132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:13]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér var spurt: Er verið að einkavæða vatnið? Mitt svar er: Já. Það er verið að búa í haginn fyrir einkavæðingu á vatni. Þetta frumvarp er hins vegar aðeins þráður eða þræðir í miklu stærra mynstri sem verið er að leggja upp.

Á undanförnum árum hefur farið fram endurskoðun á hinum mikla vatnalagabálki frá 1923 og menn hafa verið að taka á ýmsum þáttum þeirra laga. Það var gert með lagabreytingu árið 1998 í svokölluðum auðlindalögum, það var gert í lagabreytingu á vatnsveitum og fleiri lög mætti tína til, og svo að sjálfsögðu þessi grunnlög.

Finnur Ingólfsson, þáv. hæstv. iðnaðarráðherra, sagði við umræður á Alþingi um auðlindalöggjöfina árið 1998, þegar hann hafði framsögu um stjórnarfrumvarp um það efni, að forsenda þess að hagnýta mætti vatn sem verðmæti, sem auðlind, væri að kveða skýrt á um eignarrétt á vatni. Hann sagði að sú löggjöf sem þá væri til umfjöllunar miðaði einmitt að þessu. Þá tókust menn á um þessi grundvallaratriði, hvaða reglur hafi gilt á Íslandi í gegnum aldirnar. Annars vegar voru þeir, eins og fyrrv. hæstv. iðnaðarráðherra, Finnur Ingólfsson, sem sögðu að Íslendingar hefðu byggt á eignarrétti frá fornu fari. Aðrir sögðu að slíkt væri fásinna, um væri að ræða hagnýtingarrétt, nýtingarrétt, og það tæki reyndar til fleiri hlunninda en vatnsins eins. Menn vísuðu til réttinda sjávarjarða og ábúenda þeirra og menn vísuðu í heitt vatn og kalt, hvernig menn nýttu lindirnar og hverina og hvernig það hefur verið gert í gegnum aldirnar. Við annað tækifæri hef ég rakið þessa umræðu, þær upplýsingar og þau sjónarmið sem þar komu fram.

Í lögunum frá 1923 kveður við það grunnstef að enginn eigi vatnið, menn hafi hins vegar hagnýtingarréttindi á vatni og það er kveðið á um það á jákvæðan hátt eins og kallað er á lagamáli. Þar er tilgreint með jákvæðum hætti, pósitífum hætti hver hagnýtingarrétturinn sé á hvaða sviði. Það sem verið er að gera með þeim lögum sem hér um ræðir er að snúa þessum hagnýtingarrétti yfir í séreignarrétt. Það er grundvallarbreytingin sem felst í þessu lagafrumvarpi og grundvallarrétturinn er skilgreindur á það sem lagatæknimenn kalla neikvæðan hátt. Þú átt vatnið nema í tilteknum tilvikum sem kveðið er á um í lögunum. Þetta er grundvallarbreyting sem þarna er að verða á.

Síðan koma menn og eru réttilega titlaðir sem lögfræðingar, kennarar og prófessorar (Gripið fram í: Auðvitað.) og kveða upp úr um hvað sé rétt og rangt í þessum efnum. En það gleymist þegar þeir eru kynntir til sögunnar í fjölmiðlum að láta þess getið að þar eru á ferðinni verktakar á vegum ríkisstjórnarinnar, höfundar frumvarpsins sem eru að verja þetta afkvæmi sitt og verja þá vinnu sem þeir voru keyptir til af ríkisstjórninni, að smíða þetta frumvarp og verja það. Það gleymist að kynna þá til sögunnar sem slíka. Það gleymist að nefna að þeir sem tjá sig eru núverandi og fyrrverandi hægri hendur ráðherra í ríkisstjórninni, ráðuneytisstjórar í iðnaðarráðuneyti. Það gleymist að geta þessa. (SKK: Þessi grein var skrifuð löngu áður, 1994 …) Fróðleg ræða sem við heyrum hér frá hv. þm. Sigurði Kára. Það væri gaman að heyra nánar um þetta á eftir eða við umræðuna á morgun en þetta, hæstv. forseti, er sú grundvallarbreyting sem verið er að gera á þessum lögum. Enda segir skýrt um það: „Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, …“ Þannig hljóða upphafsorð þessa frumvarps. Síðan segja menn að aðeins sé verið að breyta lögunum að forminu til, ekki innihaldi laganna. Mér finnst þetta ekki vera sannfærandi rökstuðningur. Þegar hagnýtingarrétti er breytt í séreignarrétt á þann hátt að jákvæðum lögum er snúið upp í neikvæðar skilgreiningar. Þú átt vatnið nema í þessu og hinu tilvikinu.

Síðan gerist það við umræðuna og þá sérstaklega í fjölmiðlum að ráðherrar koma fram og segja að í reynd sé verið að laga þessi lög að dómum Hæstaréttar frá fyrri tíð. Þegar menn eru spurðir, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra hvaða dóma hann eigi við, þá verður heldur fátt um svör og vísað aftur á lögfræðinga og hægri hendur, þ.e. verktakana, til að verja málið. En ég er sammála því viðhorfi sem hér kom fram m.a. frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að við megum ekki gleyma því að hér er það löggjafinn sem setur lögin. En það er að færast í vöxt á seinni tíð, ekki bara á Íslandi heldur í grannlöndum okkar einnig, t.d. í Evrópusambandinu, að dómstólar eru að færa sig upp á skaftið sem lagatúlkendur. Það eru þeir sem þróa lögin áfram. Þetta er að gerast í Evrópulöggjöf t.d. og þá gerist það þannig að það eru sett almenn grunnlög og síðan koma takmarkanir og skilyrði sem dómstólunum er látið eftir að túlka. Þetta eru m.a. átökin um þjónustutilskipun Evrópusambandsins.

Frjálshyggjumenn hrósuðu sigri eftir atkvæðagreiðsluna í Evrópuþinginu í síðasta mánuði vegna þess að þeir bentu á grunnreglurnar sem settar voru um markaðsvæðingu viðskiptanna. Félagshyggjumenn og verkalýðshreyfing reyndu að hugga sig við skilyrðin sem sett voru í samþykktirnar um beitingu grunnreglunnar vitandi vits að dómstólarnir væru líklegir til að túlka þeirra málstað í hag.

Ég vildi, hæstv. forseti, halda þessum grunnsjónarmiðum til haga að við erum með þessum lögum að takast á við grundvallarágreining, um grundvallarviðhorf til eignarréttar á almannagæðum og það er fróðlegt að horfa til þessarar umræðu í gegnum áratugina. Þá ekki síst til þeirrar miklu umræðu sem fram fór á fyrri hluta árs 1999 um auðlindalögin að þá var kveðið skýrt á um það af hálfu þeirra sem gagnrýndu auðlindalöggjöfina að þeir væru ekki að takmarka rétt bænda til nýtingar vatnsins á bújörðum þeirra. Málið snerist um allt annað og miklu meira. Það var verið að fjalla þar um vatn og gufu í jörðu, hversu langt eignarrétturinn ætti að ná niður í jörðina en það var sérstaklega kveðið á um það og tekið fram af hálfu gagnrýnenda að menn væru ekki að ráðast á almennan og sjálfsagðan rétt bænda til að nýta sér vatnið á jörðum sínum. En við lifum í allt öðrum heimi núna en menn gerðu á öndverðri 20. öldinni og reyndar allri 20. öldinni að því leyti að nú er nú er farið að takast á um einkavæðingu á vatninu og nýtingu þess sem verslunarvöru. Við sjáum það vera að gerast um heim allan að stórir auðhringar ásælast vatnið til að nýta það í hagnaðarskyni og það er réttur af allt öðrum toga en hinn sem menn horfðu til fyrr á tíð og við gerum að sjálfsögðu enn þegar kemur að nýtingu bænda á vatni á jörðum sínum.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni. Ég mun aftur kveðja mér hljóðs í 3. umr. um málið án þess þó að fara mjög ítarlega í efnisþætti frumvarpsins en ég ítreka það sem ég sagði fyrr í dag að það er árangur sem ber að fagna að gildistaka laganna verður ekki í vor eins og stefnt var að af hálfu stjórnarmeirihlutans heldur er henni skotið á frest til 1. nóvember ársins 2007, hálfu ári eftir næstu alþingiskosningar. Þá verður spurt um vatnið og þá verður kosið um vatnið. Ég ítreka þann ásetning Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að komumst við í Stjórnarráðið og fáum við nokkru um það ráðið þá koma þessi vatnalög aldrei til framkvæmda. Þau munu aldrei koma til framkvæmda. Þau munu hafa verið lagafrumvarp, óvinsælt lagafrumvarp sem aldrei varð að lögum í framkvæmd.