132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:09]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hinn pólitíski ágreiningur, efniságreiningur, í þessu máli lýtur að 1. gr. þessa frumvarps, lýtur að ýmsum skilgreiningum sem eru í 3. gr., lýtur að 4. gr., sem ber yfirskriftina Eignarréttur að vatni, og ég taldi mig hafa farið vel yfir það áðan að við teldum að það væri á því munur hvort eignarréttindi, sem fylgja auðvitað nýtingarrétti, væru skilgreind með jákvæðum eða neikvæðum hætti. Ég taldi mig hafa farið yfir það að okkur fyndist ástæða til þess að vatn hefði þarna nokkra sérstöðu og það yrði haldið í þá skilgreiningu sem er í núgildandi lögum og sem er í samræmi við það sem mér sýnist vera í norrænum rétti líka.

Nú erum við ekki þeirrar gerðar hér á þingi að við sjáum mjög langt inn í framtíðina og hvaða nýtingarmöguleikar kunna að koma upp í framtíðinni sem tengjast vatni. Þeir geta verið ýmsir og við teljum varhugavert að setja inn þessa skilgreiningu á eignarréttindum, þ.e. að þau séu almenn og það eitt þrengi eignarréttinn sem sérstaklega er tiltekið í þá veru. Við teljum að það sé varhugavert að skilgreina eignarréttindin með þeim hætti í vatnalögunum og við viljum halda okkur við þá jákvæðu skilgreiningu sem er í núgildandi lögum.