132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:06]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst sérstök ástæða til að fagna því að náðst hefur sátt um meðferð málsins á Alþingi og stjórnarandstaðan hefur látið af því málþófi sem hún hefur stundað hér undanfarna daga. Þá um leið gerir maður sér vonir um að hægt sé að ræða málið efnislega og stjórnarandstaðan fái það sem hún hefur lengi beðið um, einhver svör sem er ekki hægt að veita í þeim margra klukkustunda löngu ræðum sem hér hafa staðið yfir.

Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem fjallaði fyrst og fremst um auðlindaskýrsluna og það var vel. En af því að hún talar um að það sé sátt um meðferðina en áfram efnislegur ágreiningur um málið og pólitískur ágreiningur, sem mér skilst að snúist um meðferð málsins í sjálfu sér, þá velti ég því fyrir mér hvar efnislegi ágreiningurinn liggur. Ég heyri nefnilega ekki annað á mönnum hér, bæði á hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og á hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur hér áðan, en að þeir lýsi yfir mikilli ánægju með þau lög sem við höfum búið við frá 1923 og þá lögskipan sem við ákváðum þá. Í pólitískum áróðri halda menn því svo fram í stjórnarandstöðu að við ætlum að einkavæða vatnið og við séum að takmarka aðgang fólks að vatni o.s.frv. En hvernig getur þetta tvennt farið saman, annars vegar þessi mikla ánægja með lögin sem eru í gildi, og hafa gilt frá 1923, og síðan hin efnislega andstaða við þetta frumvarp?

Bein spurning mín til hv. ræðumanns er: Hvaða takmörk eru eignarréttinum sett í lögunum eins og þau eru? Hvaða takmörk eignarráða fasteignareiganda yfir vatni eru sett í lögunum eins og þau eru og hvaða frekari takmörk eru sett með þessu frumvarpi? Það er efnislegi ágreiningurinn í þessu máli og það er ekki nokkur leið að öðlast fullan skilning á því hvert stjórnarandstaðan, hv. þingmaður og ýmsir aðrir, eru að fara.