132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:27]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé mig tilneyddan til að gera athugasemdir við ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Ég bar þá von í brjósti nú þegar stjórnarandstaðan hefur fellt niður það málþóf sem staðið hefur á aðra viku að þá mundu menn fara að nálgast þetta mál málefnalega en hluti af þeirri ræðu sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hélt hér var það ekki, að mínu mati. Hann er enn við sama heygarðshornið, hv. þingmaður, og telur að í þessu frumvarpi felist einkavæðing á vatni. Hann hefur ekki frekar en aðrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar getað fært rök fyrir því hvers vegna svo er en við stjórnarliðar höfum haldið því fram að hér sé ekki um neina efnisbreytingu á eignarráðum fasteignaeigenda yfir vatni frá því sem verið hefur síðan vatnalögin frá 1923 voru sett.

Hv. þingmaður nefnir að við höfum fengið á fund lögfræðinga okkar sem hann kallar verktaka á vegum ríkisstjórnarinnar. Það vill samt sem áður þannig til að hér eru á ferðinni virtir fræðimenn á þessu sviði en við skulum þá líta fram hjá þeim. Við skulum þá vitna til þess sem aðrir sem eru ótengdir ríkisstjórninni hafa sagt. Ég vísa t.d. til þess sem kemur fram í umsögn laganefndar Lögmannafélags Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

„Eins og fram kemur í ítarlegri útlistun frumvarpshöfunda er hér ekki um efnisbreytingu að ræða á inntaki eignarráða fasteignareiganda heldur formbreytingu.“

Í fréttum Ríkisútvarpsins í gær var birt viðtal við Guðrúnu Gauksdóttur sem er doktor í eignarrétti og dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík og í fréttinni sagði doktorinn, með leyfi forseta: „… hafa engar eðlisbreytingar í för með sér á vatnalögum verði það samþykkt.“

Ég vildi koma þessu á framfæri, virðulegi forseti, vegna þess sem hér kom fram í upphafi ræðu hv. þingmanns.