132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:31]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þá er þetta komið fram. Hv. þingmaður er ósammála því sem lögfræðingar hafa sagt þegar þeir hafa túlkað inntak núgildandi vatnalaga. Þeir hafa verið sammála frá því að sú túlkun hófst frá árinu 1923 og hv. þingmaður getur ekki fundið einn einasta lögfræðing á Íslandi sem tekur undir túlkun hans nema þá ef vera skyldi hv. þingmaður Lúðvík Bergvinsson. Það segir ýmislegt um þann málflutning sem hér hefur farið fram. Hv. þingmaður gerir réttarsöguna og almenn sannindi í lögfræði um eignarrétt og vatnsréttindi að engu. Það er hans mál.

Sú umræða sem hv. þingmaður hefur haldið á lofti er lögfræðileg en vilji hann taka upp pólitíska umræðu um það hvernig lögin eigi að vera, það hefur hann ekki gert í þessari umræðu, þá skal ég taka þann slag.