132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:10]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Í ljósi allra stóru orðanna frá Samfylkingunni í þessu máli, um að við ætlum að einkavæða vatnið, um að við séum að takmarka rétt almennings að vatni, þá verð ég að segja, frú forseti, að þetta er eitt rýrasta svar sem ég hef heyrt við jafnskýrri spurningu. Við héldum að á því væri munur, sagði hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Ég hélt ekki að á því væri munur en þeir sem segja að enginn munur sé á eru ekki dómstólarnir, þeir eiga ekki að ákveða neitt en þeir hafa túlkað lögin þannig frá upphafi að það sé enginn munur á og fræðimenn hafa haldið því fram allar götur síðan að það sé enginn munur á. Þetta er kannski ekki spurningin um hvað maður heldur. Í góðri trú taldi ég með stuðningi mínum við þetta frumvarp að ég væri ekki að breyta þeirri lögskipan sem hefur gilt síðan 1923, sem hv. þingmaður var að enda við að lýsa ánægju með. Og það að geta ekki séð inn í framtíðina. Ég er sammála því. (Forseti hringir.) Þess vegna er ekki hægt að telja réttindin tæmandi upp.