarlegu sjónarmiðum sem hann færir hér fram, að það sé svo gott fyrir bændur og landeigendur að jarðirnar hækki í verði því að þá geti þeir selt þær. Mér finnst miklu nær að við ræðum hér á hvern hátt við höldum landinu í byggð, á hvern hátt við höldum úti öflugum íslenskum landbúnaði en það er önnur umræða.